01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3347 í B-deild Alþingistíðinda. (3425)

255. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Um leið og ég fagna þessu fram komna frv. vil ég aðeins leyfa mér að leiðrétta það sem hv. síðasti ræðumaður sagði áðan. Ég get upplýst að í Reykjavík er þetta einmitt framkvæmt þannig, að þar þarf enginn að sækja um, og hefur svo verið um nokkur ár. Fasteignagjöld eru lækkuð ýmist um 25%, 50% eða 75% eftir ákveðnum reglum sem borgarstjórn setur hverju sinni eða borgarráð. Ég vil hins vegar vekja athygli á að það er ein grundvallarbreyting í þessu frv. sem skiptir verulegu máli. Í núgildandi lögum segir að heimilt sé að fella niður eða lækka o. s. frv. og það er mikill munur á því eða hvort skylt sé að fella niður eða lækka. Þar með er komin skylda að fella jafnvel niður fasteignagjöld. Þetta frv., sem ég vona að verði að lögum, felur það í sér að það hlýtur að verða að búa til reglur um að stundum, við ákveðnar aðstæður, verði þessi skattur algerlega felldur niður. Þannig er um að ræða verulegan mun. Hingað til er mér ekki kunnugt um að heimildin hafi verið notuð til að fella niður fasteignaskatta, en hún hefur vissulega verið notuð — ég má segja í öllum sveitarfélögum — til að lækka. Hér er því um verulega breytingu að ræða sem ég tel að hiklaust beri að fagna. Ég vil sem sagt eindregið lýsa stuðningi mínum við þetta frv. Ég vildi aðeins vekja athygli á ofangreindu atriði sem skiptir verulegu máli.