26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3117 í B-deild Alþingistíðinda. (3256)

239. mál, vínveitingar á vegum ríkisins

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hefði talið það mjög miður ef hér hefðu ekki orðið nokkur skoðanaskipti um þessa till., og ég fagna því, að menn hafa látið í sér heyra, — þeir sem telja að hér sé allt of langt gengið. Hún er ansi útbreidd þessi skoðun, að áfengisvandamálið sé einhvers staðar langt í burtu, það sé í barnaskólunum, það sé verkefni sem þeir séu að glíma við á Sogni eða það sem lögreglan sé að eiga við. Áfengisvandamálið er hér inni í sölum þingsins. Ég veit ekki betur en þeir séu orðnir þó nokkuð margir alþm. sem hafi haft fulla þörf á að leita sér læknis vegna þessa máls. Þeir fara að vísu fæstir að Sogni. Það þykir ekki nógu fínn staður fyrir þá stétt. Þeir fara í Freeport. Hvers vegna er þessi hræsni viðhöfð? Viljum við halda áfengisvandamálinu hér á Alþingi í felum fyrir þjóðinni? Hvers vegna þora menn ekki að viðurkenna staðreyndirnar? Það kom fram hér hjá einum andmælanda þessarar till., að það mætti að vísu segja að eftir höfðinu dönsuðu limirnir. Þarna er einmitt um aðalatriðið að ræða. Eftir höfðinu dansa limirnir. Eftir hverju öðru dansa þeir ef þeir eru hættir að dansa eftir höfðinu?

Það hefur líka verið sagt af íslenskri þjóð: Hvað höfðingjarnir hafast að hinir ætla sér leyfist það. — Eru menn svo blindir í uppeldismálum að þeir gleymi því, að hvert einasta barn þráir að verða fullorðið og fá að hegða sér eins og hinir fullorðnu, og ef hinir fullorðnu neyta áfengis er það eitt af markmiðum þeirra ungu að sjálfsögðu að ná því takmarki, ná þeim mannréttindum, þeim sessi í þjóðfélaginu að mega vera með og neyta þess? Þetta er grundvallaratriði. Hvert er aðalatriði uppeldis og árangurs á því sviði. Það er fordæmi sem er fyrsta boðorðið, annað boðorðið er líka fordæmi og þriðja boðorðið er fordæmi. Það er það sem skiptir höfuðmáli hjá hverjum einasta aðila sem vill ala upp.

Það er talað um að draga þurfi úr heildarneyslu, — en hvar á að byrja? Hvers vegna má ekki byrja hjá hinu opinbera? Er nokkuð sérstakt sem mælir gegn því, að það megi byrja á að draga úr heildarneyslu hjá hinu opinbera? Erum við ekki að ráðstafa fjármunum skattþegnanna í þessum veislum m. a.? Ég veit ekki betur. Er það ekki rétt, að kostnaður vegna heilsugæslu hafi hækkað meir en nokkuð annað á íslenskum fjárlögum? Hafa menn ekki tekið eftir því? Hvers vegna? M. a. vegna lifnaðarhátta þessarar þjóðar — og alþingismanna þar með. Hafa menn sett það upp í línurit hvert stefnir með kostnað heilsugæslunnar ef svo heldur áfram sem verið hefur á undanförnum árum? Vita menn hvar það endar? Vita menn hvenær — með sömu stefnu — hún tekur yfir allan kostnað fjárlaga ef örin heldur áfram í sömu átt?

Mér fannst það dálítið skrýtið þegar það var borið á okkur flm. að við værum að gera Alþingi hlægilegt, það þyrfti nánast heila nefnd til að bjarga því að ekki færi alþjóð að hlæja að Alþingi. Það má vel vera að þeir telji að það sé slíkt alvörumál að opinberir aðilar haldi áfram að veita vín.

Það kom meira að segja fram hér í ræðu að það væru alls ekki að mati ræðumanns fullnægjandi veitingar ef óáfengt vatn væri borið fram með mat. Óáfengt vatn! Ég varð hissa. Ég hélt að menn væru ekki orðnir svo fastir í áfengishugsuninni að það þyrfti nú sérstaklega að setja „óáfengt“ á undan vatninu í þessu sambandi, það væri nóg að tala um venjulegt íslenskt vatn í þessu sambandi.

Mér er fullkomlega ljóst að Alþingi Íslendinga hefur lítið svo á að þetta vandamál væri fyrir utan sali þingsins, en ekki innan þess, og öll umfjöllun og umræða hefur verið á þann veg. Hinir fullorðnu hafa viljað halda því fram að þetta mál ætti að leysa í skólum, þar væri vandamálið, þar ætti að taka á því. Ég vil hvetja menn til að breyta þessum hugsunarhætti. Ég vil hvetja menn til að gera sér grein fyrir því, að það eru fyrst og fremst hinir fullorðnu sem drekka það áfengi sem neytt er á Íslandi, en ekki skólakrakkar. Og ég vil hvetja menn til að gera sér grein fyrir því, að það eru hófdrykkjumenn þessa lands sem bera alla ábyrgð á áfengisneyslunni á Íslandi.

Þeir bera á henni alla ábyrgð. Undan því komast þeir ekki.