01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3315 í B-deild Alþingistíðinda. (3406)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal játa það, að þegar ég sá þetta frv. fyrst, þá varð ég nokkuð hissa og ekki alveg sáttur við innihald þess, enda taldi ég í fyrstu að um væri að ræða umtalsverð forréttindi til handa konum, þó svo að 2. gr. frv. kveði svo á að ákvæði greinarinnar skuli endurskoðað að fimm árum liðnum. Ég hef síðan bæði hlustað á rökstuðning hv. flm. og hugleitt þetta mál talsvert með sjálfum mér, eins og við hljótum allir að gera. Ég hef líka verið að fylgjast með hv. þm. hér sem hafa setið undir þessari umr., eða gerðu það raunar fyrir kvöldmat. Og það var nokkuð skemmtilegt að horfa á andlit þeirra þegar röksemdafærsla flm. var flutt hér. Fannst mér sumir, kannske í hjarta sínu, gera býsna lítið úr þessu máli.

Ég held að það bendi allt til þess, því miður, að frv. af þessu tagi sé nauðsynlegt, að forréttindafrv. af þessu tagi sé nauðsynlegt til að rétta hlut kvenna í íslensku samfélagi árið 1981. Ég vil minna á það, að það þóttu ekki bara fréttir á mælikvarða Íslendinga, heldur heimsfréttir, þegar kona var kjörin forseti á Íslendi. Eigum við að spyrja sjálfa okkur hvers vegna? Það hefðu engin tíðindi þótt ef karlmaður hefði verið kosinn. Það þóttu býsna mikil tíðindi hér á Íslandi þegar kona var skipuð sýslumaður. Þykja það nokkur tíðindi þegar karlmaður er skipaður sýslumaður? Því fer fjarri. Það hefur ein kona farið með embætti ráðh. hér á Íslandi. Það þóttu nokkur tíðindi þegar hún tók við því starfi. Það þóttu tíðindi þegar kona varð strætisvagnabílstjóri. Af hverju? Það þóttu tíðindi þegar kona lauk vélstjóraprófi frá Vélskóla Íslands. Hvers vegna? Hvað eru margar konur á Íslandi forstjórar fyrirtækja eða opinberra stofnana? Getur einhver sagt mér það? Það er líklega mjög seintalið.

Ef menn hugleiða þessa hlið málsins, þá held ég að þeir hljóti að komast að því, að það er eitthvað mikið að. Það er eitthvað mikið að í samfélagi þar sem kona nýtur ekki sama réttar og karlmaður. Þá er konan orðin annars flokks þjóðfélagsþegn. Menn segja, og ég heyrði hv. þm., sem situr hér til hliðar, segja: Hver bannar? Það er enginn sem bannar í sjálfu sér. Það er hins vegar það álit sem ríkjandi stétt í þjóðfélaginu hefur á konunni sem ræður hér og ræður mestu.

Ég vil líka benda á það, að margoft hefur verið sýnt með könnunum og úrtaki að það fólk, sem vinnur launalægstu störfin á Íslandi, eru konur, nær undantekningarlaust. Sókn er kvenfélag. Í Sókn er launalægsta fólk á Íslandi, ef með er talið það sem er í Iðju, og flestir félagsmenn í Iðju eru konur. Þannig mætti lengi telja. (GJG: 75%.) 75%, segir hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson.

Ég tók eftir því, að hv. þm. Guðrún Helgadóttir talaði um að einn þm. hér líti á konur á þingi sem skemmtileg skrautblóm. Það er margt til í þessu sem hún segir. Við státum af því að hafa hér þrjár konur af 60 þm. Þvílíkt og annað eins! Vita menn að upp undir helmingur af finnskum þm. eru konur? Getur þetta stafað af því, að karlmenn hafi ekki sýnt konum þá tilhliðrunarsemi í sambúð á heimili, á vinnustað og annars staðar, að þær hafi náð þeim rétti sem þeim ber í þjóðfélaginu? Getur verið að gamlar siðvenjur valdi hér einhverju um eða eitthvað af því tagi? Ég held að það ætti hver að hugsa þetta með sjálfum sér.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta, herra forseti, en ég hef satt að segja komist á þá skoðun eftir að hafa hugleitt þetta mál þó nokkuð, að það er nauðsynlegt að veita þessi forréttindi tímabundið. Við vitum hvað gerist ef það kemur slagsíða á skip yfir á stjórnborða. Þá er dælt í bakborðstankana til þess að rétta það af og því komið til hafnar á þann hátt. Gæti þetta ekki verið eitthvað í svipuðum dúr sem við erum að reyna að gera með þessu frv.: að hraða þróuninni þannig að við getum litið hvort framan í annað, við skulum segja um árið 2000, og sagt að konur hafi loksins náð jöfnum rétti á við karlmenn?