01.04.1981
Neðri deild: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3269 í B-deild Alþingistíðinda. (3383)

221. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 2 1. febr. 1980, um breyt. á lögum um útflutningsgjald af sjávarafurðum, nr. 5 13. febr. 1976, á þskj. 436. Frv. þetta er flutt í tengslum við fiskverðsákvörðun frá því í febr. Við þá fiskverðsákvörðun stóðu menn frammi fyrir gífurlega miklum afkomumun, óvenjumiklum afkomumun á frystingu annars vegar og söltun og þó fyrst og fremst herslu hins vegar. Að mati Þjóðhagsstofnunar fyrir fiskverðshækkun var afkoma herslu um 24.9%, en frystingar um 2–3%. Eftir þá fiskverðsákvörðun, sem gerð var, metur hins vegar Þjóðhagsstofnun að frystingin sé með — 3.1% frá mars til maí, en frá jan. til maí 1.5% án breytinga á útflutningsgjaldi, en herslan hins vegar með 15.5% án breytinga á útflutningsgjaldi. Því þótti rétt eftir atvikum að færa nokkuð þarna á milli til bráðabirgða, bæta lítillega hag frystingar með því að lækka útflutningsgjald þar í 4.5%, en auka útgjöld herslunnar um 4.9%, þannig að samtals verði útflutningsgjald af skreið 10% .

Ég þarf út af fyrir sig ekki að fara mörgum orðum um þetta. Slík tilfærsla á milli greina orkar vissulega tvímælis. Þessa tilfærslu má gera með ýmsu móti. Samkvæmt ákvörðun verðlagsnefndar var nokkuð flutt á milli greina með nýrri verðákvörðun á hinum ýmsu flokkum af fiski, hækkað á þeim lakari sem einkum fer til herslu. Ég vil segja það, að þetta orkar vissulega tvímælis og hefur verið umdeilt. Þetta var ákvörðun hagsmunaaðila, en hins vegar ekki farið lengra en raun varð á vegna þess að nauðsynlegt er talið að halda verulegum mun á góðum og lakari afla. Að sumu leyti er æskilegra að mínu mati að færa tímabundið á milli með þessari leið. Við þessa fiskverðsákvörðun eru farnar báðar þessar leiðir. En staðreyndin er jafnframt sú, að afli til herslu hefur verið töluvert yfirborgaður og því ástæða til að vega þar nokkuð á móti.

Ég vil jafnframt vekja athygli á því, að vinnuliður í frystingu er stórum meiri, u. þ. b. 40–50% meiri en við herslu. Hins vegar rennur útflutningsgjald að öllu leyti til hinna ýmsu þarfa sjávarútvegsins og iðulega hafa verið færð rök að því, að óeðlilegra sé að leggja útflutningsgjald á vinnslu sjávarafurða í landi. Þetta út af fyrir sig mælir með því, að nokkur mismunur sé þarna gerður.

Ég vek einnig athygli á því, að frystingin er — sem leiðir af því sem ég sagði um atvinnuna — miklu mikilvægari fyrir atvinnuástand í landi og því nauðsynlegt að hagur frystingar sé bættur eins og frekast er kostur. Síðan ákvörðun um fiskverð var tekin á þeim grundvelli sem ég hef lauslega lýst, í tengslum við tilfærslu á útflutningsgjaldi, hefur orðið töluvert meiri hækkun á skreið en menn gerðu ráð fyrir. Eftir slíka tilfærslu á útflutningsgjaldi mat Þjóðhagsstofnun að afkoma skreiðar væri plús 8% frá mars til maí, en mínus 2% fyrir frystingu. Einnig hefur það valdið breytingu á þessu, að gengi dollarans hefur styrkst og því hefur hagur bæði frystingar og herslu batnað frá því að þessir útreikningar voru gerðir.

Ég er því þeirrar skoðunar, að með þessari tilfærslu sé ekki gengið svo á afkomu skreiðarinnar að henni sé á nokkurn máta í hættu stefnt, heldur fyrst og fremst lítillega bætt afkoma frystingar, sem er, eins og ég hef lýst, ákaflega mikilvæg fyrir atvinnuástand í landinu.

Ég skal ekki hafa um þetta lengri framsögu. Fjölmargt fleira mætti að sjálfsögðu draga fram um afkomu frystingar, söltunar og herslu, en þessi mál hafa verið tíðrædd hér á Alþingi, m. a. nú í vetur, og fáu við það að bæta.

Frv. þetta var lagt fram í Ed. og hefur hlotið þaðan afgreiðslu. Það er orðið mjög knýjandi að frv. þetta verði afgreitt frá hinu háa Alþingi, og leyfi ég mér að mælast til þess við hv. sjútvn., að hún hraði meðferð málsins. Ég vek athygli á því, að hv. sjútvn. Ed. hefur aflað umsagna um málið sem allar munu liggja fyrir.

Ég vil þá, herra forseti, að lokinni þessari umr. leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.