01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3322 í B-deild Alþingistíðinda. (3412)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil fagna því frv. sem hér er fram komið um heilbrigðis- og vistunarþjónustu fyrir aldraða þó að ég telji að vísu á því nokkra vankanta. Eins og fram hefur komið flutti ég á árinu 1978 till. til þál. sem gekk út á það, að komið yrði á samræmdu skipulagi í heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða með tilliti til bæði félagslegra og heilsufarslega sjónarmiða. Till. gekk út á að umbætur og betri skipulagning þessara mála yrðu byggðar upp á samstjórn og samræmingu allra þátta í heilbrigðis- og félagslegri þjónustu fyrir aldraðra, sem gæti auðveldað yfirsýn yfir brýnustu þörf á sjúkrahúsvist, langlegudvöl, heimahjúkrun, heimilisþjónustu og dvalarheimilum fyrir aldraða. Þessi till. náði ekki fram að ganga, en á þinginu 1979 sá ég ekki ástæðu til að leggja þessa till. fram á nýjan leik, því að mér var kunnugt um að nefnd hafði verið skipuð af þáv. félmrh., Magnúsi H. Magnússyni, og var verkefni hennar að vinna að samræmingu á heilbrigðis- og félagslegri þjónustu fyrir aldraða sem tæki til þeirra þátta sem ég hér nefndi.

Snemma á þessu þingi — eða í nóvemberbyrjun — lagði ég á nýjan leik fram þessa till. og kom þá fram í þeirri umr., eins og hv. þm. Magnús H. Magnússon benti á, að á næstu dögum yrði lagt fram frv. sem tæki til þeirra þátta sem þáltill. sú, sem ég flutti, gekk út á. Ég á sæti í þeirri nefnd sem fékk málið til meðferðar og hefur hún sent till. nokkrum aðilum til umsagnar. Þó að umsagnir hafi reynst jákvæðar og t. d. Samband ísl. sveitarfélaga mæli eindregið með samþykkt till. hefur nefndin talið ástæðu til að bíða með afgreiðslu hennar þar til fram yrði lagt það frv. sem boðað hafði verið í nóv. að kæmi á næstu dögum. Frá því mælt var fyrir þeirri till. eru nú liðnir um fjórir mánuðir og nú, þegar stutt er til þingloka, er frv. lagt fram. Verður að segjast að ekki er seinna vænna, ef það á að hljóta eðlilega meðferð hér á hv. Alþingi og þdm. á að gefast ráðrúm til að skoða málið gaumgæfilega.

Það sem ég saknaði í þessu frv., er að mér finnst ekki nægilega vel tekið á félagslega þættinum, svo sem heimilisþjónustunni og heimahjúkruninni, sem ég tel vera veigamikið atriði að vel sé séð fyrir ef hægt á að vera að vænta þess, að skipulag málefna aldraðra byggist á þeirri samræmingu sem nauðsynleg er. Er erfitt að sjá hvernig hægt sé að vænta samræmingar í þessu máli nema félagslegi þátturinn sé vel tengdur uppbyggingu á heilbrigðisþjónustu og vistunarþörf aldraðra. Heimahjúkrun og heimilisþjónustu eru lítil skil gerð í þessu frv., og er ég hrædd um að eins og þetta er lagt fram stefni í óbreytt ástand mála hvað þessa þætti varðar. Sveitarfélögunum virðist áfram vera uppálagt að greiða kostnað af heimilishjálp, en draga verður í efa að að óbreyttu hafi sveitarfélögin bolmagn til að standa undir þessum kostnaði. Það, sem segir um þessi atriði í frv. og aths., er m. a. að lagt sé til að þar sem heimilishjálp í viðlögum sé ekki til eða sé ófullnægjandi sé ellimálanefndum heimilt að skipa slíka þjónustu um skemmri eða lengri tíma samkv. sérstökum samningi við sveitarfélög umdæmis og á kostnað þeirra. En það gefur auga leið, að ekki þýðir fyrir ellimálanefndir að segja við sveitarfélögin að þau skuli bjóða fram svo og svo mikla þjónustu, og sveitarfélögunum síðan uppálagt að standa undir kostnaðinum. Þetta er nú þegar, eins og kunnugt er, þungur baggi á mörgum sveitarfélögum og heimildir sem þessar geta varla nokkru breytt.

