31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3193 í B-deild Alþingistíðinda. (3320)

375. mál, lán til íbúðabygginga

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, að dráttur á ákvörðun um þetta mál er orðinn leiðinlega langur og hefur áreiðanlega valdið mörgum tjóni. Hins vegar vil ég þakka þær upplýsingar sem hér hafa komið fram, að lausn þessa máls sé í sjónmáli.

Aftur á móti lýsi ég furðu minni yfir því sem kom fram hér hjá hv. 6. þm. Reykv. Það voru upplýsingar um að sparisjóðir í landinu væru andvígir því að gera slíkar ráðstafanir fyrir viðskiptamenn sína. Það skil ég ekki og er mjög neikvætt ef satt reynist.

Ég vil taka undir það, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl., að þessi lán þurfa að vera víðtækari en aðeins að ná til lausaskulda húsbyggjenda í bankastofnunum. Við vitum að slíkar skuldir liggja víðar.

Fólk bíður vissulega eftir því, að staðið verði við þessa yfirlýsingu ríkisstj. Það kemur miklum fjölda húsbyggjenda örugglega vel í því ástandi sem er í þessum málum.

Um húsnæðismálalöggjöfina sjálfa, sem nýafgreidd hefur verið hér á hv. Alþingi, mætti margt segja. Stefnan var vissulega sú að auka félagslegan þátt húsbygginga í landinu. Það hefur tekist að verulegu leyti. Það hefur komið fram núna að umsóknir um almenn lán til húsbygginga hafa mjög dregist saman.

Ég get vel tekið undir vissa gagnrýni í sambandi við að lánstími þyrfti að vera lengri og hlutfall lána einnig hærra. Það kemur mér hins vegar vissulega spánskt fyrir sjónir að heyra fulltrúa Alþfl. tala um stefnu þeirra í húsnæðismálum. Hún var einfaldlega sú, að þeir lögðu til í því frv., sem lá fyrir Alþingi, að lánstíminn yrði 21 ár í staðinn fyrir 26 ár og vextir yrðu hærri en raunverulega varð. Þetta var ein aðalgagnrýni þeirra í sambandi við afgreiðslu frv. þannig að hér skýtur skökku við. En batnandi mönnum er best að lifa.