31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3198 í B-deild Alþingistíðinda. (3327)

375. mál, lán til íbúðabygginga

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Hæstv. félmrh. sagði að Byggingarsjóður ríkisins mundi standa við skuldbindingar sínar á þessu ári. Það er gott að heyra þetta. En það skiptir töluverðu máli hvaða skuldbindingar hæstv. ríkisstj. setur Byggingarsjóði ríkisins á þessu ári. Er það stefnumið nú í þessum málum að hækka lánin, hækka hlutfall íbúðalánanna miðað við byggingarkostnað? Nei, það er ekki lengur markmið. Ég lýsti því áðan í þessum umr. hvernig um árabil hefði verið sett fram visst markmið í þessu. En núv. ríkisstj. kemur það ekki til hugar. Hæstv. ráðh. gerir engan greinarmun á óafturkræfum framlögum til Byggingarsjóðs ríkisins og lántöku. Það er þetta sem þarf að hafa í huga þegar metið er hvað hæstv. ríkisstj. er að gera í þessum efnum.