31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3197 í B-deild Alþingistíðinda. (3325)

375. mál, lán til íbúðabygginga

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er fagnaðarefni að þetta mál skuli vera rætt. Ég vil nefna hér fjögur atriði sem ég held að nauðsynlegt sé að komi fram:

Í fyrsta lagi hefur það gerst í fyrsta skipti núna í langan tíma að fallið hefur út tekjustofn sem átti að renna til húsnæðismála, en það var byggingarsjóðsgjald sem var lagt á innflutning og á tekjuskatt og var 14 millj. nýkr. Þetta féll brott.

Í öðru lagi er það ljóst, að það vantar, ef ég tel þetta gjald með, a. m. k. 4.6 milljarða gamla eða 46 nýjar millj. til þess að báðir sjóðirnir til samans hafi fengið 2% launaskatt. — Launaskattur er 3.5% Það veit kannske á eitthvað að hæstv. viðskrh. boðaði það hjá Félagi ísl. iðnrekenda um daginn, að hugsanlegt væri að leggja launaskattinn niður. Vonandi veit sú yfirlýsing á gott.

Þá vil ég nefna það, að þótt nafnvextir séu 2.5% þýðir það 53.75% í 50% verðbólgu. Þetta er ljóst og nú spyr ég: Á hið unga fólk, sem húsnæði vill eignast, að taka lán á þessum kjörum? Og svarið er auðvitað já. Þetta hefur vaxtastefnan leitt yfir okkur, — vaxtastefna sem ég hef ekkert á móti, en menn verða að viðurkenna.

Það er aðeins þessari vaxtastefnu að þakka að hægt er að bjóða það núna að bankakerfið og sparisjóðirnir láni það fjármagn sem um er að ræða. Það er enginn vandi að starfa í nefnd sem bendir á að það eigi að leysa málið með því að sækja peninga til sparifjáreigenda í bankakerfinu. Það bitnar náttúrlega fyrst og fremst á hinum, sem hefðu tekið þessa peninga að láni. En umfram allt er það mikilvægasta viðurkenningin í þessu öllu saman að Alþb. hefur nú tekið undir svokallaða raunvaxtastefnu eða hávaxtastefnu, eins og hún stundum heyrðist nefnd í Þjóðviljanum áður. Það er eingöngu henni að þakka að nú er hægt að leita á mið sparifjáreigenda sem hafa lagt fjármagn til hliðar. Þetta vonast ég til að hæstv. félmrh. viðurkenni þegar hann kemur hér í stólinn.