01.04.1981
Efri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3240 í B-deild Alþingistíðinda. (3372)

258. mál, ný orkuver

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir til umr., er að ýmsu leyti svipað þeirri stefnu sem Alþfl. hefur mótað að því er varðar virkjunarmál og orkufrekan iðnað. Nokkur frávik eru þó að því er varðar viss atriði, en í megindráttum fellur þetta frv. að þeim sjónarmiðum sem þegar hafa verið túlkuð fyrir hönd Alþfl. í þessum málum í umr. hér á þinginu og annars staðar á opinberum vettvangi.

Nú hefur reyndar líka verið lagt fram frv. af hálfu Magnúsar H. Magnússonar og fleiri þm. Alþfl. um breytingar á lögum um Landsvirkjun sem lúta í sömu átt. Meginmunur þessara tveggja frumvarpa liggur í því,. að í frv. því, sem hv. þm. Magnús H. Magnússon og fleiri Alþfl.-menn hafa lagt fram, er röðun framkvæmda gefin allákveðið til kynna, og í annan stað er gert ráð fyrir að Landsvirkjun sé framkvæmdaaðili að öllum þeim virkjunum sem þar er gerð tillaga um.

Að því er virkjunarkosti varðar liggur munurinn kannske fyrst og fremst í því, að í frv. Magnúsar H. Magnússonar og fleiri þm. Alþfl. er enn fremur gert ráð fyrir möguleikanum á stækkun Búrfellsstöðvarinnar ásamt aðalorkuveitu. Sá kostur er ekki í því frv. til l. sem hér er til umr.

Eins og hv. deild er kunnugt fluttu þm. Alþfl. þegar við upphaf þessa þings þáltill. um aukningu orkufreks iðnaðar, þar sem gert var ráð fyrir að Alþingi ályktaði að kjósa nefnd sjö þm. til að fjalla um stórfellda aukningu á orkufrekum iðnaði næstu ár til að nýta í ríkara mæli en nú er gert hinar miklu og óbeisluðu orkulindir fallvatna og jarðhita. Tilgangur þessarar till. var að ákveða stóraukna hagnýtingu á orkulindum landsins til iðnvæðingar og með þeim hætti að stöðva afturför lífskjara og tryggja með sem skjótustum hætti batnandi afkomu, aukið atvinnuöryggi og fjölgun atvinnutækifæra og þar með að leitast við að stöðva landflóttann.

Þær tillögur, sem Alþfl.-menn í Nd. hafa flutt um þetta mál, eru í fullu samræmi við þá till. til þál., sem ég gat hér um, um aukningu orkufreks iðnaðar. Meginhugsunin í þeirri till. okkar Alþfl.-manna í Nd. er að gefa nú þegar heimildir til virkjunar á allmörgum virkjunarkostum, velja þeim forgangsröð, eins og ég gat um áðan, og að fela Landsvirkjun framkvæmd þessara mála. Að því er varðar síðast talda atriðið er rétt að rifja upp að oft hefur verið rætt um nauðsyn þess, að allar meiri háttar virkjanir og meginflutningslínur væru á hendi eins aðila. Þessi stefnumörkun hefur birst í tillögum um að virkjunarsvæði Landsvirkjunar næði til landsins alls og að Landsvirkjun risi þannig undir nafni. Það er skemmst að minnast þess, að núv. iðnrh. beitti sér mjög fyrir lagabreytingum í þessa átt. Af þeim sökum kemur mönnum vitaskuld spánskt fyrir sjónir að undirbúningur skuli nú falinn öðru fyrirtæki, því að til að ná því markmiði, að Landsvirkjun byggi og starfræki virkjanir um land allt og rísi þannig undir nafni, er auðvitað nærfelldast að fela henni að annast framkvæmd og rekstur á þeim virkjunum af stærra tagi sem fram undan eru. Þetta sjónarmið kemur fram í till. Alþfl.-mannanna í Nd. Á hitt er svo jafnframt að líta, að Landsvirkjun býr yfir mestri þekkingu og reynslu á þessu sviði og ætti því að vera hæfust til að hafa framkvæmdir og rekstur á hendi, og af þessum sökum einum saman virðist einsýnt að rétt sé að fela Landsvirkjun þetta verkefni. Um þá virkjunarkosti, sem upp eru taldir, er þó gerður sá fyrirvari í till. Alþfl.-mannanna í Nd., að ekki skuli ráðast í virkjanir nema sýnt hafi verið fram á að nægur markaður verði fyrir hendi þegar áætlað er að virkjunarframkvæmdum ljúki, nægur markaður til að tryggja hagkvæmni viðkomandi virkjunar, og má sá markaður vera annars vegar vegna aukinnar og almennrar orkunotkunar eða hins vegar með sölusamningum til orkufreks iðnaðar. Trúi ég að engum komi það á óvart, að saman fari markaður og virkjunarmál, en við leggjum sem sagt áherslu á það, að gert verði átak í þessum efnum til þess að treysta atvinnulífið í landinu.

