26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3135 í B-deild Alþingistíðinda. (3269)

250. mál, siglingalög

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það var út af fyrir sig ekkert slæmt að hlusta á hæstv. dómsmrh., en ég get ekki hrósað því, hversu fróðlegt það var, vegna þess að megnið af tíma hans fór í að lesa upp úr lagasafninu. Við, sem höfum verið að flytja þessa till., höfum auðvitað skoðað lagasafnið og auk þess reynt að kynna okkur ýmis önnur gögn.

Aðalboðskapurinn í ræðu hæstv. dómsmrh. í byrjun og í lokin og ýjað að því þess á milli var um það, að við skyldum ekki rasa um ráð fram. Það á að leggjast á þetta, það er auðheyrt. En það verður auðvitað ekki lagst á þetta mál, — kannske aðeins um stundarsakir, við hugsum ekki bara í klukkutímum og dögum, — en frá þessum málum verður að ganga og þau verðum við að leysa þannig að þau séu viðunandi, en ekki óviðunandi, eins og þau eru nú og hafa lengi verið.

Það er auðvitað óviðkunnanlegt og raunar varla hægt að nefna nýleg dæmi í þessum efnum, enda er kannske varla þörf á. Þó tel ég að það væri þörf á innan tíðar að minna þá menn á, sem þekkja kannske fyrst og fremst lagahliðina í þessu máli, en ekki þær staðreyndir sem við blasa þegar menn eru í háska og eru í vandræðum og þurfa á aðstoð að halda, að kenna mætti þeim svolítið í þessum efnum. Ég ætla ekki að gera það hér.

Þessi till. á ekki að skoðast og er ekki nein árás á Landhelgisgæsluna. Hér er hvergi ómaklega vikið að Landhelgisgæslunni. Við vitum að Landhelgisgæslumenn hafa oft sýnt dugnað við að reyna að bjarga skipum og leysa vanda skipshafna úti á sjó. En sannleikurinn er sá, að menn hafa vikið sér undan því að kalla til aðstoðar Landhelgisgæsluskipin vegna þess að hún hefur krafist að margra dómi óhæfilega mikils gjalds fyrir, sem miðað er við úrelt lagaákvæði. Annað kerfi er raunar í gangi líka í landinu í þessu efni, þar sem er samhjálp skipanna í Samábyrgð Íslands o. s. frv., eins og lesið var áðan. Það er einmitt fyrirkomulag af þessu tagi sem þarf einnig að koma til varðandi Landhelgisgæsluna, en þá þarf hún sjálfsagt að fá einhverja fjármuni til. Það er ekkert óeðlilegt þó einhvern veginn yrði reynt að semja um að tryggingafélögin greiddu gæslunni fyrir slíka aðstoð. En það, sem fyrst og fremst þarf að gera, er að hverfa frá þessu skipulagi og taka upp nýja og betri siði og vera óhræddur við það og byrja ekki á því strax að reyna að víkja sér undan og fresta og drepa málið.

Við eigum aldrei — auðvitað ekki — að rasa um ráð fram í neinu. Ég hef ekki séð að þessi hæstv. ríkisstj. hafi rasað um ráð fram í nokkrum sköpuðum hlut. Það væri miklu fremur öfugt. Það hefur verið erfitt að draga hana áfram til allra verka, bæði góðra og vondra. Til þess höfum við ríkisstjórn að hún þori að takast á við málin, taka ákvarðanir og láta heyra í sér hvað hún vill, hvað hún þorir að gera, hvaða ábyrgð hún þorir að standa frammi fyrir fyrir framan kjósendur sem allir eru að drepast úr hræðslu við þó að óþarft sé.

Herra forseti. Varðskipin eiga að vera björgunarskip og eru það. Við vitum að þau hafa oft tekið, eins og ég sagði áðan, allhátt gjald fyrir tiltölulega litla þjónustu, þó að hún sé að vísu oft verðmæt, eins og t. d. að skera úr skrúfu skipa úti á sjó og langt frá landi. Ég þekki þetta sjálfur. Ég hef verið af og til til sjós áratugum saman. Menn eru að koma sér upp sundköfurum á flotanum og vera með þá sjálfir um borð til að losna við að greiða milljónir þegar menn þurfa aðeins að greiða þúsundir fyrir aðstoð sem er veitt af sjómönnum í kringum þá. Þó að þeir sjómenn séu ekki með gullna borða upp á olnboga reyna þeir að hjálpa sjálfum sér og hver öðrum svo sem þeir geta.

Meginatriðið er það, að þegar skip er illa statt nær landi eða fjær má það ekki eiga sér stað, að skipstjórnarmenn, misreynslumiklir og undir mismikilli pressu, veigra sér við að taka við aðstoð varðskips. Það er auðvitað ekkert víst á neinn handa máta að aðstoð annarra duglegra og vel útbúinna fiskiskipa sé verri en aðstoð varðskipa, það fer eftir ýmsu. En ég undrast að það skuli geta skeð í litlu samfélagi, bara geti skeð, að á meðan verið er að reyna að koma skipi til aðstoðar geti tvö nærstödd varðskip með tugum manna um borð legið í langan tíma aðgerðarlaus og fylgst með í talstöðinni. Auðvitað er ég ekki að ásaka neinn. Samt er rétt að menn velti þessu fyrir sér. Það má vera, að ef aðstoðar varðskipanna er ekki óskað eigi skipstjórnarmenn á þeim skipum, sem í vandræðum eru, að hafa allt forræði um björgunina, eins og mér heyrðist hæstv. dómsmrh. lesa upp úr einhverjum kladdanum, en þegar liðnir eru margir klukkutímar og stöðugt er vitað að ekki hefur tekist að koma skipunum til aðstoðar — og þetta margendurtekur sig — finnst mér einkennilegt að tvö varðskip, annað þeirra sjálft flaggskip flotans, skuli geta legið aðgerðalaus nærri. Það eru fleiri sjómenn en ég í þessu landi sem undrast þetta.

Þessi mál eru ekkert flóknari né erfiðari en önnur hreyfing á þessum lögum. Við þurfum ekkert að hræðast það að hreyfa til lög, síst til betri áttar. Við erum að því alla tíð og til þess erum við kjörnir hingað og fyrir það fáum við kaup. Og við höfum breytt öðru eins og þessu. Við höfum verið hérna með kakkþykka lagabálkana á milli handanna í vetur og okkur hefur tekist að snúa þeim hér í gegnum þingið og erum sífellt að veltast með þessi mál, og við þurfum ekkert að óttast þó að við verðum að fara í gegnum nokkra dálka sem standa í lagasafninu. — Ég fagna því að taka eftir því, að hæstv. ráðh. hlustar þó.

En ég vil ekki heyra það þegar menn segja að menn leggi sig frekar í líma við björgunarstörf ef ríkulegra launa er að vænta. Aldrei hef ég fundið fyrir slíkri tilfinningu. Það hugsa ég að sjómenn hugsi ekki um — a. m. k. ekki þessir venjulegu. Þeim dettur það ekki einu sinni í hug — og nóg um það.

Herra forseti. Ég legg áherslu á það, að þessi till. verði samþykkt hér og fái þinglega meðferð og síðan verði lögð í það nokkur vinna og af alvöru, ekki af neinum hæggengum starfshópi, heldur fólki sem falið er að leysa verkið á eðlilegum tíma. Fyrr en það verður gert er hvorki ég né aðrir hv. flm. ánægðir.