01.04.1981
Efri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3253 í B-deild Alþingistíðinda. (3375)

258. mál, ný orkuver

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég gæti bætt mörgu við það mál sem ég flutti hér á eftir framsögu hv. 1. flm. þessa frv. um ný orkuver fyrir nokkru, en ég tel ekki rétt að taka langan tíma hér í hv. deild til þess, og raunar ekki þörf á því að endurtaka hér fyrir hv. þm. það sem ég hafði fram að færa í aðalatriðum í sambandi við þetta mál, þrátt fyrir þær textaútleggingar sem komu fram áðan hjá hv. 1. flm. En mér þótti sem hann færði nokkuð úr lagi sitthvað úr minni ræðu þegar hann var að vitna til hennar í sambandi við atvinnuuppbyggingu í landinu og orkufrekan iðnað í því samhengi. Ég hefði vænst þess, að hv. 1. flm. vitnaði þá með beinum hætti til minnar ræðu að þessu leyti, og vegna þess að hann fór þar ekki rétt með samhengið vil ég aðeins rifja hér upp örstuttan kafla úr því sem ég sagði hér í hv. þd. í umr. um daginn um þessi atriði, en það var með þessum hætti, með leyfi hæstv. forseta:

En síðan kemur hin spurningin: Er það skynsamlegt fyrir íslenskan þjóðarbúskap, fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu að hagnýta þessar orkulindir, í þessu tilviki raforkuna, sem bakhjarl fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu? Og þar er mitt svar nokkuð afdráttarlaust. Ég er þeirrar skoðunar, að í þessum orkulindum eigum við góðan bakhjarl fyrir atvinnuuppbyggingu í okkar landi á næstu árum og áratugum, ef rétt er að málum staðið. En við þurfum að standa þannig að þeirri atvinnuuppbyggingu að hún verði okkur ekki að fótakefli efnahagslega eða hvað varðar sjálfstæði þjóðarinnar, og þar er hið efnahagslega sjálfstæði, eins og við allir erum væntanlega sammála um, undirstaða fyrir hinu pólitíska sjálfstæði. Það er mat mitt og míns flokks, að þessar forsendur séu ekki tryggðar nema við Íslendingar höfum forræði yfir þessum atvinnurekstri sem öðrum í landinu. Því viljum við ekki fara hraðar í þessum efnum en svo, að Íslendingar hafi þarna tök á málum og geti ráðið ferðinni. Þarna kann menn að greina á og hefur reyndar komið fram nokkuð ljóslega að meiningar eru deildar.

Þetta vil ég að liggi alveg ljóst fyrir, og ég hefði kosið að það lægi fyrir með skýrari hætti hjá þeim flokki, sem hv. þm. mælir hér fyrir, og þeim hluta hans sem leggur fram það frv. sem hér er til umr. Þaðan hafa heyrst nokkuð misjafnar raddir í þessum efnum, en þó allar í þá veru, að ekki er hafnað uppbyggingu atvinnurekstrar í landinu, orkufreks iðnaðar eða stóriðju, sem svo er kölluð, alfarið í eigu útlendinga. Áherslur eru misjafnar í þingflokki sjálfstæðismanna að þessu leyti, og það má telja nokkuð ljóst, að þar eru menn innan veggja sem eru hugsi yfir slíkri stefnumótun. Það væri betur, að þeim færi fjölgandi, því að ég held að við séum hér með mikið grundvallaratriði á ferðinni.

Í þeirri þáltill., sem vikið var að í þessari umr. um orkufrekan iðnað, sem hv. þm. Sjálfstfl. fluttu í Sþ. fyrr á þessum vetri, var í grg. vikið að þessu máli með þeim orðum, að það mætti hugsa sér að Íslendingar stæðu að slíkum atvinnurekstri þegar „þeim vex fiskur um hrygg,“ eins og það er orðað í þeirri grg. Ég tel málflutning af þessu tagi og hugsunarhátt, sem þarna liggur að baki, mjög varasaman, svo að ekki sé meira sagt. Hann minnir því miður á hugsunarhátt hálfnýlendunnar, þeirra sem vilja vera háðir efnahagslegu valdi, háðir erlendu valdi í sambandi við meiri háttar fjárfestingu og uppbyggingu atvinnulífs í landinu. Þarna þurfum við að brjóta í blað í þessum efnum, og ég vænti þess, að styrkur þeirra afla, jafnt innan Sjálfstfl. sem í öðrum flokkum, fari vaxandi sem þannig vilja standa að málum að tryggt sé forræði Íslendinga í nýtingu okkar orkulinda í sambandi við atvinnurekstur í okkar landi.

