31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3215 í B-deild Alþingistíðinda. (3348)

216. mál, saltverksmiðja á Reykjanesi

Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Um leið og ég lýsi ánægju minni með þá jákvæðu niðurstöðu, sem þetta mál sýnist nú hafa fengið samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu í svari hæstv. ráðh., þakka ég ráðh. svör hans. Ég gat þess í fsp. minni að bygging sjóefnaverksmiðju hefði mikla þýðingu fyrir þjóðarbúið og yrði tvímælalaust mikil lyftistöng fyrir Suðurnesin vegna staðsetningar þar. Kemur þar ekki aðeins til saltverksmiðja og framleiðsla tengdra aukaefna, svo sem kalsíumklóríðs og kalís, heldur má búast við að unnt verði að ráðast í fleiri framleiðslugreinar er fram líða stundir.

Með byggingu sjóefnaverksmiðju, er að grunni byggir á saltframleiðslu, skapast mörg atvinnutækifæri, sem ekki er vanþörf á því að samkv. nýlegri spá Þjóðhagsstofnunar virðist þurfa 100 ný atvinnutækifæri á Suðurnesjum árlega næstu árin til að taka við þeim aukna fjölda sem þar mun koma á vinnumarkað.

Í jarðhitasvæðunum á Reykjanesi liggja ótal möguleikar sem við eigum að beita kröftum okkar að til að fullnýta. Ég er því sammála því sem kom fram hjá hæstv. ráðh. í þeim efnum.

Ég veit að Suðurnesjamenn fagna þessum áfanga sem nú er að baki, og það mun ekki standa á okkur þm. Reykn. að veita atfylgi okkar við framgang þessa máls hér á Alþingi nú. Ég endurtek þakkir til ráðh. fyrir svör hans.