26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3113 í B-deild Alþingistíðinda. (3254)

239. mál, vínveitingar á vegum ríkisins

Helgi Seljan:

Herra forseti. Þegar þessi till. kemur til umr. held ég sé rétt að skoða hana í nokkru víðara samhengi, en ekki á þann undarlega hátt sem tveir hv. þm. hafa tekið hana fyrir hér til umr., þ. e. hæstv. sjútvrh. og hv. 4. þm. Austurl. Það er alveg greinilegt, og ég harma það, að menn skuli fylgjast það illa með þingstörfum að hvorugur þessara hv. þm. hefur af því nokkra vitneskju að fyrr á þessu þingi var lögð fram af hálfu heils þingflokks — Alþfl. — ákaflega viðamikil till. um heildarstefnumörkun í áfengismálum. Um þessa till. fóru fram hér — vitanlega að báðum þessum mönnum fjarstöddum, það er greinilegt — mjög miklar umræður um áfengismál á allt öðru plani en yfirleitt gerist hér á Alþingi. Menn töluðu þar einmitt um vandamálið í hinni víðustu merkingu. Menn voru ekki að skýla sér á bak við eitthvað í því efni, heldur töluðu þeir hreint út um vandamálið í heild.

Einn þáttur í þessari till., sem þar bar á góma, var einmitt það atriði sem hér er komið fram í tillöguformi. Það vill nú einu sinni svo til, að hér eiga hlut að máli stjórnvöld sem Alþingi hlýtur að vilja hafa nokkur áhrif á hvernig hegða sér í þessum efnum. Því er ekkert óeðlilegt og þarf enga skinhelgi eða yfirdrepsskap til að þetta einstaka mál sé þar tekið út úr og lögð á það viss áhersla, ekki síst með tilliti til þess, að báðir þessir hv. þm. vita miklu betur þegar þeir segja að till. af þessu tagi og framkvæmd hennar hafi engin áhrif. Þeir mæla þarna gegn betri vitund. Ég veit að þeir vilja aðeins með þessu drepa málinu á dreif. Hefði ég þó síst trúað þeim til þess að vilja gera það, því að einmitt með því að taka þannig í þennan einstaka þátt í framhaldi af þeirri ítarlegu og merku umræðu sem varð um þessi mál hér í vetur í kjölfar rækilegrar og ítarlegrar framsöguræðu hv. þm. Árna Gunnarssonar um þetta mál, — einmitt í kjölfar hennar var eðlilegt, að þetta mál kæmi hér á dagskrá í einhverju formi, og vissulega full ástæða til þess, að menn líti einnig á þessa hlið, sem er jafnnálæg þeim og raun ber vitni.

Við flm. till. erum þess vegna ekki að skýla okkur á bak við neitt einstakt í sambandi við þetta og við erum ekki heldur að segja það —það kemur mér ekki til hugar — að hér sé um einhverja lausn að ræða sem dugi í nokkru. En ég geri ekki ekki heldur lítið úr því, hve margir málsmetandi menn í þessum efnum, sem hafa hugsað um þessi mál af alvöru og öfgalaust, gera einmitt mikið úr áhrifamætti þess sem hér er verið að leggja til. Það er ekki fyrst og fremst mín skoðun, heldur skoðun þessara manna, sem hefur orðið til þess, að mér hefur þótt sem skylt væri að hreyfa þessu hér alveg sérstaklega.

Ég ætla ekki að fara að rifja hér upp umr. sem urðu um till. hv. þm. Árna Gunnarssonar og annarra Alþfl. manna fyrr í vetur, en þær sýndu það þó að menn vilja virkilega taka á þessu máli. Það dugar ekki heldur að benda á það varðandi þessa till., að okkur væri nær að gera þetta og okkur væri nær að gera hitt, vegna þess að vitanlega eigum við að vinna samhliða á öllum sviðum að þessum málum og reyna á öllum sviðum að þrýsta á úrbætur varðandi málin í heild. Ég hef að því stutt hiklaust að þeir áhugahópar, sem um þessi mál hafa fjallað, fengju betri stuðning af hálfu Alþingis. Þeir hafa vissulega fengið það á undanförnum árum sem betur fer. Og ég fagna þeirri hreyfingu sem upplýst var af hæstv. dómsmrh. að væri á þessum málum í hans rn. og í samstarfi annarra rn. um þessi mál í heild.

Hins vegar skal ég segja það af þeirri reynslu sem ég hef af boðum opinberra aðila, að þá er eitt sem er áreiðanlegt, hvað sem menn vilja dæma um þrýsting eða ekki þrýsting, að veigunum er a. m. k. vel og rösklega að mönnum haldið. Þarf ekki mikið fyrir því að hafa að ná til þeirra, svo ekki sé meira sagt. Það hefur hins vegar stundum þurft töluvert fyrir því að hafa að ná til óáfengra drykkja í sömu veislum. Þess vegna held ég að orð hv. frsm. hafi átt við ærin rök að styðjast.

Ég man eftir því í einni ágætri veislu hér úti í Ráðherrabústað, sem ég villtist í af einhverjum ástæðum, að þar hlaut ég að verða út undan af þeirri einföldu ástæðu að mönnum hafði ekki flogið í hug að nokkur þeirra, sem í þá veislu kæmi, mundi vilja vera með glas með öðru en áfengum drykk i. Óáfengu drykkirnir höfðu hreinlega gleymst. Svo koma menn hér upp með vandlætingarsvip, eins og hæstv. sjútvrh., og segja: Þetta hef ég bara aldrei heyrt. Ég veit ekki til þess að neitt sé að þessu gert. — Þeir bjóða svo eflaust til veislu þar sem þessum veigum er haldið stíft og ríkulega að fólki.

Nei, ég er alveg sammála því, að þetta dugar ekki eitt sér. Okkur hefur ekki dottið það í hug. Það kemur hvergi fram í máli okkar. Ég vitna aftur til þeirrar þingræðu sem ég flutti þegar heildarstefnumörkun Alþfl. var hér á ferðinni. Þá minnti ég á þá ótalmörgu þætti sem inn í þetta mál koma ef við ætlum að taka raunhæft á áfengisvandamálinu. Þeir eru vissulega það margir að ég ætla ekki að gera þá að umræðuefni hér aftur.

Hitt er svo kannske meginmálið, að einhver skylda hlýtur að hvíla á þeim, sem með þessi mál fara í æðstu stólum, að hafa eitthvert smáfordæmi, en ekki að vera með beina hvatningu — við skulum sleppa þrýstingnum — til áfengisneyslu eins og nú er: Ætli hvíli ekki örlítil skylda á mönnum að gefa heldur skárra fordæmi en nú er og menn verða vitni að í hverri veislunni á fætur annarri af þessu tagi?