Ég varði um daginn verulegu máli í að ræða um einn grundvallarþátt þessara mála sem tengjast verður þeim hugmyndum um hraða uppbyggingu orkuvera í landinu sem mjög er til umr. hér á hv. Alþingi, og það er hvað við ætlum okkur að hafa upp úr þessari auðlind, hver er stefnan í sambandi við orkuverð. Og mér þótti það fremur miður sem fram kom hér hjá hv. flm., að hann skyldi enn fara að verja orkusölusamninga til stóriðju,það er kannske ekki rétt að segja enn, því að mér þótti hér fyrr í vetur sem hann tæki mjög eindregið undir nauðsyn þess að endurskoða raforkuverð til stórnotenda í landinu og þá alveg sérstaklega til Íslenska álfélagsins sem svo er kallað. En hann fór að verja nú í máli sínu þá samninga, sem þá voru gerðir, og hverju þeir hefðu skilað. Ég sé ekki ástæðu til að fara hér mörgum orðum um það mál sem þegar hefur verið rætt mikið, en ég held að við þurfum að hugsa með öðrum hætti til þessara samninga sem við erum þarna bundnir við til langs tíma enn, nema um það verði sterk pólitísk samstaða að knýja fram endurskoðun þeirra, við þurfum að hugsa til þeirra með öðrum hætti en fram kom í máli hv. þm.

Við höfum nefnilega ekki upp skorið sem skyldi af þeirri hagstæðu virkjun, Búrfellsvirkjun, sem ráðist var í á sínum tíma. Hver hefur orðið reynslan í þróun orkuverðs til almenningsveitna í landinu á þessum tíma? Hún hefur orðið mjög óhagstæð þannig, að það hefur hlutfallslega margfaldast á við það sem var árið 1969 eða 1970, — margfaldast samanborið við það sem þá var, — einmitt vegna þess gjafverðs sem er á orkunni til Íslenska álfélagsins, til álversins í Straumsvík, sem við gjöldum fyrir, þeirrar þróunar sem þar er í gangi og fer hraðversnandi, nema takist að brjóta þar í blað og knýja þar fram breytingu. Ég sagði hér í umr. um daginn og ég endurtek það hér, að ég tel ekki sæmilegt að menn séu að ræða um, að það þurfi að endurskoða orkuverð í þessu samhengi, og jafnframt að veifa því, að við ætlum að virkja til þess að afhenda þeim aðila, sem þarna á í hlut, meiri orku. Ég held að það sé betra fyrir menn að sjá betur inn í það dæmi áður en farið er að flagga slíku. En ég ætla ekki að fara lengra út í þessa sálma. Ég ætla aðeins að nefna hér atriði sem ég kom ekki að í umr. um daginn, en það er spurningin um, hverjum við eigum að fela að standa að því að reisa hér orkuver í landinu utan Suðurlands á næstunni, og þar með viðhorfið til þeirra till. sem fram koma í þessu frv. og raunar í nýframlögðu frv. hv. Alþfl.-manna sem aðeins hefur borið á góma í umr. í dag.

Það er gert ráð fyrir í þessu frv., sem við ræðum hér um, að Landsvirkjun eða landshlutafyrirtækjum verði falið að reisa og reka orkuverin, og í frv. Alþfl.-manna er gert ráð fyrir að það verði Landsvirkjun sem þetta verkefni verði falið. Ég verð að lýsa yfir vissri ánægju með það, að hv. þm. Sjálfstfl. og þm. Alþfl. eru farnir að taka þó með þessum hætti undir þá stefnu sem ég hef mælt fyrir frá því að ég kom hér á þing og fór að hafa afskipti af þessum málum — og hafði raunar staðið að tillögum þar að lútandi fyrr, að við komum hér á fót einu öflugu landsfyrirtæki til að standa fyrir þessum málum. En það er kannske betra að reyna að marka stefnuna til enda í sambandi við þetta, áður en menn fara að slá því föstu, að orkufyrirtæki hér á Suðurlandi verði falið að standa fyrir rekstri orkuveitna í öðrum landshlutum. Ég held að menn ættu að reyna að ná þeim hlutum saman sæmilega heildstætt áður en farið er að slá slíku föstu. En ég tel að það sé skynsamleg stefna og við eigum að hugsa til þess í sambandi við stórar virkjanir utan Suðurlands að nýta þar krafta Landsvirkjunar í sambandi við það að byggja þær virkjanir, og væntanlega getur slík stefna orðið til þess að greiða fyrir því, að eitt öflugt landsfyrirtæki til raforkuöflunar rísi hér upp, eins og Alþb. hefur barist fyrir og Framsfl. líka nú um alllangt skeið. Og þarna þykir mér sem horfi til réttrar áttar þó að ekki sé skilið við þá stefnu, sem hv. 1. flm. hefur lengst og mest barist fyrir, að reyna að koma upp fleiri landshlutafyrirtækjum til að standa fyrir raforkuöflun, eins og segja má að gerst hafi með vissum hætti á Vestfjörðum, þó að þeir séu sér ekki nægir um raforkuöflunina,og eru fyrir því ákveðnar ástæður.

