26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3139 í B-deild Alþingistíðinda. (3275)

252. mál, innlent fóður

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 490 hef ég leyft mér ásamt hv. þm., sem hér sat, Sveini Jónssyni, að flytja svo hljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta kanna að hve miklu leyti unnt sé að framleiða með hagkvæmum hætti úr innlendum hráefnum og orku það fóður sem búpeningur landsmanna þarfnast.

Kannað verði annars vegar, að hve miklu leyti unnt sé að framleiða með hagkvæmum hætti úr innlendum hráefnum og orku það fóður, sem búpeningur landsmanna þarfnast, og hins vegar að hve miklu leyti með aukinni framleiðslu kjarnfóðurs úr innlendum hráefnum. Einnig verði kannað annars vegar, að hve miklu leyti þetta verði gert með bættri verkun súrheys og þurrheys og hins vegar að hve miklu leyti með aukinni framleiðslu kjarnfóðurs úr innlendum hráefnum. Sýnist slíkt hagkvæmt verði gerð langtímaáætlun um eflingu innlends fóðuriðnaðar og bætta heyverkun, þ. á m. um nauðsynlegar rannsóknir til að kanna gæði og endurbæta innlend fóðurefni, svo og til að þróa verkunar- og framleiðsluaðferðir fyrir þau.“

Þessi till. var flutt á síðasta löggjafarþingi. Þá var fyrri flm. hennar Guðrún Hallgrímsdóttir, sem þá sat á þingi sem varamaður. Tillögugerðin og grg. með þessari till. er unnið af henni og hún lagði í það mikla og nákvæma vinnu sem við flm. kunnum henni þakkir fyrir, en okkur þykir rétt og skylt að hreyfa till. á nýjan leik þar sem hún kom ekki til umræðu á Alþingi þegar hún var flutt.

Till. er með nokkuð breyttu orðalagi. Ég sé nú reyndar núna, þegar ég les þetta yfir, að þar hefur nokkur misprentun orðið á, en úr því má bæta. Sama er að segja um grg., sem þá fylgdi till. og fer hér á eftir, að orðalag er nokkuð breytt.

Ég ætla ekki að fara út í grg., hana geta menn lesið. Ég vil aðeins benda á það, að við þessa tillögugerð hefur verð miðað við árið 1979 af eðlilegum ástæðum. Það mætti vel segja að við hefðum frekar átt að taka síðasta ár sem dæmi, en árið 1979 var, eins og allir þekkja, óvenjuerfitt varðandi landbúnað og því er sjálfsagt að huga að máli eins og þessu einmitt út frá því ári og þeim erfiðleikum sem þá steðjuðu að. Svona ár er því miður ekki einsdæmi á Íslandi og við verðum að átta okkur á því verulega, hvernig skynsamlegast er að bregða við þegar herðir að eins og þá gerði.

Við vitum það auðvitað að hlutfall fóðurgildis í grasi getur farið hrapallega niður þegar veðrátta er með þeim hætti sem hún getur verst verið. Bætt heyöflun og bætt meðferð er auðvitað keppikefli í landbúnaði okkar og að því hafa bændur sannarlega unnið. Þeir hafa einnig lagt áherslu á að kjarnfóðurframleiðslan yrði sem mest innlend. Flm. þessarar till. er kunnugt um margar ályktanir Búnaðarþings og frá ýmsum öðrum samtökum bænda sem lúta að þessum efnum á einn eða annan hátt. Þessi mál hafa og oft komið fyrir Alþingi, m. a. varðandi einstakar grasköggla- eða heykögglaverksmiðjur, og er ekki neitt nema gott um það að segja. Hins vegar er það alveg ljóst, að ef við eigum að hafa heildaryfirsýn yfir þessi mál þarf langtímaáætlun sem byggir á bestu fáanlegum upplýsingum um nýtingu og m. a. um hvernig við getum samræmt þetta ýmsu öðru. Hér er minnt á fiskimjölsverksmiðjurnar okkar, skreiðarverkunina okkar, þar sem hefur ómetanlegt þjóðhagslegt gildi að nýta raforkuna til hins ýtrasta. Svo er einnig varðandi graskögglagerðina.

Við minnum á það hér rétt, að á fjörum landsins er að finna ómælt magn af rekaviði og aðeins lítill hluti hans er nýttur í girðingarstaura. Við minnum á það, að mórinn okkar er til staðar og við eigum sannarlega að huga að honum einnig. Og við minnum á það í lokin, að þar sem hér er um könnun að ræða sem krefst samstarfs nokkurra stofnana er æskilegt að aðili eins og Rannsóknaráð ríkisins fái það verkefni að samræma þessa athugun. Framleiðsla fóðurs úr innlendu hráefni handa búfé og til fiskeldis getur orðið öflug iðngrein hérlendis sé þess jafnframt gætt, að nýting orkulinda og verðlagning orku taki mið af samkeppnishæfni fóðuriðnaðar, framtíðarþörfum landbúnaðar og þjóðarhag.

Ég vil aðeins bæta því við, að frá því að till. var lögð fram hafa frekari athuganir farið fram á hagkvæmni þess að nota jarðvarma og rafmagn við þurrkun. Í því sambandi hefur það komið fram, að við framleiðslu á graskögglum má gera ráð fyrir 0.2–0.4 kg af olíu á hvert kg grasköggla. Sé reiknað með að framleiðsla landsmanna á graskögglum sé 10 000–15 000 tonn á ári er olíunotkunin á bilinu 4 000–6 000 tonn.

Enn má búast við hækkunum á olíu, — við vitum reyndar að þær eru fram undan, — auk þess sem olíuvörur gætu orðið torfengnar. Virkjun jarðvarma og notkun hans í þar til gerðum búnaði til þurrkunar á grasi er að stofnkostnaði dýrari en eldþurrkun, en engu að síður er réttlætanlegt að verja fjármunum í frekari kannanir, bæði af öryggisástæðum og vegna þess að næsta líklegt má telja að slík þurrkun gæti orðið hagkvæmari en eldþurrkun að nokkrum árum liðnum.

Nýlega hefur verið gerð könnun á hagkvæmni rafþurrkunar á fiskimjöli í samanburði við notkun olíu. Niðurstöður benda til þess, að ekki sé marktækur munur á kostnaði miðað við heildsöluverð Landsvirkjunar og 200 klst. nýtingartíma. Nú er verið að kanna hagkvæmni þess að breyta núverandi fiskimjölsþurrkurum, sem brenna svartolíu, yfir í rafhitun. Reynist slíkt hagkvæmt er brýnt að gera tilraun til að lengja nýtingartíma slíkra verksmiðja, m. a. með því að þurrka hey.

Ég ætla ekki að fara út í grg. frekar hér, enda orðið nokkuð liðið á fundartímann. Aðalatriðið er að þessi till. fái skoðun í nefnd. Ég vænti þess, að nefndin geti litið á þessa till. og tekið hana til meðferðar, helst til afgreiðslu, þó ég viti að sú ágæta nefnd, sem fær þessa till. til athugunar, hefur næg verkefni. En að lokinni þessari umræðu vil ég óska þess að till. verði vísað til hv. atvmn.