31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3186 í B-deild Alþingistíðinda. (3311)

265. mál, olíuviðskipti við Breta

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Skýrslunni, sem hefur verið gerð um Alþjóðaorkumálastofnunina, hefur verið dreift til þingflokka sem trúnaðarmáli, en ég sé enga ástæðu til að hún sé trúnaðarmál lengur. Þetta er skýrsla, sem fjallar um þetta mál efnislega, ræðir um hvaða rök það eru sem styðja að því að við gerumst aðilar að þessari stofnun sem er náttúrlega fyrst og fremst það að auka á öryggi okkar í orkumálum. Er sjálfsagt að senda hana út í stærra upplagi, t. d. til þingflokka og raunar einnig til annarra aðila, þannig að menn geti kynnt sér málið. Það er ekkert í skýrslunni sem er þannig að það þu~ að fara leynt að mínu mati.

Ég skal ekki segja um það nú hvernig ríkisstj. hefur fjallað um þetta mál og tekið ákvarðanir og vil ekki svara neinu um það. Ekki vil ég heldur svara hv. þm. Friðrik Sophussyni um það, hvort ég muni fylgja frv. sem stjórnarandstaðan kann að bera fram. Það er nú til nokkuð mikils mælst að ráðherrar lýsi því yfir hér í hv. Alþingi að þeir muni styðja frv. sem stjórnarandstaðan kunni að flytja á Alþingi. Ég vil þess vegna, af ástæðum sem ég er viss um að hv. þm. telja eðlilegar, ekkert tjá mig um það.