30.03.1981
Neðri deild: 68. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3163 í B-deild Alþingistíðinda. (3295)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það var aldrei ætlun heilbr.- og trmrn. að senda frá sér villandi fréttatilkynningu í þessum efnum, eins og kom hér fram hjá hv. 1. þm. Vestf. Ég held líka að tilkynningin, eins og hún var útbúin, hafi skilist öllum þeim sem þekkja þessi mál, og vafalaust honum einnig, enda þótt hv. flokksbræður hans í Ed. hafi e. t. v. misskilið einhvern hluta hennar. Ég er viss um að hv. þm. áttaði sig á tilkynningunni strax og hann sá hana.

Það var alla vega ekki ætlunin, eins og ég sagði, að blekkja einn eða neinn í þessum efnum. Hér gerist það einfaldlega, að bætur almannatrygginga hækka yfirleitt um 6%, en tekjutrygging elli- og örorkulífeyrisþega og heimilisuppbót, sem gengur til einstaklinga, hækkar þar að auki um liðlega 8% þannig að heildarhækkunin á þessum flokkum lífeyrisdeildar almannatrygginga verður 14.6%. Nettóhækkunin hjá þeim, sem bæði eru með ellilífeyri, grunnlífeyri, og tekjutryggingu, er milli 10 og 11%, líklega 10.3% eða svo, en grunnlífeyririnn hækkar um 6% og tekjutryggingin um 14.6%.

Munurinn á þessum bótaflokkum almannatrygginga og öðrum bótaflokkum er auðvitað fyrst og fremst sá, að þessir tveir bótaflokkar ná til þeirra sem yfirleitt hafa engar aðrar tekjur. Það er auðvitað grundvallaratriði í þessum efnum hvernig með það fólk er farið, og verður að skoða málið í því samhengi. Þegar þessi hækkun var ákveðin er ljóst að hækkun á tekjutryggingu umfram laun, frá því að núverandi ríkisstj. tók við, er einhvers staðar á bilinu 10–13%, þ. e. umfram verðbætur á laun, og það verður einnig að taka mið af því þegar verið er að ákveða hækkanir á bótum almannatrygginga, eins og allir skilja.

Hv. þm. gat hér um „vasapeningana“, sem svo eru kallaðir og almannatryggingar greiða til þeirra sem eru á sjúkrastofnunum. Í tillögu hans er gert ráð fyrir því, að þar verði einnig um að ræða sérstaka hækkun, ef ég skil till. rétt, að vasapeningarnir hækki aukalega líka. Um þetta er því til að svara, að það hefur verið í athugun hjá okkur í heilbr.- og trmrn. og fjmrn. undanfarna mánuði, að um verði að ræða alveg sérstaklega meðferð á þessum vasapeningum þannig að þeir hækki mun meira en því hlutfalli nemur sem hér er gerð tillaga um. Tryggingaráð hefur fjallað um þessi mál, og ég geri ráð fyrir að niðurstaða í þeim efnum liggi fyrir alveg á næstunni. Ég treysti mér ekki á þessu stigi til að nefna neina prósentutölu, málin eru í vissri athugun, en niðurstaða ætti að liggja fyrir fljótlega.

Þetta vildi ég segja í tilefni af orðum hv. 1. þm. Vestf. og þeirri till. sem fram er komin. Loks vil ég bæta því við, sem er grundvallaratriði, að þær breytingar, sem gerðar eru varðandi verðbætur á laun í þessu frv. til l. um viðnám gegn verðbólgu, um 7% frá 1. mars, — þær breytingar eiga að skila sér aftur með alveg ákveðnum hætti á síðari hluta ársins, og það á að sjálfsögðu einnig við um viðskiptamenn almannatrygginga. Auk þeirra breytinga, sem þar koma til upp í þessi 7%, er tekin þarna sérstök ákvörðun um hækkun tekjutryggingar og heimilisuppbótar, þannig að kaupmáttur þessa fólks verður betri en orðið hefði að óbreyttu. Á þessum forsendum hafa talsmenn og þm. Alþb. og annarra stjórnarflokka hér á Alþingi að sjálfsögðu staðið gegn þeim till., sem fluttar hafa verið við meðferð þessa máls hér á hv. Alþingi, og telja þar af leiðandi enga ástæðu til að samþykkja þá till. sem hv. 1. þm. Vestf. mælti hér fyrir áðan og hann flytur ásamt nokkrum öðrum hv. þm.