05.11.1980
Efri deild: 9. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir það með hv. þm., að menn þurfa að sameinast um að finna aðra leið en olíugjaldið til að standa undir olíukostnaði útgerðarinnar og einmitt, eins og hann sagði og ég hygg að ég hafi sagt í minni framsögu, leið sem leiðir til olíusparnaðar. Ég verð hins vegar að segja að það er ekki aldeilis svo, að þetta olíugjald hafi verið stöðugt árin tvö. Í mars 1979 var olíugjaldið 2.5%, í júní 1979 var það ákveðið 7%, í júlí 1979 var það ákveðið 15%, en þar af 3% til hlutaskipta, svo að við getum sagt að það hafi verið 12% fram hjá hlutaskiptum, í okt. 1979 9%, í febr. 1980 5% og í apríl 1980 2.5%. Það hefur því aldrei verið eins lengur en eitt fiskverðstímabil. En þetta er ákaflega eðlilegt, vegna þess að hækkanir á olíu hafa verið breytilegar frá einu tímabili til annars og því hefur olíugjaldið verið notað sem eins konar öryggisventill. Það tel ég vera eðli olíugjaldsins og er því hlynntur að þannig sé með það farið. Þm. hafa ekki til þessa gert við það aths.

Ég rakti áðan þá miklu hækkun sem hefur orðið á olíu núna, þ.e. yfir 30%, og því var talið nauðsynlegt, því miður, eins og ég sagði, að hækka olíugjaldið að þessu sinni.

Ég get einnig tekið undir það með hv. þm., að ákaflega vafasamt er að reka fiskvinnsluna í núllpunktinum eins og gert hefur verið árum saman. Það er ekki fært. Hins vegar þarf fyrst að komast í núllið áður en komist verður í plúsinn, og að því hefur verið unnið í sumar.

Ég verð að lýsa undrun minni yfirkví, sem hv. þm. sagði um 6% halla fiskvinnslunnar. Ég hef ekki heyrt slíka tölu fyrr. Sjálfir hafa fiskvinnslumenn sagt að þarna bæri 2% á milli Þjóðhagsstofnunar og fiskvinnslunnar. M.a. af þeirri ástæðu lagði ég til við Þjóðhagsstofnun að endurgreiðsla af gengishagnaði yrði ekki tekin með í útreikninga Þjóðhagsstofnunar, en það er rúmlega 1%, og á það var fallist svo að það mætti jafna að einhverju þennan ágreining um vaxtabyrðina. Ég veit ekki hvort hv. þm. átti við stöðu fiskvinnslunnar eftir síðustu grunnkaupshækkun eða fyrir. (Gripið fram í.) Já, eftir. Ég er honum alveg sammála um að það er halli á fiskvinnslunni eftir. Ef hún er í núlli fyrir ber hún ekki 10% hækkun launa eftir á. Halli fiskvinnslunnar eftir á er að mati Þjóðhagsstofnunar 3%.

Sjálfsagt er að þessu verður að mæta. Það er engin leið önnur til en að mæta því. Við getum ekki rekið fiskvinnsluna með halla. Ég trúi því ekki, að þeir menn, sem kynntust því í sumar að fiskvinnslan stöðvaðist eða var við að stöðvast, skilji ekki að í veg fyrir slíkt verður að koma. Um það hefur þegar verið fjallað í ríkisstj. og ráðstafanir verða gerðar til að leiðrétta þann mun sem þarna er á orðinn.

Ég vil jafnframt taka undir það með hv. þm., að ekki er hægt að ætlast til þess, að fullkomið frystihús, eins og hann nefndi, á Vestfjörðum geti sveiflast á milli frystingar og saltfisks. Það dettur engum manni í hug. En ég vek athygli á því, að þorsk- og botnfiskaflinn hefur aukist verulega undanfarin ár. Þorskfiskaflinn var um 360 þús. lestir í fyrra, en verður nú að öllum líkindum nálægt 400 þús. lestum, svo að frystihúsin hafa fengið meiri afla úr að vinna og ættu því síður að þurfa að sveiflast á milli ef frystingin er a.m.k. arðbær. Sömuleiðis hygg ég að sjómenn geti fagnað því að hafa meiri þorskafla til að bera á land en þeir hafa áður haft og það bæti afkomu þeirra. Ég er satt að segja nokkuð bjartsýnn að þessu leyti eftir síðustu spádóma Hafrannsóknastofnunar. Þar virðist ekki sú vá fyrir dyrum sem áður var talin. Hafrannsóknastofnun telur í bréfi, sem ég hef fengið fyrir nokkru, að óhætt sé að reikna með 400 þús. tonna þorskafla á ári og samt muni hrygningarstofn þorsksins styrkjast, en þetta eru að sjálfsögðu allt aðrar upplýsingar en við höfðum áður. Ég bíð nú eftir lokahugmyndum Hafrannsóknastofnunar. Ég hef óskað eftir því að hún gefi upp þróun þorskstofnsins miðað við ákveðinn afla á ári í 5 ár, þannig að menn geti þá valið á milli leiða til þeirrar þróunar sem menn vilja hafa. Þetta er jákvætt bæði fyrir útgerð og fiskvinnslu.

Að öðru leyti þarf ég ekki að gera aths. Ég stóð ekki síst upp til þess að taka undir það með hv. þm., að bæði þarf að finna aðra leið út úr olíugjaldinu og vitanlega verður rekstrargrundvöllur frystihúsanna að vera tryggður.