01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3334 í B-deild Alþingistíðinda. (3418)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal gleðja hæstv. heilbr.- og trmrh. með því, að ég skal ekki standa lengi í „óratorískum“ æfingum í ræðustól, enda eru aðrir hér í hv. þd. sem stunda slíkar æfingar fremur en ég.

Hins vegar hafa komið hér fram nokkur atriði í þessari umr. sem mér þykir ástæða til að benda sérstaklega á, og ég satt að segja tel það ekkert eftir, hvorki hæstv. ráðh. né hv. nm., þótt þeir eyði einni kvöldstund á vetrinum til að ræða þessi viðkvæmu og þýðingarmiklu mál sem hann sem heilbrmrh. og fyrrv. heilbrmrh. hafa báðir lýst sem neyðarástandi í þjóðfélaginu. Ég tel það ekkert eftir okkur að ræða málið, jafnvel þótt heil nótt færi til þess. Ég álít að það sé miklu betra fyrir okkur að fá hér upp á yfirborðið strax þann ágreining sem um er að ræða og hefur að nokkru leyti komið hér fram, til þess að það sé ekki talið neitt laumuspil þegar kemur til nefndarstarfanna. Ég vil gjarnan reyna að stuðla að því, og það hefur ekkert staðið á mér að svo yrði, að við getum náð fram skynsamlegri löggjöf um málefni aldraðra. Ég skal hins vegar taka fúslega undir það, að það eru viss vandkvæði á því að tengja saman hinn félagslega þátt og þátt heilbrigðismálanna, meðfram vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni, vegna þess að aðilar úr heilbrigðisstéttunum hafa alla tíð talið að ekki væri um aðra að ræða sem ættu að koma að þessum málum, nema kannske að böðlast í því að safna fé og byggja, byggja heimili fyrir aldraða. Þá geta þeir komið og sagt: Nú skal ég, nú get ég, — þegar hitt er að baki.

En að fenginni reynslu á 20 árum í sambandi við þessi mál er ég meira en sannfærður, ég hef margar sannanir fyrir því, að það geta fleiri og hefur fleirum tekist vel til, þótt læknar og aðrar heilbrigðisstéttir verði að sjálfsögðu að koma inn í þau verk. En þær stéttir og þeir starfsmenn geta t. d. komið þangað sem launaðir starfsmenn, en ekki ráðandi aðilar um stefnumótun í þessu málum. Ég held að stefnumótunin eigi miklu frekar — og þetta segi ég að fenginni reynslu — að vera í höndum þeirra aðila sem fara með félagsmál þjóðarinnar. Þar á ég að sjálfsögðu við þá sem sjá um vandamál sveitarfélaganna, bæði á þessu sviði og öðrum, og svo að sjálfsögðu slíkir aðilar sem starfa á vegum ríkisins. Ég tek því alveg undir það sem hefur komið fram hjá þeim aðilum sem hafa talað í þann farveg hér í dag.

Það kom fram hjá hv. 1. þm. Vesturl., Alexander Stefánssyni, sem ég hélt fram í minni ræðu síðdegis í dag, að hér er um pólitískan samsetning að ræða á þessu frv., sem er öfugt við það frv. sem fyrirrennari núv. hæstv. heilbrmrh. lét gera. Hann lét vinna frv. á faglegum grundvelli. Nú var öðruvísi unnið. Það voru kallaðir til fulltrúar þingflokka, stjórnarflokkanna. Það liggur fyrir, vegna þess að hv, þm. Alexander Stefánsson sagði að þingflokkur Framsfl. hefði gert margháttaðar athugasemdir við það sem var meginefni þess sem ég gagnrýndi í frv. í dag, sem er rauði þráðurinn í gegnum frv. allt, það eru ráð ráðherra, ráð ráðherra í nær hverri einustu grein. Það er verið að flytja vald, sem er meðal þegnanna, meðal sveitarfélaganna, meðal sjálfseignarstofnananna úti um þjóðfélagið,— það er verið að flytja það upp í rn. til hæstv. heilbrmrh. Þetta viðurkenndi talsmaður þingflokks eins stærsta stjórnarflokksins að væri eitt helsta gagnrýnisatriði þeirra í sambandi við þetta. (Gripið fram í: Stærsta stjórnarflokksins.) Stærsta stjórnarflokksins og með mestu meðalþyngdina.

