31.03.1981
Sameinað þing: 68. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3219 í B-deild Alþingistíðinda. (3357)

15. mál, landhelgisgæsla

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Hér er til umr. till. til þál. um fullnægjandi landhelgisgæslu, og það gleður mig mjög að heyra að nm. hafa orðið sammála um afgreiðslu þessarar tillögu.

Það er að vísu rætt um fullnægjandi landhelgisgæslu og um það má að sjálfsögðu deila hvenær hún verður fullnægjandi. En ég held að öllum hljóti að vera ljóst að landhelgisgæslan á Íslandi er nú á krossgötum. Síðan við unnum síðasta þorskastríð og fengum víðtækan rétt yfir hinni stóru landhelgi okkar hafa verkefni hennar breyst talsvert. Það eru færri erlend skip sem þarf að fylgjast með frá degi til dags, en miklum mun stærri landhelgin sjálf. Þess vegna þarf vissulega að huga að því á þessum vegamótum, hvert þessi mál skuli stefna í náinni framtíð. Það er ekki svo að skilja að þessi mál séu ekki í athugun og skoðun bæði hjá starfsmönnum Landhelgisgæslunnar og yfirmönnum hennar og svo auðvitað í dómsmrn. Þar hófum við starfandi nefnd okkur til aðstoðar og hún er skipuð þrem ágætum mönnum. Það eru Ólafur Walter Stefánsson skrifstofustjóri, Þröstur Sigtryggsson skipherra og Valdimar Indriðason framkvæmdastjóri. Þessir menn þekkja allir mjög vel til þessara mála, og það er sannarlega gott að njóta ráða svo valinkunnra manna. En það má vera deginum ljósara, að það fylgir mikil ábyrgð þessum auknu yfirráðum yfir hafsvæðunum umhverfis landið, sem við höfum nú náð valdi yfir, því við verðum bæði að vernda þau og fylgjast með því að þar sé haldið uppi rannsóknum og þau séu hagnýtt eins og best má verða fyrir þjóðina. Og við megum ekki gleyma því að þetta er engin smávegis víðátta, þar sem hafsvæðið mun vera um 758 þús km2.

Málefni Landhelgisgæslunnar voru nokkuð til umræðu hér á liðnu ári, einkum út af hinni nýju þyrlu sem kom til landsins og kom í staðinn fyrir þyrlu Gæslunnar sem fórst á haustmánuðum árið 1975. Ekki tók skemmri tíma en þessi ár, frá 1975–80, að fá þyrlu í staðinn fyrir þá sem fórst. Landhelgisgæslan átti aðra litla þyrlu, þyrluna Gró, mun minni, sem fórst í vetur við skyldustörf. Nú þarf Gæslan að fá aðra litla þyrlu í staðinn fyrir þá sem fórst í vetur. Það eru allir sammála um að sú þyrla hafi sinnt mörgum nauðsynlegum verkefnum og sé illt án hennar að vera. En ég mun gera fjvn. og öðrum aðilum nánari grein fyrir þessu efni.

Já, ég þakka n. fyrir hvað hún hefur fjallað vel um þessa till. sem ég álít alls góðs maklega. Þó kom mér í hug, a. m. k. fyrst þegar ég sá þetta nál., að það hefði e. t. v. ekki verið úr vegi fyrir nm. að ræða á einhverju stigi umfjöllunar við mig sem hef lengi verið ýmist aðalmaður eða varamaður í utanrmn. En þetta skulum við láta liggja á milli hluta.

Nú er það tillaga utanrmn. að sett verði á laggirnar sjö manna milliþinganefnd til að kanna á hvern hátt nauðsynlegt sé að efla landhelgisgæsluna. Í till. eins og hún var upphaflega var talað um fimm manna nefnd og þar var dómsmrh. falið að skipa formann. Ekki veit ég hver tilhögun verður í þessari nýrri og stærri nefnd. En látum það einnig liggja á milli hluta.

En ég verð að vekja athygli einu sinni enn á þeim alkunnu sannindum, að vegurinn til vítis er varðaður góðum áformum. Það þýðir ekki að segja: Við viljum allir efla landhelgisgæsluna og við erum allir fullir af áhuga að gera það sem allra fyrst — nema till. verði fylgt eftir.

Að því er landhelgisgæsluna varðar þarf fyrst og fremst að fylgja till. eftir með að leggja til á þingi á hausti komanda að Gæslunni verði veitt nægilegt starfsfé til að rækja skyldur sínar. En það hefur oft viljað brenna við, að stjórnmálamönnum hefur þótt nóg um hinn mikla kostnað við rekstur varðskipa og flugvéla, og það hefur ekki staðið á sparnaðarhugmyndum og miskunnarlausri gagnrýni á kostnaði við landhelgisgæsluna, a. m. k. í hinni ágætu fjvn.

Geta má þess, að það á að velja góða menn í nefndina. Ég sé að nefnd þessi á að vera bundin trúnaðarskyldu. Það veitir ekki af að minna á það nú á tímum, þegar varla er hægt að tala svo saman undir fjögur augu að það sé ekki komið út um allt daginn eftir. Það er vel til fallið að minna þessa nefnd á trúnaðarskyldu. En fyrst og síðast vil ég benda á að það verður að fylgja þessari till. eftir. Ég efast ekki um að þessi sjö manna nefnd, sem kosin verður, vinni vel, og hún gerir sjálfsagt góðar tillögur, en þeim tillögum, ég leyfi mér að segja það nú þegar á þessu stigi mála, verður að fylgja eftir með fullnægjandi fjárveitingum. Annars eru þær gagnslausar.

Lokaorð mín verða þess vegna þau, að ég endurtek þakkir mínar og tek það fram að við Íslendingar verðum að sjálfsögðu að halda uppi öflugri landhelgisgæslu á sjó og landi, en við verðum líka að tíma að greiða þann kostnað sem af því leiðir.