01.04.1981
Neðri deild: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3274 í B-deild Alþingistíðinda. (3389)

181. mál, meðferð einkamála í héraði

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Vegna orða hv. síðasta ræðumanns vil ég gjarnan leggja nokkur orð í belg og beina fsp. minni til hins vaska hæstv. dómsmrh., sem nú situr í þeim stól, og spyrja hvort hann hafi nokkurn hug á að taka upp — einmitt með hliðsjón af þeim orðum sem hér hafa fallið — og endurflytja það frv. sem flutt var á Alþingi um umboðsmann Alþingis. Ég flutti á sínum tíma þáltill. um þetta mál sem samþykkt var. Síðan var frv. um þetta efni samið á vegum dómsmrn. Þáv. hæstv. dómsmrh. flutti frv. einu sinni og ég endurflutti það síðan einu sinni eða tvisvar.

Ég endurtek fsp. mína til hæstv. ráðh., sem sýndi þessu máli mikinn áhuga á sínum tíma, hvort hann hafi nokkuð hugsað sér að taka þetta mál upp að nýju. Ég held að það sé orðin full þörf á því, að einstaklingurinn geti á einhvern hátt leitað réttar síns gagnvart ekki aðeins ríkisvaldinu, heldur og embættismannavaldi þjóðarinnar.