26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3109 í B-deild Alþingistíðinda. (3248)

163. mál, fræðsla um efnahagsmál

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þessari till. sem 1. varamaður Framsfl. í Vestfjarðakjördæmi, Sigurgeir Bóasson, flutti þegar hann var hér á þingi fyrr í vetur. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa till. Hún er flutt með tilliti til þess, hve nauðsynlegt er að almenningur geri sér grein fyrir stöðu og þróun efnahagsmála.

Ég hygg að við getum öll verið sammála um að það er varla furða þótt mönnum gangi oft erfiðlega að fóta sig í þeirri umræðu sem um efnahagsmálin er. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé ákaflega nauðsynlegt fyrir allar aðgerðir í efnahagsmálum, að ríkur skilningur sé hjá almenningi á því sviði. Þessi till. er flutt til að bæta úr þessu. Með henni er gert ráð fyrir að ríkisstj. beiti sér fyrir almennri fræðslu um efnahagsmál og að stuðla að því að almenningur eigi kost á hlutlausum upplýsingum og skýringum á stöðu efnahagsmála. Þetta má mjög vel gera í gegnum fjölmiðla, m. a. sjónvarp og hljóðvarp, og ég hygg satt að segja að slíkir þættir gætu orðið vinsælir. Að vísu er það svo, að slík fræðsla hefur verið nokkur, en slitrótt. Ég leyfi mér að fullyrða að því hafi verið ákaflega vel tekið sem upp á hefur verið boðið í þessu sambandi.

Fleiri orð vil ég ekki hafa um þessa till., — mér sýnist ekki þörf á því, — en legg til, herra forseti, að henni verði vísað að lokinni umr. til hv. allshn.