02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3363 í B-deild Alþingistíðinda. (3446)

15. mál, landhelgisgæsla

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þá deilu, sem hér hefur komið upp, um hvort fyrrverandi starfsmenn ríkisfjölmiðlanna eigi betri eða greiðari aðgang að þeim eftir að þeir hafa tekið sæti á Alþingi en aðrir. Hins vegar tók ég eftir því í sjónvarpi, held ég í gær, að hæstv. dómsmrh. fer ekkert illa á skjánum og má segja að það hafi gert hið fyrra starf hans og þeirra að þeir koma þar vel fyrir.

Mér hefur dottið það í hug að undanförnu, þegar rætt hefur verið um Landhelgisgæsluna og störf hennar, að gleymt er þá gleypt er. Segja má sem svo, að eftir að við unnum okkar síðasta og stærsta sigur í baráttu okkar fyrir fiskveiðilögsögunni hafi orðið nokkuð hljótt um landhelgisgæsluna, og vissulega má til sanns vegar færa að henni hafi ekki verið sýndur sá sómi sem henni ber eftir að þessu stríði okkar lauk. Ég fagnaði því þegar till. þeirra hv. þm. Benedikts Gröndals og Árna Gunnarssonar var lögð fram og þó kannske enn frekar niðurstöðu utanrmn., sem kemur fram í nál. hennar á þskj. 534, hvar þeir leggja til að tillgr. orðist svo, en þar segir, með leyfi forseta: „að hún“ — þ. e. Landhelgisgæslan —„geti haft sem best eftirlit með 200 mílna lögsögusvæðinu og gegnt öðrum hlutverkum sínum á fullnægjandi hátt.“

Nú hefur verið komið hér nokkuð inn á eitt af þeim verkefnum, sem ég tel sjálfsagt að Landhelgisgæslunni verði falið í framtíðinni, og það er í sambandi við vitaþjónustuna. Þá er spurning um hvort ályktun Alþingis hefði ekki átt að hafa í sér fólgið ákvæði þess efnis, að endurskoðun færi jafnframt fram á lögum um Landhelgisgæslu Íslands og þeirri mþn., sem ætlast er til að kjörin verði hér, verði falið það verkefni. Ég fæ ekki séð annað en að það sé orðið tímabært að endurskoða þessi lög í ljósi þeirrar þróunar sem hefur orðið frá því þau voru samþykkt. Ég var einn þeirra sem unnu að þeirri endurskoðun. Ég átti þá sæti í allshn. þessarar hv. deildar. Þá voru mörg álitamál sem komu upp. Vissulega eru þau enn til og önnur hafa bæst við, — að ég nú ekki tali um ef Landhelgisgæslunni verða falin í framtíðinni ný verkefni eins og t. d. það sem ég tek undir og tel alveg sjálfsagt að Landhelgisgæslan taki við, þ. e. þjónusta og eftirlit með vitakerfi landsmanna og kannske öðrum hjálpartækjum sem notuð eru af sæfarendum hér við land.

Það er fleira sem getur komið til greina og kemur að sjálfsögðu upp í sambandi við þessi verkefni. Má þar t. d. benda á nánara samstarf við Hafrannsóknastofnunina, sem ég er ekki frá því að við þyrftum jafnvel að setja inn í sjálf lögin um Landhelgisgæsluna, og þyrfti þá það að vera tvíhliða tekið fram og því jafnframt í lögum um Hafrannsóknastofnunina. Það má að sjálfsögðu tala um fleiri atriði, þ. á m. það, sem ég veit að hefur komið fram um flugþjónustuna og hefur komið fram í umr. og víðar, að hugsanlega má setja þá þjónustustarfsemi, sem fer fram á því sviði hjá ýmsum ríkisfyrirtækjum, undir stjórn Landhelgisgæslunnar og að starfsmenn hennar gæti þeirra starfa fyrst og fremst.

Ég tala um endurskoðun laga um Landhelgisgæsluna m. a. vegna ákvæða sem þar eru um áhafnir skipanna. Það vill svo til, að þótt allir aðrir starfsmenn ríkisins hafi fengið þann — að því er sumir telja — vafasama rétt og heiður að hafa verkfallsrétt, þá hafa þær það ekki enn. Persónulega er ég ekki á því að þær þurfi endilega að fá hann. Þær gegna slíkum störfum og þurfa að gegna störfum undir sérstökum kringumstæðum svo það er máske ekki ráðlegt að verkfallsréttur sé þar til. En það á ekki endilega vegna þess að refsa áhöfnunum fyrir að hafa ekki þennan rétt. Það á frekar að launa þeim enn frekar en öðrum fyrir að fá hann ekki. Því miður hefur það komið upp oftar en einu sinni á síðustu misserum og árum að áhafnarmönnum hjá landhelgisgæslunni hefur bókstaflega verið refsað fyrir að hafa ekki þennan rétt. Svo er komið að jafnvel forustumenn í samtökum vinnuveitenda hafa talið það hina mestu firru ef þessir menn hafa fyrir milligöngu stéttarfélaga, sem þeim eru ætluð til að leita réttar síns eftir, síns löglega félagsskapar, reynt að hafa áhrif á kaup sitt og kjör. Ég tel að ef farið yrði í að skoða þessi lög þyrfti að taka þetta atriði til athugunar við endurskoðunina.

Jafnframt þarf auðvitað að hafa í huga, að þegar kemur að því að endurnýja skipakostinn verði hægt vegna tækniframfara, sem ljóst er að hægt er að notfæra sér á þessum skipum, að fækka í áhöfn þannig að útgerð þeirra geti orðið ódýrari. Þegar sú nýsköpun fer fram á skipastól Landhelgisgæslunnar þarf, eins og nú er, að vera til staðar á þeim skipum sá fullkomni björgunarbúnaður sem þau eru búin. Það er enginn vafi á því, að öll skip Landhelgisgæslunnar eru búin fullkomnasta búnaði sem til er hér á landi til björgunar öðrum skipum, en einmitt þetta atriði hefur komið nokkuð til umræðu í fjölmiðlum að undanförnu og það ekki á mjög viðurkvæmilegan hátt alls staðar — a. m. k. ekki alls staðar opinberlega. M. a. þess vegna hef ég leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. dómsmrh. hér í Sþ. hvar ég spyr um heildarupphæð björgunarlauna til Landhelgisgæslunnar á s. l. tveimur árum og um skiptingu þeirra, bæði til þeirra, sem eiga að hluta að fá þau samkv. gildandi lögum, og svo til annarra. Þá kemur að sjálfsögðu fram sá kostnaður sem er af því að innheimta og skipta umræddum björgunarlaunum.

Ég fagna því, að það hefur fengist jákvæð niðurstaða frá hv. utanrmn. varðandi þetta mál. En ég bendi samt sem áður á, þótt komið sé að lokum umr. þessa máls, hvort ekki hefði þurft að vera ákvæði um endurskoðun laganna eða hvort nm. telji það orðalag, sem er í till. nefndarinnar, nægja til þess að það verði gert.