Hv. þm. benti auðvitað á mörg önnur atriði, sem er vissulega gott að endurtaka og benda á, og ég skal ekki fara að taka upp hvert einasta atriði þar, en ég bendi á að það voru mörg af þeim atriðum sem ég gagnrýndi í minni ræðu í dag. Hv. þm. benti á sömu atriði og ég gerði. Hins vegar er nokkur misskilningur hjá honum í sambandi við orðalag hjá mér, sem vel má vera að hafi orkað tvímælis þegar ég flyt ekki skrifaða ræðu getur vel verið, ef ég hef áhuga á máli, að farið sé út fyrir beinan ramma þess sem fjallað er um og jafnframt kannske sögð önnur orð en segja á hverju sinni svo að enginn móðgist. En það er satt að segja ekki að yfirlögðu ráði hjá mér þótt sumir hafi látið orð að því liggja hér í hv. þd. í dag. Og ég skal ekki fara frekar út í orð hv. þm. í sambandi við þetta atriði:

En hv. þm. kom nokkuð inn á fjármálin og þann nýja framkvæmdasjóð sem frv. gerir ráð fyrir að verði settur á stofn og ráðh. á jafnframt að hafa undir sinni yfirstjórn og veita úr, og hann kvaðst óttast nokkuð það mikla vald sem ráðh. fengi á þessu sviði. Þetta tek ég alveg undir. Ég bendi á að margir þeir mörkuðu tekjustofnar, sem við höfum ákveðið hér á Alþingi á undanförnum árum, hafa verið skertir og fluttir inn í hina almennu hít ríkissjóðs. Má t. d. benda á Erfðafjársjóð, hvernig hann er kominn. Ég held að ekki hafi verið fundið að því á undanförnum árum hvernig stjórn Erfðafjársjóðs úthlutaði því fé sem hún ráðstafaði. En það má vera að núv. hæstv. ríkisstj. telji úthlutun þess fjár betur komna í höndum hæstv. fjmrh. Hins vegar hef ég aðrar skoðanir á því.

Það hefur komið fram iðulega talsverð vanþekking hjá hv. þm. sem hafa talað í þessu máli. Og það undarlega skeður, að það er fyrrverandi starfsmaður Tryggingastofnunar ríkisins, hv. þm. Guðrún Helgadóttir, sem gerir sig seka um það að vita ekki meira um það mál, sem hún er búin að vinna að árum saman, heldur en kom fram í hennar máli. Hún heldur því fram, að það sé nánast um ekki neitt mat að ræða á sjálfseignarstofnunum, þess vegna þurfi hinar ráðherraskipuðu nefndir að koma til til þess að meta og taka þetta vald úr höndum stjórnenda heimilanna og þeirra trúnaðarmanna sem þeir hafa til starfa. Þetta er auðvitað gífurlegur misskilningur. Það er ekki tekið inn á heimilin öðruvísi en eftir mati, félagslegu mati þeirra sem fara með stjórn heimilanna, og þar eru að baki bæði inntökunefndir og stjórnir viðkomandi heimila sem hafa með það að gera. (GHelg: Á öllum sjálfseignarstofnunum?) Á sjálfseignarstofnun þeirri sem ég er formaður fyrir, og það er stærsta stofnunin sem til er hér á Íslandi. Og það má hv. þm. skilja, þegar ég reyni að tala um þetta mál af nokkurri reynslu, að þá dreg ég auðvitað mínar skoðanir og ályktanir af fenginni reynslu á þeim 20 árum sem ég hef starfað við þetta. Ég nauðþekki það, hvernig að þessu er unnið hjá okkur. Og ég er að segja hv. þm. og upplýsa hann um hvernig þetta fer fram, þótt henni hafi ekki tekist á sinni starfsævi hjá Tryggingastofnun ríkisins að komast að því, hvernig að þessu væri farið.

Þetta er um vistunina inn á dvalarheimilið sjálft, inn á vistheimilið, sem er ekki annað en verndaðar íbúðir, þ. e. eins og íbúðir aldraðra sem byggðar hafa verið hjá sveitarfélögunum. Þótt þau fylgi mjög ströngum ákvæðum gildandi laga í dag í rekstri sínum, þá hafa þau þetta frjálsræði um vistunina. En þau hafa fram til þessa ekki fengið neina krónu í byggingarstyrk frá opinberum aðilum, og þá á ég við ríki og Alþingi, fyrr en nokkur upphæð fékkst til dvalarheimilis Hrafnistu, vistheimilisins í Hafnarfirði, þegar verið var að ljúka áfanga þar, gegn því að þar væri sérbúnaður hafður á vistdeildinni fyrir fólk sem hægt væri að hafa innan þess heimilis og þyrfti ekki á mikilli hjúkrun að halda, en þyrfti samt á eftirliti og umönnun að halda sem ekki væri hægt að veita á heimilum.

