26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3127 í B-deild Alþingistíðinda. (3265)

242. mál, rannsóknir á háhitasvæðum landsins

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég vil, eins og aðrir sem hér hafa talað á undan mér, byrja á að lýsa ánægju minni yfir þessari fram komnu þáltill. og lýsa þeirri skoðun minni, að ég tel ekki einasta að hér sé hreyft stórmerku máli, heldur sýnist mér, að í þetta mál hafi verið lögð mikil vinna, og vil taka undir með öðrum um að þakka fyrir það framtak.

Það eru að öðru leyti sérstakar ástæður fyrir því, að mig langar til að hafa svolítinn eftirmála í þessari umr. Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli á því sem segir í niðurlagsorðum í grg. hv. flm. Þar segja þeir, með leyfi forseta:

„Vert er að hafa í huga við rannsóknaáætlun sem þessa þau áhrif, sem rannsóknin hefur á verðmæti þess lands sem rannsakað er. Rannsóknir á orkulind færa hana nær því marki að vera auðlind og þá í höndum eigenda landsins. Þetta er sérstaklega íhugunarvert þegar eigandinn er annar en ríki eða sveitarfélög. Þetta leiðir hugann að eignarrétti djúphita annars vegar og hins vegar að ákvæðum stjórnarskrárinnar um „fullt verð“ við eignarnám.“

Hér er hreyft máli sem varðar mjög þau grundvallarstefnuatriði í slíkum málum sem Alþfl.-menn hafa sett á oddinn í þjóðmálaumræðum á undanförnum árum. Hér á ég við í fyrsta lagi hugmyndir jafnaðarmanna um alþjóðareign á auðlindum landsmanna og hins vegar hugmyndir, sem mjög hefur borið á góma í umræðum, um endurskoðun stjórnarskrár og þá sérstaklega þau ákvæði, sem kveða á um mat eigna við eignarnám. Á því hefur verið vakin athygli t. d., að Norðmenn hafa fyrir nokkru endurskoðað gildandi lagaákvæði með þeim hætti, að í staðinn fyrir fullar bætur á markaðsverði, þegar um er að ræða eignir sem raunverulega eru ekki fyrst og fremst verðmæti fyrir framtak eða fjárfestingu eigandans, heldur fyrir nálægð við þéttbýlið eða vegna þess að um er að ræða nýtingu þjóðarheildarinnar á áður ónýttri auðlind, skuli koma fyrir bætur sem skilgreinast sem sanngjarnt verð. Í þessu felst að meta beri eignirnar með hliðsjón af nýtingu þeirra til þess tíma, ekki á markaðsverði. Þetta er mjög þýðingarmikið mál og ef ég skil rétt þessi ummæli flm. í grg., á þá leið að þeir vilji með þessu taka undir slík sjónarmið, þá fagna ég því sérstaklega. Þá ætti það við um þá framsóknarmenn, að batnandi mönnum er best að lifa.

Í annan stað vil ég, vegna þess að flm. vitnaði mjög í framsögu sinni til orða Sveinbjarnar Björnssonar eðlisfræðings og erindis sem hann flutti á ársfundi Rannsóknaráðs ríkisins á s. l. ári fara nokkrum orðum frekar um það sem hann þar sagði. Ég skil það svo, að þetta erindi, sem var hið merkasta, sé kveikjan að hugmyndinni um flutning þessa máls. Það er alkunna að stjórnmálamenn þiggja víða ráð í störfum sínum og sem betur fer af fleiri en efnahagssérfræðingum. Og þegar taka á ákvarðanir um meiri háttar framkvæmdir, ekki hvað síst í orkumálum, þurfa þeir mjög á að halda ráðgjöf raunvísindamanna. Því er ekki óeðlilegt að einn úr hópi þeirra verði til þess að flytja hér einmitt mál af þessu tagi. Slíkir menn eru því miður ekki nógu margir á þingi. En jafnvel í þeim málum, eins og t. d. orkumálum, er reynslan sú, að stjórnmálamenn þykjast einatt vita betur en sérfræðingar, og af því höfum við sem kunnugt er mátt súpa seyðið á undanförnum árum. Stærsti minnisvarðinn um fyrirhyggjuleysi — og mér liggur við að segja hroka hins pólitíska valds í þeim málum er að sjálfsögðu Krafla.

