30.03.1981
Efri deild: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3151 í B-deild Alþingistíðinda. (3283)

258. mál, ný orkuver

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála, að nú hafa menn endanlega komist að þeirri niðurstöðu, og þá ekki hvað síst á Austurlandi ef marka skal orð þeirra þm. Austurl. sem hér hafa talað nú síðast, þeirra hv. þm. Egils Jónssonar og hæstv. viðskrh. Tómasar Árnasonar, að það sé kominn tími til þess að Íslendingar fari bara að lifa á rafmagni. Og kveður þá við annan tón en hjá bóndanum af Jökuldalnum, sem ályktaði sem svo 1924 í haustréttum að kannske væri nú ekki allt að marka sem heyrst hefði um rafmagnið á Seyðisfirði, kannske væri þetta rafmagn bara mest í rassinum á þeim, eins og lagt var í munn Bjarti í Sumarhúsum, en annar nafntogaður bóndi af Jökuldal sagði í raun og veru.

Ég hefði gjarnan viljað að umræðurnar um þetta frv. þeirra sjálfstæðismanna hefðu getað haldið áfram óslitið strax á eftir framsöguræðu hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, áður en hinn snjalli ómur af stóriðjuboðskapnum hætti að endurkastast á milli fjallanna hérna við Faxaflóann, á meðan mönnum var enn í fersku minni yfirlýsing hans m. a. um það, hvílíkan stórgróða og blómlega hag Íslendingar hefðu haft af álverinu í Straumsvík og járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Svo skyldi halda áfram sem stefna hefði áður verið mörkuð í sambandi við þessi tvö stóriðjuver, útlend stóriðjuver.

Ég óska þess nú af hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni — og yrði fyrir vonbrigðum ef hann synjaði mér um þá bæn mína eins og hann hefur reynst mér greiðasamur í þingmannsstarfi sínu — að hann tíundaði fyrir okkur gróðann af járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Árið 1980 var hreint tap samkvæmt opinberum skýrslum á rekstri þeirrar verksmiðju 800 millj. gkr. Áætlað tap á þessu ári, án þess að menn reiknuðu með nokkurri raforkuskömmtun, var 2.7 milljarðar gkr. Þá þegar lá það á borðinu, þegar Elkem Spigerverket — ekki stjórn járnblendiverksmiðjunnar — tók ákvörðun sína í nóv. um að loka öðrum málmblendiofninum uppi á Grundartanga vegna söluerfiðleika, vegna þess hvað verð var lágt og illa gekk að selja framleiðsluna, — þá þegar lá fyrir að það mundi borga sig — áður en til kom nokkur raforkuskömmtun — að loka verksmiðjunni algjörlega, senda starfsmönnum heim launin sín, og hefði mátt hækka launagreiðslur við verksmiðjuna um 50% og samt hefði það borgað sig að hafa verksmiðjuna lokaða og senda launin heim. Þá hefðum við haft raforkuna ókeypis eftir.

Nú fór aftur á móti svo, eftir að stjórnarfundur járnblendiverksmiðjunnar hafði verið haldinn úti í Osló í desemberbyrjun, fjórum dögum eftir að Elkem Spigerverket hafði ákveðið að loka þessum ofni, að ákveðið var að hætta um sinn málmblendiframleiðslu uppi á Grundartanga og selja Íslendingum orkuna sem járnblendiverksmiðjan keypti af þeim. Og nú bið ég menn að reikna hið hagsæla dæmi fyrir Íslendinga í sambandi við rekstur járnblendiverksmiðjunnar.

Járnblendiverksmiðjan kaupir raforkuna á 4 nýaura eða 4 gkr. kwst. Svo selur hún Íslendingum þessa orku til baka núna á þessum mánuðum fyrir 35 nýaura eða 35 gkr. Við seljum járnblendiverksmiðjunni orkuna á 4 gkr., svo kaupum við orkuna til baka nú af verksmiðjunni á 35 gkr. Og til hvers? Til þess að selja ÍSAL þessa sömu orku. Og á hvað haldið þið? Á 3.6 aura eða 3.60 gkr. — stóriðju til þess að renna nýjum stoðum undir atvinnu á Ég er ekki steinhissa á því, þótt hv. þm. Egill Jónsson lýsi yfir því hér í deild, að Austfirðingar séu reiðubúnir að standa fjárhagslegan straum af uppbyggingu og rekstri stóriðju á Austurlandi, — sennilega er þá reiknað með því að fara að þyngja útsvarið á Alla ríka,Íslandi, til þess að veita fleira fólki atvinnutækifæri. Veit hv. þm. Egill Jónsson hvað hvert atvinnutækifæri kostar í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga ef reiknaður er með sá hluti Búrfellsvirkjunar sem til þess þarf, ef úrfelli skyldi gera á Íslandi á ný til að sjá þessari verksmiðju fyrir fullri orku? Hvað giskar hv. þm. á að hvert atvinnutækifæri kosti þar, kapítalið til þess að standa undir vinnu eins manns? Það er að vísu ekki nema rétt röskur milljarður gkr. Getur hv. þm. látið sér til hugar koma hvort ekki væri e. t. v. hægt að undirbyggja atvinnutækifærið fyrir fleiri menn með öðrum hætti en stóriðju fyrir heilan milljarð gkr. — og þá með þeim hætti, að við eigum kannske von í annars konar arði af þeirri starfsemi heldur en þeim sem okkur hefur verið búinn af Grundartangaverksmiðjunni og okkur hefur verið búinn af ÍSAL?