Þegar þessu er lokið koma auðvitað fleiri til sem þurfa á innlögnum að halda, og þá koma til greina sérhannaðar deildir þessara heimila, sem réttilega — eins og hjá hv. þm. kom fram — eru ekki nema t. d. um 80 á Hrafnistuheimilinu í Reykjavík, þótt þar séu um 160 aðilar sem eru á þessu gjaldi og á deildum sem nú eru viðurkenndar sem hjúkrunardeildir. En af hverju er þetta? Það er vegna neyðarástandsins. Það hefur verið tekið í notkun húsnæði sem byggt var í allt öðrum tilgangi. Ýmsar fullyrðingar í skýrslum heilbrmrn., landlæknis og annarra spekinga úr læknastétt, sem hafa verið að bera okkur saman við sænska „statistik“ og talað um þetta af fjálgleik og miklu viti án þess að hafa nokkurn tíma komið inn á þessar stofnanir, fá því ekki staðist. Þar á ég t. d. við lækna eins og yfirlækni herra Þór Halldórsson og reyndar fleiri menn úr heilbrigðisstéttum, yfirmenn sem hafa ekki látið sjá sig á þessum stofnunum árum saman og þykjast geta talað af miklu viti og þekkingu þar um, sem er hinn mesti misskilningur að sjálfsögðu.

En þetta pláss hefur verið tekið í notkun fyrir þetta fólk út af neyðarástandinu. Og þegar er farið að tala um það sem eitthvert sérhannað húsnæði fyrir aldrað sjúkt fólk, þá er hér um misskilning að ræða. Það má þá alveg eins telja það íbúðarhúsnæði með sem er á heimilum manna sem af litlum efnum og miklum vanmætti er að halda heima hjá sér sjúku fólki, þungum hjúkrunarsjúklingum sem þurfa allt upp í 24 klst. umönnun og eftirlit á sólarhring. Og þegar svo er komið þarf enginn að segja mér að nein heimahjúkrun geti hlaupið þar í skarðið. Við værum þá að kalla yfir okkur meira en við viljum gera. Við værum að kalla yfir okkur það, að við værum að misbjóða heilsu þeirra sem hafa þetta fólk á sínu framfæri og eru að reyna að gæta þess. Við gætum fengið fleiri sjúklinga út úr þessu heldur en ella.

Þannig er farið að því að vista á þessu heimili. Og ef fólk fer inn á þessar deildir, sem viðurkennt er bæði af heilbrmrn. og Tryggingastofnun að megi hafa slíkt fólk innan dyra, hvað skeður þá? Þá verður fyrst að ganga í gegnum rannsókn lækna heimilisins, sem eru um leið trúnaðarlæknar innan heilbrigðiskerfisins íslenska og undir stjórn landlæknis sem svo aftur á embættissæti í sama húsi og hæstv. heilbrmrh. En er þá öll sagan sögð? Ó-nei, þá fer fram nýtt mat. Það fer fram nýtt mat eftir að stjórnendur heimilisins, hjúkrunarforstjórar og læknar hafa sagt: Þessi persóna þarf að fara á hjúkrunardeild. — Þá fer fram nýtt mat trúnaðarmanna ríkisins, trúnaðarlækna Tryggingastofnunar ríkisins. Og það er ekki fyrr en þetta fólk er búið að fara í gegnum þetta mat að greitt er fyrir það samkvæmt ákvæðum sjúkratryggingalaga. Þegar fólk er því að tala um að það sé ekkert mat fyrir hendi og ég sé að óttast eitthvert mat, þá er það hinn ferlegasti misskilningur, svo að ekki sé meira sagt. Þeir, sem tala svona, vita ekki hvað þeir eru að tala um.

