01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3316 í B-deild Alþingistíðinda. (3408)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það kemur nú fyrir hér æ ofan í æ, að hv. þm. Guðrún Helgadóttir sakar þm. almennt um það — alla aðra en sjálfa sig — að færa allar umr. niður á lágt plan, sem líklega er þá fyrir neðan „standard“ umræðuplan Alþb., eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur orðað það í sambandi við umr. hér. Það eru einhverjar tegundir umræðna hér sem eru á svo lágu plani að hv. þm. Alþb. telja sig ekki geta tekið þátt í þeim, þó að þeir séu oft á tíðum valdir að því að flytja umræðurnar á það plan.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði áðan að hún vildi ekkert fullyrða um það, hvort rétt eða rangt hefði verið breytt í sambandi við stöðuveitinguna á Dalvík. Nú vil ég spyrja hv. þm.: Halda þm. almennt að þessi hv. þm. hefði verið svona hógvær hefði það t. d. verið íhaldsmaður á borð við hv. þm. Matthías Bjarnason sem veitti þessa stöðu? Ætli þessi hv. þm. hefði verið svona hógvær í tali þá? Ekki dettur mér það í hug, og hef ég þó ekki náin kynni af hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, en tel mig þó þekkja hana það vel. Hér er því ekki um það að ræða, að ekki séu nægar ástæður og í raun og veru nægar sannanir fyrir því, að hér hefur verið rangt að máli staðið í sambandi við þessa embættisveitingu í ljósi jafnréttislaganna og líklega í ljósi hugarfars yfirgnæfandi þorra landsmanna.

Aðeins í sambandi við nefndarskipunina. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði eitthvað á þá leið, að þessi margumdeilda stöðuveiting hefði ekki þurft að vera kveikjan að því, að málið kæmi hér inn. Það er út af fyrir sig alveg rétt. Og best hefði á því farið, að viðkomandi hæstv. ráðh. hefði hagað sér þannig að ekki þyrfti að taka málið upp með þessum hætti hér á Alþingi. En það er ekkert vafamál, allir sem til þekkja hljóta að sjá að það er ekkert vafamál, að þessi væntanlega nefndarskipan er til komin vegna þess máls sem hér er nú til umr. Hæstv. ráðh. viðurkennir í raun og veru með þessari nefndarskipan að það beri nauðsyn, kannske brýna nauðsyn — eins og menn orða það í sambandi við brbl.-setningu það beri brýna nauðsyn til að endurskoða þetta mál í ljósi þess sem hann sjálfur gerði í sambandi við embættisveitinguna á Dalvík. Það er ástæðan fyrir því, að hann hyggst nú skipa nefnd í málið og hefur fengið hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur til að tilkynna það hér á Alþingi.