31.03.1981
Sameinað þing: 68. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3220 í B-deild Alþingistíðinda. (3358)

15. mál, landhelgisgæsla

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því fyrir hönd flm. þessarar till., hinnar upphaflegu till., sem eru hv. þm. Benedikt Gröndal og ég, að þakka utanrmn. það starf sem hún hefur unnið við afgreiðslu á málinu, og er fyllilega ánægður með þá niðurstöðu og þá breytingu sem nefndin gerir á till. Ég verð hins vegar að fara nokkrum orðum um það ástand sem nú ríkir hjá Landhelgisgæslunni og er fullkomlega til vansa fyrir okkar ágætu þjóð, stjórnvöld og þing. Það ástand, sem þar ríkir núna, er nánast ófremdarástand. Það er svo, að það er fullyrt að varðskip komist ekki til gæslustarfa vegna þess að það fæst ekki fjármagn til olíukaupa í skipin og þegar þau fái olíu sé þeim skammtað mjög naumt sá olíuforði sem þeim er ætlað að nota.

Ég hef að undanförnu aflað mér mikilla upplýsinga um ástandið innan Landhelgisgæslunnar og frammi fyrir hvaða vanda hún stendur þessa daga og mun standa á næstu misserum.

Ég vil láta þess getið, að á síðasta þingi flutti ég till. til þál. um smíði nýs varðskips. Mönnum þótti það þá heldur fátækleg till. og hefði lítið að gera í það tillöguflóð sem flutt var. En ég vil enn á ný benda á að meðalaldur íslensku varðskipanna er tæp 18 ár. Þór er orðinn 30 ára gamall, Óðinn er 22 ára, Ægir er 13 ára, Týr er 6 ára og Árvakur er 19 ára gamalt skip. Viðhaldskostnaður þessara skipa eykst með hverju ári sem líður, og þótt nú þegar yrði ákveðið að smíða nýtt varðskip yrði það í fyrsta lagi tilbúið eftir þrjú ár.

Ég vil líka minna á það, að íslenska landhelgin er núna 750 þús. km2 og á sama tíma og skipum og starfsmönnum Gæslunnar hefur fækkað hefur landhelgin margfaldast, eins og öllum er ljóst. Það má geta þess til samanburðar, að landhelgi Breta er helmingi minni en landhelgi Íslendinga, en þó hafa Bretar 10–12 skip við stöðug gæslustörf og nota til þeirra fjórar Nimrod-þotur sem kostar um 2000 sterlingspund að reka hverja einustu klst.

Ég sagði áðan að varðskipin væru orðin gömul. Ég vil nefna nokkur dæmi um það, hversu alvarlegt ástandið er um borð í sumum þessara skipa. Dýptarmælir varðskipsins Þórs er ónýtur og er búinn að vera það um langan tíma. Það má geta þess, að mikið af tækjum t. d. Ægis er strandgóss og tæki sem keypt eru á „tækjaútsölum“ erlendis. Fróðir menn telja almennt að fjögur virk varðskip séu algert lágmark fyrir íslensku landhelgisgæsluna, þ. e. að þrjú séu ávallt á hafinu. Nú er það svo í raunveruleikanum að það eru yfirleitt ekki nema tvö varðskip í gangi. Þá vil ég láta það koma fram, að t. d. þau lórantæki, sem um borð eru í Óðni núna, eru talin algerlega úrelt, en þau eru framleidd á árunum 1972–73.

Þannig mætti lengi telja upp dæmi um tækjakost varðskipanna. Það er kannske lakast í þessu efni að varðskipin eru oft og tíðum verr búin tækjum en þau skip sem þau hafa eftirlit með, nýir togarar og önnur skip sem hingað koma á miðin, svo ekki sé talað um hin fullkomnu skip erlendra veiðiflota sem eru hér við landið upp við 200 mílna línuna. Þá ber þess einnig að geta, að í samanburði við þá tækni, sem varnarliðið á Keflavíkurflugvelli notar í sambandi við leitarflug, er Landhelgisgæslan svo vanbúin að þar er engan samanburð hægt að gera á.