Ég hef hins vegar í því samkomulagsfrv., sem hv. þm. Magnús H. Magnússon beitti sér fyrir meðan hann var heilbrmrh., gengið jafnvel enn lengra en nú er gert, og ég gerði það fúslega, m. a. vegna þess að full ástæða er til að losna við alla tortryggni í þessum efnum. Og ég hef líka bent á það í persónulegu viðtali við hæstv. heilbrmrh., að við þurfum auðvitað að ganga miklu lengra í að breyta daggjaldakerfinu og greiðslunni inn á heimilin, á þessi viðurkenndu heimili, sem fá opinbera aðstoð, vonandi í framtíðinni til þess að byggja og líka til rekstrar, eins og þau raunar fá í dag í gegnum þá greiðslu sem kemur fyrir vistun fólksins, sem er ekkert annað en greiðsla fyrir veitta þjónustu. Það er ekki nóg að ríkisvaldið ákveði sjálft í gegnum daggjaldanefnd það verð sem borgað er fyrir. Jafnvel þó hægt sé að sanna og sýna fram á að það þurfi að vera hærra, þá hefur ríkisstj. samt stöðvað það, því að ríkisstj. er verðstöðvunarnefndin í sambandi við vistgjöld á þessum heimilum. Til viðbótar hefur ríkisstj. og ríkisvaldið, heilbrigðiseftirlitið og landlæknir, valdið hjá sér, og reyndar er það bundið í lögum líka hvaða þjónustu er krafist fyrir þetta takmarkaða gjald sem er í höndum opinberra aðila. Það er því ekki verið að hlaupa neitt í kringum opinbera fjármuni og draga neitt til þessara stofnana sem ekki er fyllilega réttmætt að þær fái. Þegar öðru er haldið fram er annaðhvort um misskilning að ræða eða verið með hreinar blekkingar. Og ég endurtek það, að sú þjónusta, sem veitt er á þessum stofnunum — á sjálfseignarstofnunum á ég þá við — er ekki aðeins sannanlega — og þá miðað við sömu hjúkrunarþyngd, sem er fundin eftir sömu reglu á öllum stofnunum — hún er ekki aðeins miklu ódýrari, þessi þjónusta, hjá einkaaðilunum en hjá því opinbera, heldur er hún síst verri. Og það er m. a. vegna þessa sem ég tel nauðsynlegt að þessar sjálfseignarstofnanir í einkarekstri eða félagarekstri séu til hliðar við opinberu stofnanirnar, bæði þær ríkisreknu og þær sem reknar eru af sveitarfélögunum, til þess að það fáist nauðsynlegt aðhald að embættismannakerfinu innan heilbrigðisstéttanna. Þótt það væri ekki til annars tel ég það vera mjög nauðsynlegt.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir var nú svo smekkleg að þurfa að hafa orð á því — sem í sjálfu sér er alveg rétt hjá henni — vegna orða hv. þm. Ingólfs Guðnasonar, að heilbr.- og trn. hefur þegar mótað brtt. við frv. um hollustuhætti og hollustueftirlit sem miðar að því að greiða úr því vandamáli, sem hv. þm. benti á í sambandi við skipan heilsugæsluumdæma. Í till. nefndarinnar verður Flatey flutt undir Stykkishólm og Bæjarhreppur undir Hvammstanga, eins og eðlilegt er og allt bendir til að eigi að vera. Það var auðvitað óþarfi af þessum hv. þm. að vera að skjóta á hv. þm. Matthías Bjarnason vegna þess að hann var ráðh. þegar þessi lög voru sett. Það var stórkostlegt þrekvirki að ná þessari löggjöf fram þá, eftir að hún hafði legið í salti árum saman. Og það má segja að það sé nákvæmlega það sama sem honum tókst að vinna þá með allan lagabálkinn eins og við erum búin að eyða nú margra mánaða vinnu í heilbr.- og trn. til að ná þessari einu breytingu fram. Og við skulum ekki gleyma því, að hv. þm. Matthías Bjarnason á sæti í nefndinni og hann hefur átt meginþáttinn í því að erfiðustu málin þar í sambandi við þetta voru leyst. Þetta hefði hv. þm. Guðrún Helgadóttir getað tekið fram. En að sjálfsögðu sá hún ekki ástæðu til þess.

