31.03.1981
Sameinað þing: 68. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3236 í B-deild Alþingistíðinda. (3365)

267. mál, menntun fangavarða

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð.

Ég hef ekki hugsað mér að taka þátt í þessum umr., en ég vil í fyrsta lagi fagna fram kominni till. hv. þm. Helga Seljans og annarra hv. þm., sem eru meðflm. hennar, og tel að till. sé tvímælalaust til bóta og gripið á máli sem þörf hefði verið að grípa á fyrr og taka betur á.

Hér er ekki tími né aðstaða til að fara að ræða um gildi refsingar, hvort refsing eða fangavist þýði þjáningu, eins og ég heyrði einhvern prófessor vera að lýsa í Sakfræðingafélaginu, — eins og hv. þm. Friðrik Sophusson sæki ég fundi þar stundum. En ég vil þó benda á eitt, þó að ég beri ákaflega mikið traust til ráðuneytisstjóra dómsmrn., Baldurs Möllers, og hann hafi reynst mér og ýmsum mínum skjólstæðingum mjög hollur og mildur — og eins held ég að það sé ekki um það að deila að síðustu árin og ekki síst í dómsmálaráðherratíð Ólafs Jóhannessonar hefur þarna verið gert margt til bóta og það mjög til bóta, — þá vil ég aðeins benda á að menntun fangavarða kemur fram vegna kröfu fangavarða um launahækkun. Þetta eru kjaramál fangavarða og það er vel, ekki þar fyrir. En það er ekki ráðuneytið sjálft, það er ekki ríkisvaldið sem ríður þarna á vaðið, það eru fangaverðir, við skulum segja af góðum hug, en líka til þess að komast í einhvern sambærilegan launaflokk við lögregluþjóna eða nálgast þá eitthvað.

Hæstv. dómsmrh., eins og Helgi Seljan tók réttilega fram, er ekki að saka um í þessum efnum af stuttri ráðherratíð. Hann sagði réttilega að það stæði á peningum. Jú, víst er þetta rétt. Hvað skyldi kosta hver fangi á Litla-Hrauni? Og hvað skyldu góðir fangaverðir geta haft jákvæð áhrif á fanga? Það er réttmæli, að menntun á þessu sviði er ekki nóg ef maðurinn sjálfur hefur ekki ákveðið hugarfar og hæfni til að bera. En ég held að það sé óumdeilt, að menntun á þessu sviði geri góðan mann betri. Hvort sem hæstv. dómsmrh. líkar betur eða verr vil ég lýsa því yfir af miklum kunnugleika, að í lögregluþjónsstörfum í Reykjavík, að í fangavarðastöðum á Íslandi er mikið af afbragðsfólki, en þar er líka þó nokkur slatti af gersamlega óhæfu fólki, og mætti nú vera meira eftirlit á því en verið hefur um árabil.

Ekki skal ég nú vera að egna hæstv. dómsmrh. aftur upp í ræðustól til að verja þessa stétt. Ég tek fram að það er ákaflega flókið mál hvernig refsingu fyrir afbrot skuli háttað. Ég hef á því ákveðnar skoðanir og gætu margir þingmenn flutt hér langa fyrirlestra. Ég vil þó lýsa því yfir sem minni reynslu, að það þarf ákaflega sterkan ungan mann til þess að koma óskaddaður út úr nokkuð langri fangavist á Litla-Hrauni. Ég tel að sá maður þyrfti að vera mjög heilsugóður, til að þola þá vist eins og hún hefur verið um árabil. Og ég vil lýsa því líka yfir, þó það verði flokkað til stóryrða, að fangelsi eins og Litla-Hraun hefur því miður ekki verið betrunarhús. Þetta hefur meira og minna verið spillingarbæli. Það hefur verið til þess að gera unga menn, sem hafa hrasað, enn þá erfiðari og enn þá verri. Það hefur alveg gersamlega vantað frá hendi ríkisvaldsins og frá hendi þeirra aðila, sem hlut eiga að máli, að koma þessu unga fólki eitthvað til hjálpar þegar það hefur lokið að afplána sína refsingu. Reynslan er sú, að allt of stór hópur er þarna, gengur þarna út og inn. Þeir dvelja stuttan tíma utan fangelsa, en koma þarna síðan inn aftur. Því miður er of mikið þarna af síbrotamönnum. Ég skal ekki vera að telja hér upp dæmi endalaust, það er ekki tími til þess, þó freistandi væri að tilgreina mörg atriði. Ég endurtek einungis, að Litla-Hraun má batna ef það á að rísa undir nafni að vera eitthvert betrunarhús. Því fullyrði ég að það þarf sterkan ungan mann til þess að hann bíði ekki alvarlegt tjón af fangavist að Litla-Hrauni.

Ég viðurkenni hins vegar að þetta er mikið vandamál og erfitt við að eiga, en engu að síður hefur þetta bakað þjóðfélaginu milljónakostnað, tugmilljónakostnað, og í allt of mörgum tilfellum við sömu menn, og endurhæfing og aðstoð við marga af þessum ungu mönnum hefur nánast engin verið. Sannleikurinn er sá, að braut þessara manna er ákaflega erfið þegar þeir koma þarna út.

Hv. þm. Albert Guðmundsson gat þess, að við hefðum orðið þarna samferða í haust og honum liðið illa á eftir. Ég var viku að ná mér, ég var heila viku að ná mér eftir þessa heimsókn. Ég fór þangað í heimsókn fyrir nokkuð mörgum árum. Ég skal viðurkenna að það var mjög til bóta frá því sem þá var, en það var óhugnanlegur dvalarstaður.

Ég bind miklar vonir eins og dómsmrh. við starfsemi Verndar. Ég held að samtök þess fólks, sem þar stendur að verki, séu ákaflega jákvæð og virðingarverð. Mér sýnist að þar sé gripið á meinsemdinni, að þegar menn hafa afplánað fangavist séu þeir aðstoðaðir á hinni erfiðu braut þar sem þeim er yfirleitt alls staðar úthýst eftir fangelsisdóm.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en ég legg áherslu á menntun fanga, endurhæfingu fanga, að þeim sé gerð heimkoman auðveldari og að svokölluð betrunarhús séu ekki mannskemmandi, eins og þau hafa verið fram til þessa og mér virðist meira og minna vera enn. Þá vil ég um leið ítreka stuðning minn við till., sem hér er flutt, og vænti þess, að það verði upphaf að stuðningi Alþingis við þá sókn sem Vernd hefur nú hafið, sem hefur verulega látið til sín taka í þessum efnum. Það er ósk mín að þetta verði upphafið, en það sérstæða fámennisþjóðfélag, sem við búum í, og þeir sérstæðu þjóðfélagshættir, sem eiga vart sinn líka erlendis, geri mögulegt að við getum tekið á þessum málum mannlegar og að menn komi ekki spilltari og verri og vonlausir út úr þessum fangelsum, heldur séu þeir aðstoðaðir til sjálfsbjargar. Hitt er svo efni í heilan fyrirlestur, sem ekki er tími til að rekja hér, hvort með fangelsi og fangelsisvist, eins og dómstólar almennt dæma í, sé ekki allt of langt gengið. Ég veit að þarna eru feikilega flókin mál, þarna eru geysilega vandasöm mál í sambandi við alvarleg og slæm afbrot, en mín skoðun er sú, að dómstólar á Íslandi hafi almennt gengið of langt þegar þeir eru að dæma menn til fangelsisvistar, vegna þess að það hefur neikvæð áhrif.