Oft er þetta fyrirhyggjuleysi kennt við framkvæmdagleði stjórnmálamanna. Sumum þykir slíkt mjög svo aðdáunarvert. Þetta tengist röksemdum sem oft hafa heyrst frá okkur Alþfl.-mönnum, einnig í efnahagsmálum, og lúta að gagnrýni á því stjórnkerfi sem við höfum komið okkur upp í vaxandi mæli á undanförnum árum. Það einkennist mjög af því, að þm. sem fulltrúar löggjafarvaldsins hafa í allt of ríkum mæli keppt eftir því að gerast sjálfir embættismenn. Þeir hafa seilst til þess að setjast í stofnanir framkvæmdavaldsins, einkum og sér í lagi þar sem um er að ræða úthlutun fjármuna. Þannig eru þeir daglega leiddir í þá freistni, sem þeir ættu ekki að vera, að láta atkvæðavonina ráða ákvörðunum sínum. Freistingarnar verða til þess helst að falla fyrir þeim.

Sjónarmið af þessu tagi eiga hvort tveggja við hagstjórnina og þá einnig undirbúning framkvæmda á hinu verklega sviði. Nú vil ég vekja athygli á því, að í því erindi, sem vitnað var til áðan, erindi Sveinbjarnar Björnssonar, var inntakið að meta reynsluna af þessum margfrægu Kröflumistökum. Hann spurði sjálfan sig þeirrar spurningar, hvernig við gætum í framtíðinni lært af þeim og látið þau okkur á kenningu verða. Sveinbjörn minnti á að við hefðum aðeins nýtt lítið brot af orkulindum okkar. Þess vegna viljum við gjarnan ylja okkur við dagdrauma um það sem við þannig eigum til góða. Hann minnti á að í viðurkenningarskyni við fyrri afrek okkar í hitaveituframkvæmdum hefur Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna verið valinn staður hér á landi, eins og áður er vikið að. Þessi skóli, sagði hann, er framlag okkar til þróunaraðstoðar, en einmitt í jarðhita- og fiskveiðamálum teljum við okkur helst aflögufæra til annarra þjóða. Því næst sagði Sveinbjörn Björnsson orðrétt, með leyfi forseta, og ég hygg að þau ummæli hans eigi einmitt erindi inni í þessa umr.:

„En mitt í þessari sjálfumgleði hefur stolt okkar beðið verulegan hnekki. Þeir, sem nú kenna styrkþegum við Jarðhitaskóla S. Þ., verða dálítið kindarlegir í framan þegar þeir koma að virkjun háhitasvæða í ljósi nýfenginnar reynslu eða öllu fremur í skugga reynslunnar af Kröflu. Það er ekki nema von að styrkþegarnir spyrji í sakleysi: Hvernig í ósköpunum gátuð þið lent í þessu klandri með alla ykkar þekkingu og reynslu af jarðhita og eldfjöllum? — Okkur verður tregt um svör: Var þekking okkar sjálfsblekking eða nýttum við ekki þá þekkingu sem við réðum yfir? Og það er ekki aðeins sjálfstraust okkar sem bilar, heldur einnig trú okkar á háhitasvæðin. Eru súlurnar á kortinu kannske glansmyndir, einskis verðar þegar á reynir? Þessi svartsýni er eðlileg þegar við sjáum afleiðingarnar af Kröfluævintýrinu. Í fjárlagafrv. þessa árs“ — Sveinbjörn flytur þessi orð á árinu 1980 — „eru afborganir og vaxtagreiðslur 3.9 milljarðar, sem er ríflega tvöföld fjárveiting til Orkustofnunar og álíka upphæð og fjárveiting til rekstrar alls Háskóla Íslands. Þetta er sannarlega dýrkeyptur skóli.“ — Og Kröflureikningarnir halda áfram að hækka.