Ég skal ekki, herra forseti, eyða tíma lengur í að ræða um þetta. Ég hef komið að mínum athugasemdum. Þó vil ég benda á eitt atriði í sambandi við þau heimili sem ég hef hér nokkuð rætt um — vegna þess að það hefur verið látið að því liggja, sem ekki er rétt, að jafnvel séu allir þar, t. d. á Hrafnistu í Reykjavík, á einhverri opinberri framfærslu. Þetta er mesti misskilningur. Ég er hér með nýja skýrslu fyrir s. l. ár. Þar kemur m. a. fram að þar voru 406 vistmenn um s. l. áramót og þar af voru 280 með lögheimili í Reykjavík, en l26 með lögheimili utan Reykjavíkur. Þarna voru sjómenn 138 og sjómannskonur 113 eða samtals 251, en úr öðrum stéttum 38 karlar og 117 konur. Þetta síðarnefnda fólk er að langmestu leyti á hjúkrunardeildunum, m. a. vegna þess að sú stefna hefur aldrei verið uppi eða því fylgt, að það fólk, sem ætti bágast, ætti á nokkurn hátt að flokkast eftir stéttum. Við höfum hins vegar reynt að halda okkur við það að taka inn á vistdeildirnar aldraða sjómenn og sjómannsekkjur, og það eru t. d. enn þá að koma stríðsekkjur úr síðustu heimsstyrjöld inn á Hrafnistuheimilin. Þær finnast enn þá og þær finnast um allt land að sjálfsögðu.

Auk þess eru auðvitað aðrir aðilar sem fylgja eftir þessu aldraða fólki. Síðast man ég eftir að það komu fjórir skipstjórar, þrír bræður og mágur þeirra, og einn vélstjóri, fjórði bróðirinn, og báðu fyrir konu til vistunar. Þetta voru menn í fullu starfi. Einn hefði þurft að fara í land ef þeir hefðu ekki getað leyst sitt vandamál. Móðir þeirra og tengdamóðir var að vísu ekki sjómannskona, en þarna var nákvæmlega sama vandamálið. Flestir sem koma inn á hjúkrunardeildirnar, koma vegna neyðarástands: hér í Reykjavík á vegum aðila frá Reykjavíkurborg eða frá sveitarfélögum úti á landi, frá Hátúnsdeild, frá spítölunum og svo, eins og á stendur, frá Hrafnistuheimilinu í Hafnarfirði, sem hefur ekki neina hjúkrunardeild og verður þess vegna að taka pláss frá heimilinu í Reykjavík til þess að gæta sjúkra þar.

Ég vildi láta þetta koma fram og jafnframt það að síðustu, að ef framfylgt verður eða samþykkt ákvæði lagafrv. um þann mikla rétt sem þessar svokölluðu ellimálanefndir eiga að fá, þá er ekki aðeins að við séum að brjóta niður það sem þessi samtök hafa byggt þessa starfsemi fyrst og fremst upp á, bæði fyrir og í nafni sjómannastéttarinnar, heldur erum við þá líka að brjóta önnur lög sem standa nær stjórnarskránni, en það er að brjóta lögformlega samninga sem samtök okkar hafa gert við ekki aðeins aðra aðila sem starfa að góðgerðarmálum, og þá á ég við einstakar stúkur úr Oddfellowreglunni, ekki aðeins við einstök verkalýðsfélög innan ASÍ, sem hafa gengið til samstarfs við okkur um að hjálpa okkur við fjármögnun gegn því að tryggja sínu fólki vistun. Og ef það er eitthvað ljótt við það, að þessi félög noti sína sjóði, sjúkrasjóði og lífeyrissjóði, til þess að skapa þessa aðstöðu fyrir sína félagsmenn, þá segi ég: það er röng hugsun hjá þeim sem halda því fram. Við værum að brjóta þessa samninga og við værum líka að brjóta samninga, bæði siðferðilega samninga við kaupstaði eins og Hafnarfjörð og Garðabæ og svo beina samninga. lögformlega samninga við Grindavíkurbæ, sem á beina aðild eftir fjármögnun að heimilinu í Hafnarfirði, og þar má til viðbótar telja Bessastaðahrepp.

Það er auðvitað miklu meira mál en bara að segja að einhver ellimálanefnd á viðkomandi stað eigi að ráðstafa öllum plássum á viðkomandi stöðum, og það er m. a. vegna þessa sem ég tók til orða eins og ég gerði í dag. Það er ekki vegna þess að ég ætli mér á einn eða annan hátt að leggja neitt í veg fyrir það að frv. varðandi þessi mál verði samþykkt. En ég mun aldrei ganga til liðs við það, að það verði á einn eða annan hátt skertur hvorki eignarréttur né félagaréttur í þessu landi til þess að þjóna pólitískum ráðh. og fylgifiskum hans.