Ekki er mér kunnugt um það, hvar hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, Egill Jónsson og hæstv. viðskrh. Tómas Árnason hafa frétt af þess háttar framleiðslufyrirtækjum í hinum vestræna eða austræna heimi sem reiðubúin séu til þess að kaupa raforku á Íslandi til orkufreks iðnaðar á þrefalt hærra verði en járnblendiverksmiðjan borgar nú fyrir orkuna til Grundartanga og hér um bil fjórfalt hærra verði en álverksmiðjan kaupir af okkur orkuna hérna til notkunar í Straumsvík. Þau fyrirtæki mætti þá reka býsna vel, ef þau ættu að skila arði umfram það sem járnblendiverksmiðjan á Grundartanga gerir, og vænti ég að hæstv. ráðh. Tómas Árnason hafi þegar á prjónunum einhverja till. til þess að bera fram innan ríkisstj. eða hér á Alþingi um bætta stjórnun þeirrar verksmiðju sem þar er rekin, fyrst hann leggur nú til að hún verði stækkuð.

Ég vil minna á það, að þegar samþykkt var 1979 að bæta við öðrum ofni járnblendiverksmiðjunnar uppi á Grundartanga, þá var það samkv. beiðni frá stjórn Landsvirkjunar, samkv. yfirlýsingum stjórnarformanns Landsvirkjunar, Jóhannesar Nordals, um að okkur mundi vanta markað fyrir orku frá Landsvirkjun veturinn 1981,— það yrði að taka annan bræðsluofninn í gang hið allra fyrsta til þess að taka við raforku frá Landsvirkjun á þeim vetri. Nei, ég undrast það í raun og veru með hvaða hætti er hægt, að fenginni þeirri reynslu sem við höfum af samskiptum við erlenda stóriðjuaðila, að fá fólk til þess að taka þátt í þessum stóriðjukór.

Ekki er mér kunnugt um að atvinnuleysi hafi sérstaklega riðið húsum á Austurlandi. Ég þykist hafa orðið þess var, að meðal stóriðjuþjóða Vestur-Evrópu hafi atvinnuleysið vaxið hraðfara síðustu 10 árin, samtímis því sem við hér uppi á Íslandi höfum getað hagað svo málum með skynsamlegum rekstri okkar þjóðlegu bjargræðisvega að hér hefur ekki orðið atvinnuleysi. Ég þykist aftur á móti sjá fram á það, að ef hægt er að trylla svo fólkið okkar að það heimti yfir sig, kalli yfir sig stóriðju af því tagi sem við höfum kynnst fram að þessu, svo að við tökum Grundartangaverksmiðjuna sem dæmi, þar sem hvert atvinnutækifæti kostar yfir milljarð gkr., þá geti blasað við okkur atvinnuleysi.

Mér kom það ekki gersamlega á óvart að heyra hæstv. viðskrh. í ræðu sinni áðan taka undir háskólasönginn um það, að nú sé það borin von að íslenskur sjávarútvegur, íslensk fiskvinnsla geti tekið við fleira fólki svo að nokkru nemi í atvinnu á komandi árum. Mér kom það ekki á óvart vegna þess að ég hafði lesið samsvarandi eða líkar yfirlýsingar frá hendi hæstv. ráðh. nýverið í blóðum. En þá þótti mér nú Hánefsstaðamanninum brugðið, því að sennilega situr enginn maður á Alþingi sem fyrr lærði það og tók þátt í því hörðum höndum að sýna fram á að lengi er hægt að taka verðmæti til viðbótar úr sjónum. Við heyrðum þennan söng í kringum 1965–1966, að nú væri svo komið að lífríki sjávar væri uppurið af vinnanlegum gæðum, nú gæti íslenskur sjávarútvegur ekki bætt við sig fleiri vinnufúsum höndum eða íslenskur fiskiðnaður. Haldið þið að ekki hafi fjölgað vinnandi höndum í íslenskum fiskiðnaði síðan þá'? Það eru enn ekki þrotin gæði á fiskimiðum hérna, þó að við þurfum um sinn að halda að okkur hendi með veiðar á þorski og ýsu.

Ég vil svo aðeins í lokin ítreka beiðni mína til hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar um að sundurliða fyrir mig þann hag, þann ágóða sem við höfum haft af rekstri Grundartangaverksmiðjunnar. Og takist mér nú að eggja hann hingað upp í ræðustólinn í þessu skyni, þá vildi ég gjarnan að hann léti fljóta með álit sitt á því, hvort líklegt sé að ÍSAL — eða annað fyrirtæki á vegum Alusuisse — yrði fáanlegt til þess að borga okkur hér um bil fjórfalt hærra verð fyrir orkuna en ÍSAL borgar núna, með sérstöku tilliti til þess, að svo virðist sem þetta fyrirtæki komist ekki af efnahagslega án þess að svíkja af okkur stórfé. Ætla skulum við, hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, að jafngöfugt fyrirtæki geri ekki slíkt nema í algerri fjárhagsneyð.

Ég hirði ekki við umr. um það frv., sem hér er á dagskrá, að taka þátt í bollaleggingum um röðun virkjana. En ég vil ekki láta dragast úr hömlu að lýsa yfir þeirri eindregnu afstöðu minni, að ég mun greiða atkv. gegn framkvæmdum í virkjunarmálum sem kalla yfir okkur aðra nýja örvitasamninga um erlenda stóriðju á Íslandi sem okkur yrði ekki nema tjón af búið.