26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3119 í B-deild Alþingistíðinda. (3257)

239. mál, vínveitingar á vegum ríkisins

Flm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég vil taka undir þann stuðning sem þessi till. hefur fengið hjá ræðumönnum, að vísu nokkuð á mismunandi hátt, en allir hafa talið þörf á að þarna þyrfti eitthvað að gera og breyting þyrfti á að verða um þá framkvæmd sem verið hefur á vínveitingum opinberra aðila.

Það var sérstaklega eitt sem kom fram hjá hæstv. samgrh. og eins hjá 4. þm. Austurl. Þeir hneyksluðust á því, að ég skyldi orða það þannig að áfengi væri þrýst að mönnum, því að þeir sögðust aldrei hafa orðið varir við slíkt. Það getur vel verið að þeir, sem við því taka, finni ekki slíkan þrýsting, en þeir, sem ekki vilja þiggja, finna hann áreiðanlega. Þegar sest er að borði er gjarnan komið vín í glös og ekkert annað og tekur töluverðan tíma, ef menn vilja væta kverkarnar með einhverju öðru, að fá það, og nokkuð eru þau mörg skiptin sem bakkar eru bornir fram og þar er ekkert að hafa handa þeim sem ekki vilja neyta áfengis. Þegar farið er að veita áfengi með mat, komið með það að borði — og hæstv. sjútvrh. hvatti menn mjög hér til að neyta þess, það fór þó ekkert á milli mála, — þá er aldrei komið með óáfenga drykki með. Það er aðeins komið með áfengisflöskur. Hvað er þrýstingur á að drekka áfengi ef þetta er það ekki? Ég held að ég hafi síst þar tekið of fast til orða.

Það er, held ég, alveg ljóst bæði af því, sem segir í grg. till., og þeim orðum, sem við flm. höfum sagt hér, að okkur er ljóst að með þessu er ekki ætlað að leysa allan vanda. En nú er þannig komið að mjög fer vaxandi hópur manna, sem hafa orðið áfengissjúklingar, og sem betur fer einnig vaxandi sá hópur sem hefur hlotið þar bata við, en má hins vegar ekki áfengis neyta. Þetta er mjög vaxandi hópur en sem má ekki neyta áfengis nema eiga það víst að geta ekki haft stjórn á áfengisneyslu sinni. Af hverju á ríkisvaldið að vera að veita þá drykki sem fyrir fram er vitað að margir mega alls ekki þiggja ef þeir eiga ekki að bíða óbætanlegt tjón? Þetta hefur, held ég, verið að koma fram æ skýrar á síðustu árum og eru þess vegna meiri rök en nokkru sinni fyrr fyrir að sá háttur, sem í till. er fram settur, verði upp tekinn.

Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða þær vangaveltur sem komu fram hjá þeim sem töldu að ekki væri gagnlegt eða rétt að samþykkja þessa till. Hjá þeim flestum var það viðkvæðið að það ætti bara að gera eitthvað annað. Það er vitanlega ákaflega einföld afgreiðsla á máli.

En það er að lokum eitt. Ég minnist varla að hafa heyrt jafnsvívirðilega aðdróttun borna hér fram í ræðustól á Alþingi og kom fram í ræðu hv. 5. landsk. þm. Hún segir að forsetar Alþingis stundi þjófnað á áfengi, þeir láti panta mikið áfengi í veislur, til þess að það sé víst að það sé afgangur, og hirði síðan afganginn. Mér finnst að þarna sé um svo fáheyrða aðdróttun að ræða að ég á varla orð til að lýsa furðu minni á þessu. Ég veit ekki hvernig í ósköpunum er hægt að finna svona löguðum orðum stoð. Ég vænti þess, að svona ásakanir á þá, sem Alþingi hefur þó falið forsetaembætti, verði ekki aftur bornar fram úr þessum ræðustól.