15.10.1980
Efri deild: 3. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

3. mál, upplýsingar hjá almannastofnunum

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Fjvn. hefur oftast, þegar skaplega hefur verið að málum staðið, fengið lánsfjáráætlun ríkisstj. til upplýsinga áður en fjárlög voru afgreidd. Það tel ég höfuðnauðsyn að gert sé, vegna þess að fjárlög og lánsfjárlög, eins og þau hafa verið kölluð í seinni tíð, eru nátengd, eins og hv. þm. er kunnugt. Hins vegar er það svo, að þingsköp kveða á um að fjvn. taki ekki afstöðu til lánsfjáráætlunar. En hún hefur talið að hún eigi að fá upplýsingar um lánsfjáráætlun hverju sinni, og í rauninni eru það engin vinnubrögð að hún fái ekki upplýsingar um hana áður en fjárlög eru afgreidd hverju sinni. En það er fjh.- og viðskn. sem taka afstöðu til lánsfjáráætlunar. Ég verð því að svara hæstv. dómsmrh. þannig, að það er ekki eðlilegt að hv. fjvn. hafi eytt löngum tíma í afgreiðslu lánsfjáráætlunar. Hins vegar er mér fullkunnugt um það, að hv. fjh.- og viðskn. beggja deilda hafa eytt löngum tíma í að taka afstöðu til lánsfjáráætlunar hverju sinni. Það eru þær nefndir þingsins sem hefðu átt að taka ákvörðun um þetta mál, ef það hefði átt að bera að sem lánsfjáráætlunarmál.