01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3331 í B-deild Alþingistíðinda. (3415)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leiðrétta þann misskilning, að heilsugæsluumdæmum hefur ekki verið breytt á þessu þingi, hvorki í heilbrigðisnefnd né annars staðar. Það er þó rétt, sem fram hefur komið, að til þess væri fullkomin ástæða. Ég vil líka geta þess, að það væri fullkomin ástæða til að taka upp umræður um stóðu þeirra mála á vissum landssvæðum, sér í lagi eftir að mikils metinn maður úr hópi lækna lýsir því yfir, að hann telji að aldrei verði þannig að þessum málum staðið að hægt verði að manna hina svokölluðu útkjálka, eins og kom fram í sjónvarpinn nú fyrir stuttu.

Það er kannske rétt að minna á í því sambandi að þegar einn af þrælum Ingólfs vissi að það átti að nema land hér í Reykjavík, þá taldi hann að þeir hefðu til lítils farið um góð héruð ef þeir ættu að byggja útnes þetta.

En það, sem kom mér fyrst og fremst upp í stólinn, er 7. gr. þessa frv. Ég held að allir fagni því, að þessi mál séu tekin hér til umfjöllunar, þó að mönnum sýnist kannske sitt hvað um miðstýringu í þeim efnum. Og ég held að við ættum ekki að vanmeta hið félagslega framtak sem átt hefur sér stað í landinu og komið þó því til leiðar sem jákvætt hefur gerst. Það athyglisverða við 7. gr. er það, að mér sýnist sem hér sé verið að fela ráðh. meira vald í útdeilingu fjármagns en ég veit dæmi til að sé hjá öðrum ráðuneytum. Ætti t. d. menntmrh. að ganga alfarið frá því, hvað gert væri við þá peninga sem fara til menntamála og fjvn. aðeins að hafa þar samráð? Er þetta það sem við teljum eðlilega stjórn í hinum ýmsu ráðuneytum? Ég segi nei. Það hlýtur að vera eðlileg stjórn þeirra fjármuna, sem þarna er talað um dreifingu á, að það verði nefnd, ekki ráðh., sem úthlutar. Það liggur beinast við að ætla fjvn. að vinna það verk, verði það unnið á vegum þingsins, sem ég tel alveg sjálfgefið.