26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3108 í B-deild Alþingistíðinda. (3245)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Væntanleg bygging eða byggingarframkvæmdir á Keflavíkurflugvelli við hina margumtöluðu flugstöð hafa valdið miklu umtali meðal þm., en þó meira utan þingsala en innan. Það er ágætt að þetta mál er komið á dagskrá því svo miklu umtali hefur það valdið meðal fólks vítt og breitt um landið.

Það hefur komið í ljós, að við samkomulag um myndun ríkisstj. var gerður svokallaður málefnasamningur milli þeirra sem standa að ríkisstj., leynt eða ljóst. Í þessum málefnasamningi segir að ákvörðun skuli ekki tekin um flugstöðvarbyggingu nema með samþykki allra aðila innan ríkisstj. og að allir séu sammála um að málið komi á dagskrá Alþingis. Að þessum málefnasamningi stendur naumur meiri hl. Alþingis og stendur sá meiri hl. líklega ekki saman um afgreiðslu á þessu flugvallarmáli. Ég tel að enginn flokkur eigi að hafa neitunarvald, hvorki innan ríkisstj. né á Alþingi, um að mál sem þessi geti komið á dagskrá Alþingis. Það væri að semja um að lítill hópur manna hefði neitunarvald í málum fyrir hönd Alþingis. Ég vil mótmæla því, að þetta mál komi ekki fljótlega á dagskrá. Ég óska eftir því, að þetta stórmál komi á dagskrá Alþingis hið fyrsta og Alþingi taki ákvörðun um framhaldið. Ef ríkisstj. telur sér ekki fært að bera þetta mál fram verða þeir, sem telja sig frjálsa og óháða, að bera málið fram og láta reyna á það á Alþingi hver hinn eiginlegi vilji Alþingis og alþm. í þessu máli er. Ég hef þá trú, að þrátt fyrir málefnasamninginn sé meirihlutavilji á Alþingi fyrir því, að framkvæmd við flugstöðvarbygginguna verði hafin sem fyrst.