01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3347 í B-deild Alþingistíðinda. (3424)

255. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Efnislega get ég tekið undir þetta frv., en ég vil þó vekja athygli á því, að eftir því sem ég þekki til hafa sveitarfélög eða sveitarstjórnarmenn yfirleitt — a. m. k. í öllum miðlungs- og smærri sveitarfélögum — notað þennan rétt þannig að sveitarstjórnirnar framkvæma það sjálfar án þess að um það sé sótt. Í þeim sveitarfélögum, þar sem ég þekki til, hefur þetta verið sjálfkrafa fellt niður af sveitarstjórninni, þetta verið framkvæmdaatriði sveitarstjórnar.

Það má vel vera að í stærri sveitarfélögum, eins og í höfuðborginni og þeim allra stærstu í nágrenninu, sé hins vegar sá háttur hafður á, að sækja verði um þessa niðurfellingu, en ég held að sveitarstjórnir í landinu noti yfirleitt hina aðferðina. Í sambandi við fasteignagjöldin er farið eftir fyrir fram ákveðnum lista yfir það fólk sem ber að fella þessi gjöld niður hjá samkv. heimild laganna, þ. e. elli- og örorkulífeyrisþegum, ég held að það sé gildandi aðferð sveitarstjórna í landinu. Ég þekki ekki annað. Hins vegar getur vel verið að það sé heppilegra að herða þetta ákvæði á þennan hátt. Ég hef ekki á móti því.