31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3211 í B-deild Alþingistíðinda. (3343)

378. mál, gjaldskrárhækkanir B-hluta fyrirtækja

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er ekki ástæða til að vera að sverfa mikið að hæstv. fjmrh. eða flokksbræðrum hans, hvorki í ríkisstj. né hér á Alþingi. Svo herfilega hafa þeir nú sjálfir fest sig í hengingarólinni að því er varðar skerðingu á verðbótum og launakjörum alls almennings í landinu að betur verður ekki gert. Alþb., með hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar lengi vel, hafði tekist að telja þjóðinni trú um að Alþb. væri eini flokkurinn í landinu sem ekki væri kjaraskerðingarflokkur. Nú hefur það gerst í fyrsta skipti, að ég held, að það hefur sannast að Alþb. er kannske, ef grannt er skoðað, einhver mesti kjaraskerðingarflokkur sem við höfum átt um langt árabil. Þó að ekki gefist tækifæri til þess í þessum umr. vegna tímaskorts væri ástæða til að rifja upp alla framkomu Alþb. gagnvart launafólki þessa lands, hvernig sá flokkur hefur haldið á þeim málum í verkalýðshreyfingu og í stjórnmálahreyfingu og við stjórnvöl landsins.

Ég hef nokkuð lengi, þó ungur sé, fylgst með stjórnmálum. — Það er eðlilegt að hv. þm. Ólafur Þórðarson taki við sér. Hann getur ekki sagt hið sama. — En ég minnist þess ekki fyrr, að flokkur hafi afhjúpað sig eins rækilega og Alþb. hefur gert nú gagnvart launafólki í landinu. Ég skal ekki hafa um þetta mörg fleiri orð.

Hæstv. fjmrh. sagði að hann vissi ekki um nein áform sem uppi væru. Þetta er loðið svar. Hann vissi ekki um það. Nú ræður hann vonandi ekki alfarið. En enn er spurt: Eru uppi áform af hálfu hæstv. ríkisstj. um að falsa vísitöluna með einhverjum hætti þegar verðbætur á laun eiga næst að koma til framkvæmda? Þessari spurningu er m. a. beint til hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar sem hefur talið sig í forsvari a. m. k. fyrir farandverkafólk.