31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3193 í B-deild Alþingistíðinda. (3321)

375. mál, lán til íbúðabygginga

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þau svör sem hann hefur gefið. Það kom fram í máli hans, að ekki liggur allt ljóst fyrir í þessu efni. Hann gat um að menn þyrftu að skulda áður og menn þyrftu að eiga íbúð og svo hvað lánið gæti verið hátt. Það er sjálfsagt að hafa einhverjar reglur um þetta. En ég tek undir það sem kom hér fram hjá einum ræðumanni eða kannske fleiri, að ég óttast að sett verði upp of flókið kerfi til að þjóna þeim takmarkaða tilgangi sem þessu er nú ætlað.

Það hefur verið talað um seinagang í þessu máli. Það hefur viðskrh. gert og einnig stjórnarþm., hv. 2. þm. Austurl. og 1. þm. Vesturl. Ég tek undir það. Mér sýnist að ríkisstj. hafi ekkert um þetta hugsað fyrr en eftir gamlársdag. Ég geng út frá því, að þessi nefnd, sem hefur unnið fljótt og vel, eins og hæstv. félmrh. sagði, hafi ekki verið skipuð fyrr en eftir að þessi fsp. kom fram — og það var 5. febr. s. l. — nema annað upplýsist. Ég vil auðvitað hafa það sem sannara reynist.

En alvarlegast við þetta er að það er ekki verið að veita neinu nýju fjármagni til húsbyggjenda með þessu. Ef einhver framkvæmd verður í þessum efnum er aðeins verið að breyta formi lána. Ekkert nýtt fjármagn kemur inn. Ég bið menn að hafa það í huga. Það var þó þannig fyrir 25 árum, þegar síðast var leitað til bankanna formlega í þessum efnum. Það er kannske hliðstætt þessu, þegar lögin um Húsnæðismálastofnun voru fyrst sett. Þá var gert ráð fyrir með samningum við viðskiptabankana að þeir legðu fram 20 millj. á ári í tvö ár. En það var nýtt fjármagn. Samt þótti það ekki fullkomnara en svo í þá daga, að engum datt í hug að treysta á þetta til frambúðar til að byggja upp Byggingarsjóð ríkisins. Það var strax farið inn á þá braut að afla sjóðnum ákveðinna tekjustofna.

Þá er það, sem hér hefur komið fram, náttúrlega mjög alvarlegt, ef sú fyrirgreiðsla, sem hér er um að ræða þótt takmörkuð sé, nær ekki nema til lausaskulda sem eru í bönkum eða lánastofnunum. Auðvitað hafa húsbyggjendur tekið lán og skulda víða annars staðar.

Ég skal ekki ræða frekar um þetta svo augljóst sem það er. Við eigum eftir að sjá einhverja framkvæmd á þessu. En þó að framkvæmdin fari eftir vonum er hér ekki um neitt sérstakt umtalsvert átak að ræða í lánamálum þeirra sem byggja íbúðir.

Hæstv. félmrh. sagði að ég væri með hrakspár um íbúðalánakerfið. Hvers vegna er hann að segja það? Hann er að færast undan því að sagður sé sannleikurinn um það sem hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. hafa gert í þessum málum á undanförnum misserum. En hæstv. ráðh. sleppur ekki við það.

Hæstv. ráðh. sagði að ég væri að kvarta yfir því, að Byggingarsjóður ríkisins fengi stóraukin verkefni. Þetta er ekki rétt. Þetta er ekki sannleikanum samkvæmt. Ég var ekki að kvarta undan því áðan. Hæstv. ráðh. veit að í umr. um þetta á síðasta þingi, þegar rætt var um húsnæðislöggjöfina, lagði ég áherslu á mikilvægi þessa. En að hverju var ég að finna? Ég var að finna að því, að Byggingarsjóði ríkisins eru sett aukin verkefni án þess að auka tekjur sjóðsins eða ráðstöfunarfé. Þvert á móti er um leið kippt undan sjóðnum þýðingarmesta tekjustofninum. Það er þetta sem ég er að setja út á. Ég bið ráðh. að hafa þetta í huga og skjóta sér ekki undan þessum staðreyndum.