Það er skoðun okkar Alþfl.-manna, að orkumálin og orkunýting til orkufreks iðnaðar sé sú grein atvinnulífsins sem líklegust sé til þess að fjölga atvinnutækifærum hér á landi við arðbær störf, treysta lífskjörin og eyða þannig óvissu og stöðva landflótta. Með þessu móti mundi okkur takast að snúa við af braut rýrnandi eða staðnandi lífskjara og landflótta og ná að treysta lífskjörin og auka hagvöxtinn. En það er okkur m. a. nauðsynlegt til þess að standa undir margvíslegum félagslegum verkefnum sem sinna verður í ríkara mæli en gert hefur verið til þessa.

Ég held að það sé rétt að líta á að á undanförnum 15 árum hefur verið virkjuð ein virkjun um það bil á fjögurra ára fresti eða sem svarar til að þeim virkjunum, sem hér er einkum talað um, í Sultartanga, í Blöndu og í Fljótsdal, yrði lokið á 12 árum, ef óbreyttur hraði væri í virkjunarmálunum. Þær virkjanir, sem hér er talað um, eru samtals þrjár tetrawattstundir og miðað við sama virkjunarhraða og verið hefur undanfarin 5 ár ætti þeim að verða lokið á 12 árum. Það er hins vegar eðlilegt markmið að allar þessar þrjár virkjanir verði komnar fyrr í gagnið og fyrir árið 1990. Við höfum sett okkur, Alþfl.-menn, og teljum eðlilegt að auka virkjunarhraðann um því sem næst 50%, sem mundi þá þýða að öllum þessum virkjunum yrði lokið á 8 árum. Ef sú stefna yrði tekin upp, þá er óþarfi að búa sér til landshlutaríg út af þeim virkjunum sem nú eru til umræðu. Þetta ætti að gerast með þeim hætti að halda áfram virkjunum á Þjórsársvæðinu, þar með talin Sultartangavirkjun, og bæta öðrum virkjunarkostum við og þá væntanlega í þeirri röð, að Blönduvirkjun færi í framkvæmd 1983, en það er eðlilegur undirbúningstími fyrir þá virkjun að hún hefjist þá, og síðan Fljótsdalsvirkjun svo fljótt sem undirbúningi hefði verið lokið og markaður hefði verið tryggður fyrir orkuna. En jafnframt þurfum við að snúa okkur að því af alefli að athuga möguleika á frekari orkufrekum iðnaði. Fjárhagslega ætti þetta ekki að verða okkur ofviða. Á undanförnum árum hefur fjárfestingin í virkjunarkostum að jafnaði verið 21 milljarður gkr. á ári. 50% aukning mundi þýða viðbót upp á um það bil 10 milljarða gkr., eða eins og svarar kannske til um það bil þriggja togara, og annað eins hafa menn nú látið sig hafa hér á Íslandi. En markmiðið á jafnframt að vera að hafa alltaf nægilega marga valkosti undirbúna til þess að nýta arðgæfa möguleika sem gefast kunna í orkufrekum iðnaði á hverjum tíma.

Mér sýnist að að undanförnu hafi verið fylgt eins konar músarholusjónarmiði í virkjunarmálum hér á landi. Það hefur verið stefna hæstv. iðnrh. — og er greinilega stefna hans — að gera sem minnst og sem seinast, þannig að fleyta megi sér við orkuskort eða knappa orku fram til áranna 1987 — 1988 sem aðgerðaminnst. Ég held að það sé röng stefna. Við Alþfl.-menn teljum að sú stefna, sem birtist í frv. okkar og þeim málflutningi, sem við höfum haft uppi, og birtist reyndar líka í því frv. sem hér er til umr., sé hið rétta í þessum efnum og þess vegna sé nauðsynlegt að gera stórfellt átak í þessum efnum.