Aðeins vildi ég víkja frekar að þessu frv. hvað snertir heimildirnar og þeirri miklu áherslu sem er á að ráðast í allt samtímis, sem var endurtekið hér af hv. 1. flm., og í sambandi við það spurningunni um nýtingu á orkunni. Ég tel ekki vænlegt að ætla sér að ganga fram með þeim hætti, enda eru vissulega slegnir varnaglar við því í frv. sjálfu og það varðandi eina virkjun sérstaklega, þ. e. virkjun á Austurlandi, hana megi ekki ráðast í nema ákvörðun hafi verið tekin um að setja á stofn stóriðju á Austurlandi. Ég er þessu ekki sammála og ég vék að því í máli mínu um daginn. Hv. 1. flm. minnti á það og gerði það mjög ákveðið, að það ætti að standa svipað að máli í sambandi við virkjun á Austurlandi og gert var varðandi Búrfellsvirkjun og álsamninginn og varðandi Sigölduvirkjun og samninga sem síðan voru gerðir í sambandi við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Ég vil minna á það, að það liðu um sex ár, ef ég man rétt, á milli þess sem heimildir voru veittar til þessara virkjana eða ákveðið var að stefna að þeim og samningar voru gerðir um orkusölu til tiltekins stórnotanda. Og ég tel að þarna sé verið að binda — (ÞK: Með Búrfellsvirkjun, það er það sem ég var að leggja áherslu á að beið eitt ár.) — að þarna sé verið að binda virkjun á Austurlandi skilyrði sem ekki sé rétt að setja fram, og varðar þá engu um það, hvort menn hugsa til þess að orkufrekur iðnaður geti risið á Austurlandi, eins og ég tel eðlilegt að verði í framtíðinni og hef staðið að samþykktum um að undirbúið verði.

Ég vil svo aðeins segja það hér til viðbótar þó að mörgu væri við að bæta, að ég tel að jafnhliða því sem við þurfum að afla heimilda fyrir virkjanir hér á Alþingi á yfirstandandi þingi, þá þurfum við að átta okkur á því, að við þurfum að vinna ötullega að því að skapa markað fyrir þá orku sem við ætlum að virkja og ákveðum að virkja hverju sinni. Við eigum ekki að ráðast í allt samtímis og standa frammi fyrir dæmi þar sem við erum með yfirfljótandi orku og búnir að fjárfesta í virkjunum og farnir að framleiða án þess að við sjáum út úr markaðsdæminu með sæmilega skýrum hætti, því að þá gæti verið að almenningur í landinu færi að finna fyrir orkuverðinu. Við þurfum því að fara fram þannig, um leið og við virkjum svo sem nauðsynlegt er fyrir almennan markað og þann markað sem við sjáum fram úr, að við tökum þetta í þess konar áföngum, að við séum nokkuð vissir um að sitja ekki uppi með orku sem við kannske neyðumst til að fara að selja á undirverði og þurfum að fara að borga með. Því þurfum við á næstu misserum og árum að vina markvisst að því sem íslensku þróunarverkefni að finna þau atvinnutækifæri, finna grundvöll þeirra fyrirtækja í landinu sem skynsamlegt er að reisa sem íslensk fyrirtæki til þess að hagnýta okkar auðlindir, jafnt raforku sem varmaorku. Fyrir slíkri stefnu mæli ég og að slíku er unnið á vegum iðnrn., og áfram verður haldið í sambandi við það á næstunni svo lengi sem ég fæ þar ráðið.

Ég tel, herra forseti, að ekki sé ástæða til að bæta hér við fleiri orðum að þessu sinni. Orkumál verða til umr. hér á þinginu eftir þennan dag á yfirstandandi þingi, geri ég ráð fyrir, og ég ætlaði ekki að taka langan tíma í innlegg að þessu sinni, en vildi koma þessum ábendingum og aths. á framfæri.