31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3209 í B-deild Alþingistíðinda. (3338)

378. mál, gjaldskrárhækkanir B-hluta fyrirtækja

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég held að það væri ástæða fyrir hæstv. fjmrh. að láta reikna út hvaða máli þessi breyting á útreikningi verðbóta á laun varðandi áfengi og tóbak skiptir t. d. um næstu mánaðamót, þ. e. 1. maí n. k., þegar verðbætur verða reiknaðar út, –hvaða áhrif sú breyting að taka áfengi og tóbak út úr grunni vísitölunnar hefur á laun miðað við fyrra fyrirkomulag. Þá held ég að það komi í ljós að það er ekki ákaflega mikill munur fyrir og eftir þessa breytingu.

En hæstv. fjmrh. ræddi einnig hækkun á afnotagjöldum opinberra fyrirtækja. Þá vildi ég fara fram á það, að hæstv. fjmrh. staðfesti, annaðhvort með þögninni eða beinum orðum, að þær hækkanir, sem ríkisstj. mun leyfa eða Verðlagsráð eða jafnvel stofnanirnar sjálfar ákveða eftir 1. maí, verði teknar inn í vísitöluna sem miðuð er við þann dag. Það er nefnilega ekki upplýst hér hvaða fyrirkomulag verður á verðákvörðunum eftir 1. maí n. k. Samkv. lögum, sem samþykkt voru hér á Alþingi í gær, á verðstöðvun að ljúka 1. maí, og ég hef gert ítrekaðar tilraunir til að fá svar við þeirri fsp., hvaða fyrirkomulag varðandi verðákvarðanir verði tekið upp eftir 1. maí n. k. Ég hef ekki fengið svar við því. En það kynni svo að fara að þá væru verðákvarðanir annars vegar í höndum Verðlagsráðs varðandi almenna vöru og þjónustu og í höndum stofnananna sjálfra sem sinna opinberri þjónustu.