05.11.1980
Neðri deild: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

24. mál, Framleiðslueftirlit sjávarafurða

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umfjöllunar um breyt. á lögum nr. 108 frá 31. des. 1974, um Framleiðslueftirlit sjávarafurða, er nú flutt í þriðja sinn. Á tveimur undanförnum þingum hefur málið dagað uppi ekki vegna ágreinings um efni þess svo að mér sé kunnugt, heldur fyrst og fremst vegna mikilla anna á Alþingi.

Jafnframt þessu frv. hefur hæstv. menntmrh. flutt frv. til l. um breyt. á lögum nr. 55 frá 1971, um Fiskvinnsluskóla. Eru þessi tvö frv. mjög samtvinnuð þannig að þýðingarlítið er að afgreiða annað án þess að hitt hljóti hliðstæða afgreiðslu. Frv. þessi voru samin af nefnd þriggja manna sem sjútvrh. skipaði 18. apríl 1978. Nefndina skipuðu þeir Ingimar Einarsson deildarstjóri í sjútvrn. Jóhann Guðmundsson forstöðumaður Framleiðslueftirlits sjávarafurða og dr. Jónas Bjarnason formaður skólanefndar Fiskvinnsluskólans.

Meginmarkmiðið með þessum frv., ef að lögum verða, er að tryggja réttarstöðu fiskiðnaðarmanna, er þeir hafa lokið prófi frá Fiskvinnsluskólanum, og setja skýrari ákvæði um lokapróf, verkleg próf, svo og starfsþjálfun að prófi loknu. Jafnframt er stefnt að því að afmarka betur en nú er gert hlutverk þessara stofnana varðandi námskeiðahald fyrir matsmenn svo og endurmenntun þeirra.

Í þriðju mgr. 10. gr. laga nr. 55 frá 1971 um Fiskvinnsluskóla segir:

„Til þess að öðlast starfsréttindi sem fiskiðnaðarmaður skal nemandi hafa staðist próf upp úr fiskiðndeild og auk þess lokið 11 mánaða skipulagðri starfsþjálfun, sem lyktar með prófi eða sérstöku verkefni.“ — Þau réttindi, sem hér um ræðir, eru ekki skilgreind nánar.

Í 2. málsgr. 9. gr. laga nr. 108 frá 1974, um Framleiðslueftirlit sjávarafurða, segir hins vegar: „Lögreglustjóri löggildir matsmenn samkv. tilnefningu forstjóra Framleiðslueftirlits sjávarafurða.“

Ekki hafa verið settar neinar reglur um hvað forstjóri Framleiðslueftirlitsins skuli miða við eða styðjast við varðandi tilnefningu matsmanna til löggildingar. Varðandi mat á saltfiski, skreið og síld hefur venjan verið sú, ef maður hefur viljað afla sér löggildingar sem matsmaður, hvort heldur um hefur verið að ræða fiskiðnaðarmann eða óskólagenginn mann, að hann hefur verið látinn starfa með löggiltum matsmanni ótiltekinn tíma uns hinn löggilti matsmaður hefur talið viðkomandi mann hafa sýnt nægilega hæfni til að starfa sjálfstætt og hljóta löggildingu sem slíkur. Síðan hefur komið til kasta forstjóra Framleiðslueftirlitsins að meta niðurstöður hins löggilta matsmanns hverju sinni og gera tillögu til lögreglustjóra um löggildingu.

Þetta fyrirkomulag þykir hafa skapað óviðunandi aðstöðu fyrir fiskiðnaðarmenn, og tel ég ekki óeðlilegt að afmarkað sé námsefni og námstími að sérskólanámi loknu til lokaprófs sem veitir matsréttindi. Fyrir því er lagt til í 2. gr. frv. þessa að settar séu nýjar, fastmótaðar reglur um þau skilyrði sem fiskiðnaðarmenn er lokið hafa prófi frá Fiskvinnsluskólanum þurfa að uppfylla til þess að þeir að þeim skilyrðum fullnægðum geti hlotið löggildingu sem fiskmatsmenn fyrir saltfisk, skreið og saltsíld. Aðrir menn, sem vilja afla sér löggildingar sem matsmenn, verða að hlíta þeim skilyrðum sem nú eru í gildi. Fiskiðnaðarmenn hafa hins vegar viðstöðulaust hlotið löggildingu til ferskfiskmats og freðfiskmats og verður svo væntanlega áfram.