Þá vil ég snúa mér að fluginu, sem er auðvitað einn mikilsverðasti þátturinn í starfi Landhelgisgæslunnar. Flugvélin TF-Syn fór í skoðun fyrir nokkru, en skoðun af því tagi tekur minnst 15 daga. Á meðan fór nánast ekkert gæsluflug né ísflug fram. Það hefur lítið eftirlit verið haft með Dohrnbankanum og vegna skorts á tækjum telja sérfræðingar Landhelgisgæslunnar að þeir geti ekki með fullri nákvæmni reiknað út stöðu skipa sem kynnu að veiða þar innan landhelgi. Í flugvélina vantar einföldustu tæki, eins og t. d. ljóskastara sem notaður er til þess að lýsa upp númer skipa í myrkri, það vantar nákvæm staðsetningartæki og það vantar í flugvélina tæki sem heitir „flight director“ og er t. d. í öllum Fokker-flugvélum Flugleiða. Flugvélin er sem sagt mjög illa búin tækjum. Það væri hægt að telja upp mörg fleiri tæki sem flugvélin þyrfti að vera búin, en er því miður ekki.

Þá er þess að geta, að það er engin varavél fyrir TF-Syn. Hin Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar var seld. Það er út af fyrir sig efni í langa umræðu hvert söluverð þeirrar flugvélar var. Það var 675 milljónir gkr., en fróðir menn telja að fyrir vélina hefði verið hægt að fá mun hærra verð.

Þá er það skoðun þeirra manna, sem gerst þekkja til innan landhelgisgæslunnar, að þar sé margvíslegum öryggisatriðum mjög áfátt. Þetta er mjög alvarlegt mál sem þarf að skoða nákvæmlega og sem allra fyrst.

Þá vil ég minnast á það, að Gæslan hefur ekki verið látin sinna þeim verkefnum sem ég tel ákaflega eðlilegt að hún sinnti meira en gert hefur verið.

Varðskipin eru oft og tíðum á stöðugum siglingum. Það væri hægt að nota þau miklu meira sem rannsóknaskip en gert er og spara þannig hugsanlega skip Hafrannsóknastofnunar. Það væri hægt að láta þau fylgjast með mengun sjávar.

Það vantar og skortir mikið á að Landhelgisgæslan viti hvaða stöðu hún hefur í almannavarnakerfi okkar Íslendinga og er þar pottur brotinn.

Varðskipunum er ætlað að fylgjast með eða hafa um borð eftirlitsmenn sem fylgjast með veiðarfærum erlendra skipa og afla og veiðarfærum íslenskra skipa. Það skortir mjög á að þetta sé gert í nægilega ríkum mæli og starfsmenn Landhelgisgæslunnar kvarta undan því, að þjálfunarmál starfsmanna Gæslunnar séu í miklum ólestri.

Þá vil ég nefna það, að mikið vantar á að unnt sé að afla upplýsinga um hvernig hinum beinu tekjuliðum Landhelgisgæslunnar hefur verið varið á undanförnum árum. Þá á ég við Landhelgissjóð og það söluskattsstig sem átti að renna til Landhelgisgæslunnar og Hafrannsóknastofnunar og ég hef ekki í raun hugmynd um hvort geri það enn í dag eða hvort það söluskattsstig hefur verið afnumið sem tekjuliður fyrir þessar tvær stofnanir.

