31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3199 í B-deild Alþingistíðinda. (3329)

341. mál, lífeyrisréttindakerfi fyrir alla landsmenn

Fyrirspyrjandi (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Það er orðið alllangt umliðið síðan ég bar fram þessa fsp. Það var á fyrstu dögum þinghalds, enda er þskj. nr. 22. Ég beindi fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. þótt lífeyrissjóðirnir sem slíkir heyri að forminu til undir hæstv. fjmrh. sem hefur tekið að sér að svara fsp. Það getur verið hluti af skýringunni á því, hvað þetta hefur dregist lengi, að ég beindi fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh., en allar bætur lífeyrissjóðanna og allar lífeyrisgreiðslur hljóta þó eðli málsins samkv. að heyra undir áhugasvið og starfssvið hæstv. heilbr.- og trmrh. Hvað um það, það skiptir í sjálfu sér ekki máli hvaða hæstv. ráðh. svarar fsp.

Í kjölfar samkomulags, sem ASÍ og vinnuveitendur gerðu með sér í febr. 1976, var um mitt það ár skipuð 17 manna nefnd aðila vinnumarkaðarins og ríkisstj. til að vera vettvangur fyrir heildarendurskoðun á lífeyrisskipan og tillögugerð um nýtt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Önnur nefnd 7 manna, sem síðar varð 8 manna, tilnefnd af sömu aðilum var einnig skipuð, einkum til að kanna málefni lífeyrisþega á samningssviði ASÍ og vinnuveitenda. Starfar sú nefnd innan 17 manna nefndarinnar í samkomulagi við ASÍ og vinnuveitendur. Í skipunarbréfi nefndarinnar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Aðilar munu vinna saman að endurskipulagningu lífeyriskerfisins. Markmið þessarar endurskipulagningar skal vera: að samfellt lífeyriskerfi taki helst til allra landsmanna, að lífeyrissjóðir og almannatryggingar tryggi öllum lífeyrisþegum viðunandi lífskjör er tryggi þróun kaupgjalds á hverjum tíma, að auka jöfnuð og öryggi meðal landsmanna sem lífeyris eiga að njóta, að lífeyrisaldur geti innan vissra marka verið breytilegur eftir vali hvers og eins lífeyrisþega, en án þess að það hafi áhrif á útgjöld kerfisins, þ. e. lífeyrir verði þar lægri og taka hans hefjist fyrr, að reynt verði að finna réttlátan grundvöll fyrir skiptingu áunninna lífeyrisréttinda milli hjóna.“

Hér eru að nokkru markaðar þær meginlínur sem að hlýtur að verða stefnt, þ. e. samfellt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Stórum áfanga að þessu marki var náð með setningu laga um eftirlaun til aldraðra í árslok 1979, þótt framkvæmd þeirra laga hafi enn sem komið er engan veginn verið sem skyldi, og vitna ég þá í svar hæstv. heilbr.- og trmrh. við fsp. minni um það 18. nóv. s. l., en því miður hefur allt of lítið miðað í rétta átt síðan það svar var gefið.

Eins og allir vita hefur um langt árabil verið mikið misræmi milli lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna annars vegar og flestra annarra launþega hins vegar. Við síðustu samninga hæstv. fjmrh. við BSRB jókst þetta misræmi verulega. Misræmið og misréttið í þessum efnum var slæmt, en er nú óþolandi.

Ýmsar hugmyndir eru uppi í þessum málum. Ein þeirra kemur fram í till. til þál. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir o. fl. flytja á þskj. 84. Eru þær hugmyndir, sem þar eru settar fram, bæði skjótvirkar og framkvæmanlegar. Þá ber og að geta frv. til laga um Lífeyrissjóð Íslands sem flutt er af hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni o. fl. Er það um margt mjög athyglisvert.

Í ársbyrjun 1979, þegar gengið var endanlega frá frv. til l. um eftirlaun til aldraðra sem samþ. var í des. sama ár, töldu þeir bjartsýnustu í 17 manna nefndinni að það mundi taka eitt ár í viðbót að fullmóta tillögur um samfellt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Aðrir í nefndinni töldu að það tæki allt að tveim árum. Síðan eru liðin full tvö ár og er því forvitnilegt að vita hvernig störfum 17 manna nefndarinnar miðar áfram. Miklar umr. hljóta að fara fram á þessu þingi um lífeyrismál og er því æskilegt, ef ekki nauðsynlegt, að kynnast hugmyndum nefndarinnar sem fyrst. Auk þess finnst mér að hún hafi haft allgóðan tíma til umráða eða frá miðju ári 1976.

Herra forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Ég hef leyft mér á þskj. 22 að bera fram svofelldar spurningar:

„1. Hvað líður störfum 17 manna endurskoðunarnefndar lífeyrisréttinda?

2. Hvenær er að vænta tillagna frá nefndinni?“