Varðandi heimahjúkrunina segir að heilsugæslu aldraðra í heimahúsum annist starfslið heilsugæslustöðva og telst kostnaðurinn til rekstrarkostnaðar heilsugæslustöðva. Í grg. segir að kostnaðurinn skiptist því á ríki og sveitarfélög, þ. e. ríkið á að standa undir launakostnaði lækna og hjúkrunarfræðinga vegna þessara starfa, en sveitarfélög, sem aðild eiga að heilsugæslustöðvum umdæmisins, standa undir öðrum kostnaði. Mér er kunnugt um það, að sveitarfélögin hafa talið sig þurfa sjúkraliða til þessara starfa, og mér er tjáð að heilsugæslustöðvarnar hafi ekki fengið heimild til að ráða sjúkraliða. Sveitarfélögin hafa því þurft að standa undir launakostnaði sjúkraliða. Sé ég ekki að nein breyting sé í frv. hvað þessu viðvíkur og því sé einnig um óbreytt fyrirkomulag að ræða hvað heimahjúkrun varðar.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á að nefnd sú, sem fær málið til meðferðar, skoði þennan þátt sérstaklega, því að ég tel að erfitt sé að meta raunverulega vistunarþörf eða stofnanaþörf fyrir aldraða fyrr en við höfum þennan þátt í lagi líka. Sé ekki á einhvern hátt séð fyrir því, að sveitarfélögin geti haldið uppi þeirri heimahjúkrun og heimilisþjónustu sem nauðsynleg er, þá tel ég að það kalli á vistrýmisþörf, sem bæði er kostnaðarsamari leið og einnig hlýtur að vera eðlilegra að búa svo að öldruðum, að þeir geti verið sem lengst í heimahúsum með nauðsynlegri aðstoð, sé þess nokkur kostur.

Varðandi fjármögnunarþáttinn, sem lagður er til í þessu frv., þá tel ég að ekki verði hjá því komist að finna þessum verkefnum fastan tekjustofn eins og lagt er til í þessu frv., til þess að við getum verið viss um að nokkuð hröð uppbygging verði á þessu sviði. Og það hefur sýnt sig með svona sérstök mál fyrir einstaka hópa, að það hefur ekki verið greið leið í gegnum hefðbundnar leiðir á fjárlögum til þeirra verkefna. Því tel ég rétt að finna þessum verkefnum fastan tekjustofn sem síðan má endurskoða.

Ég vil einnig gera aths. við úthlutun fjár úr þessum Framkvæmdasjóði aldraðra sem stofna á samkv. þessu frv. Þar er gert ráð fyrir að ráðh. úthluti úr sjóðnum að fengnum tillögum ellimálanefndar. Ég tel að þetta ákvæði þurfi að skoða sérstaklega. Ég tel það betra fyrirkomulag ef fyrir hendi væri einhvers konar stjórnarnefnd, e. t. v. skipuð fulltrúum Sambands sveitarfélaga og annarra aðila sem þekkingu hafa á þessum málum, sem samræmdi fjárveitingar og framkvæmdabeiðnir frá þessum 28 ellimálanefndum sem koma á á fót. Ég tel það mun eðlilegri leið heldur en að úthlutunarvaldið sé nær alfarið í höndum ráðh. Miklu nær væri að ráðh. væri sá aðili sem samþykkti endanlega úthlutunina, að fengnum tillögum ellimálanefnda og stjórnunaraðila sem væri samræmingaraðill að þeim till. sem koma frá ellimálanefndum. Sú leið væri einnig fyrir hendi að tillögur ráðh. um framkvæmdir og úthlutun yrðu lagðar fyrir Alþingi til staðfestingar, ef meinbugir þykja á þessari leið sem ég nefndi, en ekki látið nægja að leita samráðs við fjvn. eins og fram kemur í frv. Að vísu er í frv. gert ráð fyrir deild sem sett væri upp til að annast þessi málefni, en ég er ekki viss um að það sé rétta leiðin, að úthlutunin sé nær alfarið í höndum rn.

Einnig vil ég benda á að ég tel að nefndinni, sem fær málið til meðferðar, beri að skoða vel hvort nauðsyn sé á svo mörgum ellimálanefndum eða 28 talsins. Þessar nefndir eru hugsaðar sem samræmingaraðilar á þjónustusvæðum, en það er spurning í mínum huga, hvort nauðsyn sé á svo mörgum ellimálanefndum.

Í frv. er gert ráð fyrir að færa ákveðið vald frá séreignarstofnunum til ellimálanefnda þannig að enginn megi vistast á dvalarheimilum án undangengins mats á vegum ellimálanefndar. Þarna er að vísu verið að færa visst vald til milli aðila sem stjórnað hafa málefnum séreignarstofnana. Að þessu leyti er verið að skerða nokkuð vald séreignarstofnana. Ég tel ekki óeðlilega leið að vistunin sé háð undangengnu mati opinberra aðila. Ég tel rétt að slíkt mat fari fram t. d. hvað varðar heilsufarslegt ástand, og það er stór þáttur í allri samræmingunni. Það er oft spurning hvað best sé að gera fyrir hvern einstakling. Er best að vista viðkomandi á dvalarstofnun, hjúkrunarheimili eða er hann fær um að vera heima ef hann fær góða heimilisþjónustu eða heimahjúkrun? Þetta eru allt atriði sem gott er að leggja í dóm viðurkenndra aðila. Í grundvallaratriðum er ég hlynnt slíku mati og þeirri stefnu sem fram kemur í frv. er þetta varðar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mál mitt lengra. Ég vil ítreka að ég fagna fram komnu frv., tel það geta markað það spor, að við getum séð fram á að geta búið öldruðum sómasamlegt ævikvöld ef rétt er að málum staðið. En ég ítreka einnig að ef svo á að vera verðum við að sjá betur fyrir félagslega þættinum varðandi heimilisþjónustu og heimahjúkrun en hér er gert ráð fyrir. Vona ég að á því verði ráðin bót við meðferð frv. hér á hv. Alþingi.