01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3354 í B-deild Alþingistíðinda. (3435)

271. mál, vörugjald

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég hef kynnt mér efni þessa frv. og hlýddi á röksemdir sem hv. 12. þm. Reykv., 1. flm. frv., færði hér fram. Ég er ekki heldur alveg ókunnugur þessu máli né heldur trúlega hv. þingheimur.

Ég nota tækifærið til að lýsa yfir eindregnum stuðningi við þetta frv. En mörgum kynni að fljúga í hug að hér væru hv. flm. að iðrast eftir dauðann. Það er þó tæplega rétt orðalag. Það má eiginlega segja að í þessu máli hafi staðið yfir dauðateygjur þeirra frá því í desembermánuði og þeim sé ekki enn lokið, því að slík og svo átakanleg voru umbrot þeirra þá, a. m. k. tveggja hv. fyrri flm. frv. Þeir þurfa þess vegna ekki að iðrast eftir dauðann, enda — eins og ég hef bent á — hefur hann ekki orðið enn og kannske Eyjólfur hressist. Þeir eru að reyna að hressa sig með þessu frv. a. m. k. Þeim var nefnilega ljóst, og það kom berlega fram í umr. þá og miklum umbrotum og umsvifum þessara hv. þm., — þeim var berlega ljóst að hverju stefndi með vörugjaldinu á öl og gosdrykki, sem lagt var á um það leyti sem fjárlög voru í lög leidd. En þetta er auðvitað góðra gjalda vert.

Það liggur alveg ljóst fyrir, eftir því sem mál voru þá vaxin — og engin ástæða til að ætla að þau hafi breyst — að meiri hluti er í hv. Nd. fyrir því, að frv. þetta verði að lögum. Hér eru þrír hv. stjórnarsinnar, sem flytja þetta frv., og það er hægt að fullyrða hiklaust að stjórnarandstaðan mun fylgja þessari tillögugerð. Það kom fram við afgreiðsluna þegar í lög var leitt vörugjaldið á sínum tíma.

En það er ekki allt fengið með því. Þess vegna spyr ég beint: Hafa hv. flm. tryggt sér tvo stjórnarsinna sem fylgjendur þessa frv. í hv. Ed.? Ef ekki, þá er þetta sýndarmennskan einber sem hér birtist á borðum hv. þm. Þá eru þeir aðeins enn að reyna að rétta við hlut sinn frá því sem þeir báru og höfðu í hendi sér, báru ábyrgð á á sínum tíma og höfðu í hendi sér að koma í veg fyrir, hv. i. flm. einsamall, að þetta vörugjald yrði á lagt á sínum tíma.

Ég bið um beint svar við þessu: Hafa hv. flm. tryggt sér a. m. k. tvo stjórnarsinna sem fylgjendur þessa frv. í hv. Ed.? Ef ekki, þá hlýt, ég að saka þá um sýndarmennsku, að þeir séu að slá ryki í augu manna með því að þykjast eftir dúk og disk, þar sem ljóst liggur fyrir að þeir notuðu ekki tækifærið, þegar þeir áttu það, til að koma í veg fyrir að þessi ósvinna væri framkvæmd á sínum tíma, sem allir menn minnast vegna ýmissa atburða sem þá urðu. En alveg sérstaklega mun ég fagna því, ef það kemur í ljós að þessu frv. hefur verið tryggður framgangur í Ed. einnig, því að hér er hann alveg öruggur.