04.11.1980
Neðri deild: 11. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Það þykir varla fínt ef stjórnarliðar tala mikið í málum. Það er minnt á, þegar þeir taka til máls kannske oft og lengi um stjfrv., að þá haldi þeir sjálfir uppi málþófi. En ég vorkenni hv. þm. ekkert að sitja einu sinni undir dálítilli umræðu um sjávarútvegsmál. Það eru því miður allt of fáir menn í hv. deild og í hv. Alþ. sem hafa lagt sig eftir því að kynna sér þau efni. Ég er viss um að þeir eru ekki miklu fleiri en tíu í þinginu sem hafa lagt sig eitthvað eftir því, hugsa um þau efni. Í gærkvöld var lokið 2. umr. um þetta mál og það voru sárafá andlit hér í þinghúsinu. Hv. þingmönnum kom ekkert við þegar verið var að fjalla um þetta mál, sem er mikilsvert á marga lund og viðkvæmt.

Ég sé varla ástæðu til að svara hv. þm. Karvel Pálmasyni — af ástæðum sem öllum mega vera ljósar. Ekki vantar desíbelin! Ég harma að manni skuli detta í hug hið gamla máltæki, að hæst glymji í tómri tunnu, — þegar hv. þm. talar.

Þegar hv. þm. vitnar til ummæla, sem höfð voru eftir mér í dagblaðinu Vísi fyrir skömmu, fer hann auðvitað rangt með. Hins vegar fór blaðið pínulitið rangt með, en maður fyrirgefur blaðamönnum ýmislegt, — þeir hafa mikið að gera og í önnum dagsins er kannske ekki alltaf víst að þeir átti sig á því, hvort 5% séu 5% eða 7.5%, það er ekki aðalatriði.

Það er rangt að ég hafi fordæmt málið í öllum meginatriðum. Það er líka rangt að ég hafi fordæmt þetta mál í öllum meginatriðum þegar ég gerði grein fyrir atkvæði mínu. Ég hef margsinnis, og ekki aðeins í þetta sjöunda sinn sem þetta mál er til meðferðar gert aths. við eðli þessa máls, það form sem er á olíugjaldinu. Það er að ýmsu leyti mjög gallað. Þeim göllum hef ég lýst hér margsinnis. En þegar höfuðskelin er þykk er kannske ekki von á því, að allt það komist þangað inn fyrir, enda skiptir það ekki máli. Aðalatriðið er að blása sig út og gera tilraun til að velta öðrum upp úr skítnum. Það eru mistök.

Ég hef aðeins gert aths. við það — og það alvarlegar aths. — að vera að hringla með olíugjaldið eins og virðist vera gert eftir því hvernig markaðurinn í Rotterdam stendur þá og þá stundina. Auðvitað er það vitleysa. Við gerðum ekki rétt í því í vor, þegar fiskverð var ákveðið í apríl, að færa olíugjaldið niður. Það er mín skoðun. Sjómenn greiddu ekki atkvæði í því máli þegar það var til meðferðar í Verðlagsráði og ekki heldur Ingólfur Ingólfsson, sem alltaf er verið að vitna hér í, ágætan mann. Þeir greiddu ekki atkvæði, þeir sáu ekki ástæðu til þess, enda get ég ekki séð enn í dag að nokkrar forsendur hafi verið til þess að að gera það. Ástandið var þannig á olíumörkuðum heimsins að það benti ekki á lækkun, en um þessi 5% varð samkomulag.

Sjómenn hafa ævinlega verið á móti því að það, sem fisksvinnslan greiði, fari ekki allt til skipta. Það þekki ég vel og miklu betur en hv. þm. Karvel Pálmason, enda stundað sjó meira og minna á hverju einasta ári síðan frá og með 1949, þegar hann var fermingarstrákur og varla það, hv. þm., verð ég að segja.

Ég nenni raunar ekki að elta tengur ólar við málflutning þessa manns. Hann er ævinlega samkvæmur sjálfum sér. Ég veit ekki hvar hann hefur lært þessar aðfarir. Var þetta gert í flokknum sem hann var í síðast? (Gripið fram í: Alþb.) Var hann þar? Já, það er þá ekki bara einn maður sem hefur fjölbreytilega pólitíska reynslu hér í þinginu.