Í 2. gr. frv. eru einnig sett aðhaldsákvæði sem ætlað er að tryggja að fiskiðnaðarmenn, sem mat vilja stunda, haldi við þekkingu sinni.

Þá er og með 2. gr. frv. sú breyting gerð, að framvegis löggildi sjútvrn. matsmenn í stað lögreglustjóra. Þetta ætti að vera til hagræðis og bóta að öðru leyti vegna tengsla rn. við Framleiðslueftirlit sjávarafurða. Það ætti einnig að geta leitt til samræmdari krafna og reglna um löggildingu.

Í 3. gr. laga nr. 55 frá 1971, um Fiskvinnsluskóla, er mælt fyrir um skyldu skólans til að halda námskeið fyrir starfsfólk í hinum ýmsu greinum fiskiðnaðarins. í 4. tölulið 1. málsgr. 4. gr. reglugerðar nr. 71 frá 1973, um mat á saltfiski til útflutnings segir að Fiskmat ríkisins skuli hafa námskeið fyrir fiskmatsmenn samkv. nánari ákvæðum þar um. Þessi reglugerð er eldri en lögin um Framleiðslueftirlit sjávarafurða. Samkv. sérstöku ákvæði í 19. gr. laga nr. 108 1974, um Framleiðslueftirlitið, heldur fyrirgreind reglugerð þá enn gildi sínu. Í lögunum sjálfum eru hins vegar ekki nein bein ákvæði um námskeið á vegum Framleiðslueftirlitsins, en í 3. mgr. 2. gr. eru almenn fyrirmæli um að það skuli veita leiðbeiningar um fiskverkun og meðferð sjávarafurða.

Rétt er að taka fram að ágreiningur varð í nefndinni um nokkur atriði, en meginefni frv. þessa og frv. um Fiskvinnsluskólann voru nefndarmenn sammála um.

Jóhann Guðmundsson gerði ágreining um nokkur atriði og skal þeirra helstu getið:

1. Hann taldi nauðsyn bera til að námskeið fyrir matsmenn yrði áfram á vegum Framleiðslueftirlitsins þrátt fyrir ákvæði í lögum um Fiskvinnsluskólann um að hann skuli annast slík námskeið.

2. Hann taldi nauðsynlegt að Framleiðslueftirlitið fengi fulltrúa í skólanefnd Fiskvinnsluskólans.

3. Hann gagnrýnir ákvæði frv. þessa um að löggilding matsmanna sé færð frá lögreglustjóra til sjútvrn.

Um þessi atriði er rætt í grg. fyrir frv. og enn ítarlegar í nál. En meiri hl. nefndarinnar gat ekki fallist á sjónarmið Jóhanns Guðmundssonar og eru því frv. þetta, frv. um Fiskvinnsluskólann og grg. með þeim að efni til reist á skoðunum meiri hl. að því leyti sem um ágreining var að ræða.

Ágreiningurinn af hálfu Jóhanns Guðmundssonar, sem ég rakti áðan, kemur skýrast fram í bréfi sem hann ritaði mér 27. okt. s.l. Ég mun sjá til þess, að sú hv. nefnd, sem málinu verður vísað til, fái í hendur nál. þeirra þremenninganna svo og bréf Jóhanns Guðmundssonar.

Tæpast verður talin ástæða til að tveir aðilar haldi námskeið um sama efni, þ.e. meðferð og mat sjávarafurða. Vegna ótvíræðra ákvæða í lögum um Fiskvinnsluskólann um skyldu hans til að halda þess háttar námskeið þykir rétt að hann sinni þeirri skyldu sinni, en að Framleiðslueftirlitið láti honum í té æskilegt og nauðsynlegt fulltingi í því efni. Þetta fyrirkomulag ætti einnig að létta nokkrum kostnaði af Framleiðslueftirlitinu. Jafnframt frv. þessu er því, eins og áður segir, flutt af hæstv. menntmrh. frv. til l. um breyt. á lögum um Fiskvinnsluskólann, sem er í nánum tengslum við efni þessa frv. Er æskilegt að þau fylgist að í meðferð þingsins og hljóti afgreiðstu nokkuð samtímis, eins og ég hef áður bent á. Ég leyfi mér einnig að láta í ljós þá eindregnu von, að mál þessi fái fullnaðarafgreiðslu, enda sýnist mér varla vansalaust ef þau dagaði uppi í þriðja sinn.

Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til grg. með frv. og gera að till. minni að þessu máli verði vísað til hv. sjútvn. að 1. umr. lokinni.