26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3106 í B-deild Alþingistíðinda. (3241)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég fagna því, að þetta mál skuli hafa verið tekið hér upp og að hv. 4. þm. Reykv., Jón Baldvin Hannibalsson, og hæstv. utanrrh. skuli hafa upplýst það með þeim hætti sem þeir hafa hér gert. En það er aðeins eitt atriði sem ég vildi leiðrétta í frásögn hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar. Það er að Þjóðviljinn hafi verið upphafsaðili þessarar umr. hér. Það er rangt. Tilefni þessarar umr. er leiðari í Morgunblaðinu s. l. þriðjudag, sem ber heitið „Samningurinn frá 1979“. Þar ber Morgunblaðið það á fyrrv. utanrrh., Benedikt Gröndal, að hann hafi fyrir hönd íslensku ríkisstj. gert samkomulag, eins og hér stendur orðrétt: „í júlí 1979 hafi ríkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna undirritað samkomulag um framlag Bandaríkjamanna til byggingar flugstöðvar hér á landi.“ Það eina, sem Þjóðviljinn hefur gert í þessu máli, er að óska eftir því, að þessi alvarlegi áburður, sem Morgunblaðið flytur þarna á fyrrv. utanrrh., Benedikt Gröndal, væri borinn til baka. Það hefur nú verið gert hér, bæði af hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni, sem flutti orðsendingar frá fyrrv. utanrrh., Benedikt Gröndal, og eins af núv. utanrrh. Ber að fagna því, að þessi áburður Morgunblaðsins á Benedikt Gröndal skuli reynast jafntilhæfulaus og ýmislegt annað sem það ágæta blað hefur flutt um þessi mál.