Ég vil að lokum minna á það, að virkjunarframkvæmdir eru í sjálfu sér atvinnugrein hér á landi. Það er mikill fjöldi manna, sem hefur unnið við virkjunarframkvæmdir að undanförnu. Í sumar má búast við að vinni um 500 manns við Hrauneyjafossvirkjun og líklega um 100 til viðbótar í sambandi við línubyggingar. Samtals eru þá um 600 manns sem verða í þessum störfum í sumar. Í járnblendiverksmiðjunni hafa að undanförnu unnið við framkvæmdir 80–100 manns, en þegar mest var um 300 og s. l. tvö ár 150–200 manns. Ég hugsa að það láti nærri, að almennt verkafólk og iðnaðarmenn, sem unnið hafa við virkjunarframkvæmdir og byggingarframkvæmdir í orkufrekum iðjuverum á undanförnum árum, hafi verið 600–800 talsins. Hér er komin upp atvinnugrein, hér er kominn upp hópur fólks sem kann að standa að virkjunum og vinna að virkjunarframkvæmdum og framkvæmdum af þessu tagi. Hér er kominn upp hópur fólks sem hefur haft lífsviðurværi sitt af þessum framkvæmdum. Í þessu sambandi er tvennt að athuga: Í fyrsta lagi, að ef hlé verður á virkjunarframkvæmdum og framkvæmdum við fyrirtæki sem nýta sér orku, þá yrði þetta fólk að leita sér annars staðar að störfum. Það er hætt við að mörgum gæti veist það erfitt. Í annan stað verður að gæta að því, að í rauninni höfum við komið okkur upp hópi fólks sem kann að vinna saman. Við höfum komið okkur upp vél sem kann að framleiða virkjanir, og þá vél eigum við ekki að brjóta, þá vél eigum við að nýta okkur. Mér er kunnugt um það, að að undanförnu hafa menn úr þessum hópi verið að flytjast úr landi vegna þess að þeir sæju ekki atvinnutækifæri fyrir sig fram undan. Þegar eðlileg stefna er að nýta sér þær orkulindir, sem fyrir hendi eru, til aukinnar atvinnuuppbyggingar, þá megum við ekki gera það með þeim hætti, að við eyðileggjum þá vél sem kann að framleiða virkjanir, að við köstum því fólki frá okkur sem hefur starfað við þetta og kann að starfa við þetta. Við eigum líka að hafa í huga atvinnusjónarmið þessa fólks.

Ég hef stöku sinnum heyrt það sjónarmið, að með því að virkja værum við að ganga á auðlindir okkar, það verði þá ekkert eftir t. d. um aldamótin eða svo. Ég tel að þetta sé grundvallarmisskilningur. Meðan við virkjum ekki rennur vatnsaflið ónotað til sjávar og skilar engu í þjóðarbúið, en ef við virkjum, þá skilar það sínu á hverju ári. Ef við hins vegar þurfum á vatnsaflinu að halda til annarra nota en þeirra sem við settum raforku úr vatnsaflinu í núna, þá á það að vera hægur vandi að þeim 20–30 árum liðnum sem menn eru að tala um. Þá verða afskrifuð þau fyrirtæki sem menn hafa verið með, og þá geta menn nýtt þetta til annarra hluta sem kunna að þykja betri á þeim tíma. En jafnframt hefur þó tímabilið fram til þess tíma verið notað til þess að renna frekari stoðum undir þjóðlíf okkar og undir atvinnulífið hér á landi, skapa atvinnutækifæri og treysta lífskjörin.

Herra forseti. Ég tel í megindráttum að það frv., sem hér er mælt fyrir, sé gott frv. og falli saman við þá stefnumörkun sem Alþfl. hefur haft uppi í þessum efnum. Þau atriði, sem einkum ber á milli, hef ég þegar rakið. Það er skoðun okkar Alþfl.-manna, að það sé nauðsynlegt að kveða upp úr um það, að Landsvirkjun hafi þessi verkefni á hendi. Við teljum líka að það sé eðlilegt að gefa nánar til kynna en hér er gert röðun framkvæmda með þeim hætti sem við höfum gert. Við teljum enn fremur eðlilegt að hafa eingöngu almennan fyrirvara um orkuöflun, en að öðru leyti fellur þetta frv. saman við þær hugmyndir, sem við Alþfl.-menn höfum, og hugsanlega mætti ná samstöðu um málamiðlun í þessum efnum.