31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3189 í B-deild Alþingistíðinda. (3314)

375. mál, lán til íbúðabygginga

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það þarf tæplega að rifja upp að það eru liðnir þrír mánuðir síðan ríkisstj. birti í efnahagsáætlun sinni að átak skyldi gert til að breyta skammtímaskuldum húsbyggjenda í lán til lengri tíma. Þau svör, sem ráðh. gaf hér áðan, gáfu til kynna að það kæmi niðurstaða bráðum, einhvern tíma á fjórða mánuðinum. En þau svör gáfu fleira til kynna. Þau gáfu til kynna að ýmsir kerfiskarlar og stofnanafólk hafi setið sveitt við að búa til flóknar reglur yfir það, hvaða húsbyggjendur eigi kost á lánum af þessu tagi, hvaða húsbyggjendur eigi að fá lengingu á lánum — og þau hafa setið sveitt við að reyna að koma sér niður á hvers konar kjör ættu að vera á þessum lánum. Á meðan bíða húsbyggjendur.

Ég vil minna á, að lán þau, sem húsnæðismálastjórn ríkisins veitir til íbúðabyggjenda, eru innan við þriðjung af verði íbúðanna og oft ekki nema um það bil 25% af verði íbúðanna. Það kerfi, sem við höfum komið okkur upp, ætlast til þess, að ungt fólk eignist íbúðir með þeim hætti að útvega með öðrum hætti kannske um það bil 70% af íbúðarverðinu: á skammtímalánum með snöpum í bönkum, með því að ganga fyrir ættingja og vini, með því að slíta sér út og jafnvel með því að stunda undanslátt undan skatti með einum eða öðrum hætti. Þetta er sú leið sem ungt fólk neyðist til að fara við það kerfi sem við höfum komið okkur upp, — það kerfi sem gerir ráð fyrir að menn eignist íbúðir, en lætur þá ekki njóta lánafyrirgreiðslu til þess að eignast íbúðirnar með eðlilegum hætti.

Ríkisstj. hefði verið nær að fara eftir frv. okkar Alþfl. manna, sem við lögðum fram í desembermánuði, um þetta efni. Þar er húsnæðismálastjórn gert að hækka lánahlutfallið stig af stigi, eins og hæstv. núv. félmrh. hafði samþykkt í fyrri ríkisstj. samkv. stefnumörkun Magnúsar H. Magnússonar, þannig að á þessu ári væru þó húsnæðislánin a. m. k. komin upp í 35% af verði staðalíbúðar eins og þær reiknast á þeim bæ. Í annan stað átti samkv. því að koma aðstoð bankanna í þann skipulega farveg sem ráðh. hafði hér fögur orð um áðan og liggur fyrir kvitt og klárt í tillögum okkar Alþfl.- manna. Bankarnir gefa þá íbúðabyggjendum kost á verðtryggðum lánum til 15 ára á lágum vöxtum. Nemur það hálfu því láni sem fengið er úr húsnæðismálastjórn. Þetta er hinn skipulegi farvegur. Þetta er það sem gera má til að koma til móts við húsbyggjendur. Með þessu móti væri komið hér sæmilega mannúðlegt samfélag, herra forseti, þar sem menn ættu von á því, að með lífeyrissjóðslánunum væru lánin komin yfir 70%. Það er eins og gerist hjá siðuðum þjóðum. Það kerfi, sem við höfum, er villimannlegt.