01.04.1981
Neðri deild: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3274 í B-deild Alþingistíðinda. (3388)

181. mál, meðferð einkamála í héraði

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Mér þykir lofsvert að hæstv. dómsmrh. skuli vilja greiða fyrir því, að einstaklingar nái rétti sínum hver fyrir öðrum, en á hinn bóginn vil ég í þessu samhengi enn minna á nauðsyn þess, að eitthvað verði gert til að greiða fyrir því, að einstaklingurinn nái rétti sínum gagnvart ríkisvaldinu. Við höfum nú nýverið orðið vitni að því, að eftir á hafa menn verið sviptir 7% af launum sínum fyrir marsmánuð án þess að þeir hafi nokkur tök á því að leita réttar síns. Og ýmsir af þeim ráðherrum, sem sitja í þessari ríkisstj., hafa lagt á afturvirka skatta, eins og haustið 1978, sem enginn vafi er á að einvörðungu hlaut samþykki í Hæstarétti vegna þess, hversu seint málið kom þangað. Þar var um það að ræða að leggja tekjuskattinn á tvisvar sinnum og sömuleiðis eignarskatt, leggja þá á að nýju. Í þriðja lagi vil ég svo minna á brbl. um fóðurbætisskatt sem mjög kom við efnahag bænda á s. l. sumri og raunar er ógjörningur eftir á að meta hver áhrif hafi haft á afkomu bænda. Og þó að Hæstiréttur úrskurðaði eftir dúk og disk þá skattheimtu óheimila yrði uppgjörið eftir á algjörlega útilokað. Það væri ekki hægt að meta áhrif þessarar skattheimtu, hvaða efnahagstjóni hún hefur valdið mörgum bændum. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. að því, hvort í undirbúningi sé í dómsmrn. frv. þess efnis að auðvelda mönnum, einstaklingum, að ná rétti sínum gagnvart ríkisvaldinu þegar það fer jafnóvarlega með bráðabirgðalagavaldið og ég hef minnst á nú í þessum þremur dæmum.