Ég verð að segja það við minn ágæta vin, hv. þm. Matthías Bjarnason, að ég hef dálítið gaman af því að hann skuli gera sífellt tilraun til að draga mig í sinn dilk. Hann vill augsýnilega hafa mig með sér. Mig langar raunverulega líka til þess að hafa hann með mér, ósköp einfaldlega vegna þess að við vitum báðir nákvæmlega um hvernig þetta mál er. Ég veit að við gætum ekki gert honum meiri grikk en fella málið. Sannleikurinn er sá. Þannig stendur málið. Matthías veit og skilur, eins og hann hefur sagt og sagði síðast í gærkvöld, að olíugjaldið er aðeins lítill hluti af vandamálum þjóðfélagsins. Það er aðeins einn þeirra þátta sem þarf að laga. Hann viðurkenndi það. Hann var sem sagt sammála mér þegar allt kom til alls og það er gott. Það færi betur á því að þeir aðilar, sem yfirleitt fást við sjávarútvegsmál og láta sig þau einhverju skipta, yrðu meira sammála í framtíðinni, en að við séum ekki að skipta þessum aðilum, sem vinna við þennan atvinnuveg, upp í marga hópa og reyna að etja þeim saman. Það er kominn tími til þess að allir þeir, sem hlut eiga í sjávarútvegi, fari að standa saman og mynda sterka pólitíska blokk í þessu þjóðfélagi, en fara ekki að láta hávaðasama hlaupastráka, sem fá sendar skoðanir utan úr bæ, verða áhrifamenn í þessum efnum.

En ég get ekki séð það samræmi sem hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, var að halda fram að hefði verið í þeirra málflutningi frá upphafi. Ég get ekki séð með nokkru móti að það geti verið samræmi í því að vera harður á móti því að lækka gjald og vera síðan harður á móti því að hækka sama gjald. Allar forsendur eru þær sömu allan tímann. Hvílíkt samræmi! Það er allt í lagi þó við heyrum svona bull í einhverjum strákum, eins og við heyrðum áðan, sem láta sig málið raunverulega engu skipta, en það sæmir ekki slíkum heiðursmanni sem hv. 1. þm. Vestf.

Þjóðin horfir til Alþingis. Hún veit að hún er í vanda stödd. Þeim mun betur sem alþm. halda á máli sínu og þeim mun skynsamlegar sem þeir tala og þeim mun raunhæfari sem þeir eru, þeim mun fremur fær þjóðin traust á því sem hv. Alþ. er að gera. En því miður er hætta á því, að fólkið í landinu missi smám saman trúna á Alþ. ef menn leyfa sér yfirleitt slíkan málflutning.

Það er hins vegar varta þessu máli viðkomandi þegar það er sagt að ég hafi í þeim fáu orðum, sem ég sagði áðan, talað almennt gegn samráðskjaftæði. Það er útúrsnúningur vegna þess að ég minntist á samráðskjaftæðið í hv. þm. Karvel Pálmasyni. Það er svolítið annað. Hins vegar er ekki víst að þurfi að kippa í spottann til þess að ég aðstoði hæstv. forsrh. til þess að breyta ýmsu í svokölluðum Ólafslögum, því þar eru vissulega lagagreinar sem koma okkur afar illa í því ástandi sem nú er í þjóðfétaginu. Það held ég að öllum sé ljóst. Og varðandi þetta sífellda samráð, sem alls staðar kemur inn: Þar eru líka hlutir sem eru verðir umhugsunar. Ákvörðun í þeim efnum fremur en öðrum getur varta verið endanleg og óbreytanleg. Það er hættulegt, sem ég hef sagt áður að sumum finnst vera þversögn, að finna hinn endanlega sannleika. Menn eiga stöðugt að vera leitandi.

Herra forseti. Ég vil, án þess að vera að efna til einhverra illinda í málflutningi, segja það að lokum, að ég gæti verið með hv. 1. þm. Vestf. í því að breyta þessu gjaldi eða jafnvel afnema það ef við fengjum annað í staðinn. Það er býsna „billegur“ málflutningur af margreyndum mönnum við stjórnmálastörf að segja í nál., eins og hv. þm. Matthías Bjarnason gerir ásamt fylgisveinum sínum, að þeir vilji bara hafa þetta öðruvísi. Það á að leysa þetta með öðrum hætti, en þrátt fyrir allar þær ræður, sem hér hafa verið fluttar, hefur það ekki verið nefnt hvernig öðruvísi.