Þá vil ég geta eins sem mér finnst liggja í augum uppi að stjórnvöld gætu gert. Það mætti nýta Árvakur, skip Gæslunnar, sem vita-, kapal- og flutningaskip einfaldlega vegna þess að skipið er vel til þess fallið. Má geta þess að hingað til lands hafa gjarnan verið fengin rándýr erlend skip til að gera við hina ýmsu síma- og rafmagnskapla sem eru í sjó við landið, en þeir eru núna um 50 talsins. Það er mjög eðlilegt og væri mjög eðlilegt að Landhelgisgæslan tæki alfarið við vitaeftirlitinu og þjónustu við vitana og eins að gæslan yrði notuð til hreinsunar á duflum. Til þess að Árvakur kæmi að verulega góðu gagni í þeim efnum þyrfti að búa hann þyrlupalli og hafa þyrlu um borð.

Ég nefni þessi dæmi vegna þess að ég tel að það verði að grípa í taumana mjög fljótt ef ekki á að skapast enn verra ástand hjá Landhelgisgæslunni en nú hefur skapast. Mér er raunar ekki grunlaust um að hæstv. dómsmrh. hafi fulla vitneskju um hvernig staðan er þar.

Ég vil minna á að fram undan kunna að vera mikil verkefni fyrir Landhelgisgæsluna og miklu meiri en verið hafa. Ég vil minna á samninga Dana við EBE um veiðar vesturþýskra togara við Grænland, sem verða þá að veiðum alveg upp að miðlinu milli Íslands og Grænlands, og ýmislegt fleira gerir það að verkum að við verðum að vera á varðbergi. Við verðum að hafa flugflota Gæslunnar í góðu lagi og við verðum að hafa varðskipin einnig í góðu lagi út frá því sjónarmiði, að þau eiga að vernda það mikla hafsvæði sem landhelgin nær yfir, þau eiga í raun og eðli að vera björgunarskip, þau eiga að fylgjast með veiðarfærum og afla um borð í íslenskum og erlendum skipum og verkefnin eru óþrjótandi. — Ég vil minna á það í þessu sambandi, að hér á Alþingi hefur verið flutt till. um að sameina allan flugrekstur ríkisins undir einum hatti. Þetta tel ég hið mesta nauðsynjamál. Það er þá flugrekstur Flugmálastjórnar, flugrekstur sá sem fer fram í sambandi við Landgræðslu ríkisins og flugrekstur Gæslunnar. Væri eðlilegast að Gæslan hefði þar hönd í bagga og sæi um þann rekstur alfarið.

Ég hef undir höndum mikinn urmul upplýsinga og dæma um það, hvernig ástandið er hjá Landhelgisgæslunni. Ég ætla hins vegar að láta vera núna að nefna þau dæmi og tel að flestum, sem fylgjast með Landhelgisgæslunni, sé fullkunnugt um hvernig ástandið er þar. M. a. virðist vera umtalsvert sambandsleysi milli þess aðila, sem fer með fjármál Landhelgisgæslunnar, en það er Skipaútgerð ríkisins, og Gæslunnar sjálfrar, og eru dæmi þess að Landhelgisgæslan hafi orðið fyrir umtalsverðum kostnaði þar sem skip beið með fullri áhöfn í höfn og ekki var unnt að fá olíu um borð í skipið af einhverjum ástæðum.

Ég ætla sem sagt að láta bíða að nefna önnur og kannske miklu alvarlegri dæmi um það ástand, sem nú ríkir hjá Gæslunni. Ég vil taka undir þau orð hæstv. dómsmrh., að lítið þýðir fyrir okkur alþm. að tala um að nauðsynlegt sé að taka til höndunum og bæta gæsluna, — almennt kannske í blóra við það sem margir sjómenn telja að þurfi að gera, en þaðan hafa heyrst ýmsar raddir um að Landhelgisgæslan almennt væri heldur óþörf stofnun og við þyrftum varla á henni að halda lengur þar sem við værum búnir að tryggja okkur 200 mílna landhelgi, — ég vil taka undir þau orð hæstv. dómsmrh., að hér þarf að gera átak. Það er ekki endalaust hægt að skera niður hjá stofnun af því tagi sem Landhelgisgæslan er, á sama tíma og þess er krafist, að hún bæti á sig verkefnum og að hún fylgist með stöðugt stækkandi landhelgi.