Eftir að hafa gert grein fyrir æskilegum vinnubrögðum við undirbúning framkvæmda, sem vel kemur fram í grg. flm. þessarar þáltill. og í máli flm. hér áðan, þar sem menn skilgreina áfanga í verkundirbúning, forathugun, frumhönnun, verkhönnun og gerð útboðsgagna, ber að leggja á það áherslu, að þessi undirbúningur getur sem kunnugt er tekið allt að 10 ár. Um þetta segir Sveinbjörn Björnsson líka í erindi sínu:

„Ef við notum nú þennan ramma áfangaskiptingar til að glöggva okkur á stöðu undirbúnings háhitasvæða verður okkur í fyrsta lagi ljóst að þau eru flest enn á forathugunarstigi. Frumhönnun er lokið á Svartsengi og Bjarnarflagi fyrir þá vinnslu sem þar hefur verið, en í Kröflu má segja að hlaupið hafi verið yfir frumhönnun í eiginlegum skilningi, þar sem menn tóku ákvörðun um virkjun á grundvelli forathugunar og gáfu sér forsendur fyrir verkhönnun sem fengust í Bjarnarflagi, að þær giltu einnig á Kröflusvæðinu. Þarna var tímaþröng látin ráða og tekin mikil áhætta, en forsendur reyndust því miður rangar.“

Sveinbjörn vakti athygli á því, að við eigum mikið verk fyrir höndum óunnið við rannsókn á háhitasvæðum, og segir um það m. a., umfram það sem fram kemur í grg., með leyfi forseta:

„Ef einhver aðili vildi nú koma upp iðnaði á Krýsuvíkursvæðinu, sem nýtti varma svæðisins að stórum hluta, yrðum við að biðja hann að bíða í 4–5 ár meðan við gengjum úr skugga um það, hvort svæðið stæði undir þessari vinnslu og hversu hagkvæm hún yrði. Síðan færu tvö ár í verkhönnun og gerð útboðsgagna. Væri frumhönnun hins vegar lokið mætti á grundvelli hennar ákveða virkjun og hefja verkhönnun og 4–5 ár mundu sparast. Frumhönnun háhitavinnslu er dýr og þess vegna ekki þess að vænta að við getum lokið henni á öllum álitlegustu svæðunum, en þó hlýtur það að teljast góð fjárfesting að eiga nokkra virkjunarstaði frumhannaða til þess að flýta fyrir nýtingu þeirra þegar kallið kemur.“

Þetta hygg ég, að sé aðalatriðið, og það er einmitt þessum tilgangi sem umrædd þáltill. þjónar.

Að lokum langar mig til þess að segja það, að inntakið í erindi Sveinbjarnar Björnssonar var að draga rétta lærdóma af fenginni reynslu af mistökunum við Kröflu, sem er eitt af meiri háttar pólitískum ævintýrum sem orðið hafa á seinni árum. Af máli hans mátti ráða að við eigum margt ólært.

Þess má að lokum geta svona til gamans, af því að menn hafa svo oft vitnað til þessa merka fyrirlesturs, að þar sátu í heiðurssæti til þess að hlýða á eðlisfræðinginn núv. hæstv. forsrh., m. ö. o. Kröflumálaráðherra í fyrrv. ríkisstj., núv. hæstv. fjmrh., Kröflunefndarmaður, og núv. hæstv. menntmrh., Kröflunefndarmaður. Þetta þríeyki hefur síðan verið verðlaunað fyrir frammistöðuna við Kröflu með því að lyfta því í heilu lagi til æðstu valda. Megi þeir þremenningar nú læra af dýrkeyptri reynslu og erindi Sveinbjarnar.