02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3362 í B-deild Alþingistíðinda. (3445)

15. mál, landhelgisgæsla

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég var því miður af óviðráðanlegum ástæðum fjarverandi upphaf umr. um þetta tiltekna þingmál. Ég hef kynnt mér síðan með hvaða hætti þær fóru fram og varð raunar helst til þess fréttaauki í hádegisfréttatíma Ríkisútvarpsins. Að honum vík ég örlítið aftur seinna, en ímynda mér að kannske hafi hæstv. dómsmrh. haft orð á fjölmiðlabragði af málflutningi hv. þm. Árna Gunnarssonar vegna þessa viðtals.

Ég hef heyrt hæstv. dómsmrh. einu sinni áður hafa orð á þessari undarlegu leið sem ég get ekki kallað þinglega. Það var er hann svaraði fsp. minni fyrr á þessum vetri eitt sinn, að heppilegra hefði verið að hlutaðeigandi þm. kæmi til sín upp í dómsmrn. og hjalaði þessi mál við sig prívat og persónulega, að því er manni finnst undir fjögur augu. Ég hafði það einhvern veginn á tilfinningunni að þær upplýsingar, sem fram komu hjá hv. þm. Árna Gunnarssyni, væru þess háttar að þær vörðuðu þingheim er málefni Landhelgisgæslunnar eru til umr. Dæmi, sem þarna voru nefnd, eru sannarlega innlegg í málið þegar rætt er um stöðu landhelgisgæslunnar.

Hitt er annað mál, að mér þótti það nýlunda þegar þingfréttaritari Ríkisútvarpsins tók allt í einu upp á því að taka út ræðu eins þm. í umr. um mál sem hann er ekki flm. að og eiga við hann sérstakt viðtal í fréttatíma Ríkisútvarpsins í þessu tilfelli, en um það var ekki fjallað að öðru leyti. Var það ekki? (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að halda þessu fram, en það breytir ekki því þó að þau efnisatriði málsins, sem um var fjallað sérstaklega í fréttatíma Ríkisútvarpsins, væru þess eðlis flutt hér inni í þinginu að þar væri fjölmiðlabragur á.

Mér er ekki kunnugt um, mér er alls ekki kunnugt um, hvort tækjabúnaður Landhelgisgæslunnar er eins slæmur og fram kom í máli hv. þm. Árna Gunnarssonar, en ábyrgðinni á ummælum hans í þessu sambandi verður ekki komið fyrir með svo nýstárlegum hætti að gera kröfu til þess að hann leggi fram sannanir uppi í dómsmrn. eða hér á þinginu. Hann benti sjálfur áðan á þá leið fyrir dómsmrh. að rekja þessar staðhæfingar til uppruna síns. Að vísu hef ég ekki heyrt þess getið, að skortur á tækjum til staðsetningar hafi staðið landhelgisgæslunni fyrir þrifum. Við vitum að ýmis tæki gæslunnar eru úrelt og það gerir tækin út af fyrir sig ekkert verri þó að þau hafi verið hirt úr strönduðu skipi, en hitt má alveg vera ljóst, að nýjungar hafa átt sér stað í tækjabúnaði til staðsetningar og á ýmsum öðrum tækjabúnaði á þeim tíma sem liðinn er síðan velflest þessara skipa voru smíðuð.

Þörf fyrir aukna gæslu verður kannske ekki hlutfallslega meiri þótt við höfum stækkað fiskveiðilögsögu okkar og efnahagslögsögu því að allmikið mun hafa létt á þörf fyrir daglega gæslu að við losnuðum við fiskiskip útlendinga svo til aldeilis af fiskislóð okkar — og ég minnist þess, að það var við orð haft að einmitt mundi létta allmikið á okkur að við hefðum útlenda fiskiskipaflotann vel í burtu frá fiskimiðunum okkar.

En ég ítreka það, sem ég áður sagði, að ég hef lesið ræðu hv. þm. Árna Gunnarssonar, ég hlustaði á ummæli hans í Ríkisútvarpinu og ég get alls ekki komist að þeirri niðurstöðu af þessari könnun minni, að hann hafi borið hér fram nein efnisatriði sem væru þessu þingmáli og umr. óviðkomandi. Við verðum að tilskilja okkur rétt til þess að láta koma fram í ræðum okkar hér í Sþ. öll þau atriði sem okkur þykja skipta máli, án tillits til þess, hvort þau koma ráðh. á ávart eða eigi.