02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3372 í B-deild Alþingistíðinda. (3451)

15. mál, landhelgisgæsla

Frsm. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en ég þakka efnislegar undirtektir hv. þm. undir till. og nál. utanrmn. Ég ætla mér ekki að fjalla hér um skipakost, flugvélakost eða annan tækjabúnað Landhelgisgæslunnar. Ég tel að við höfum betri skilyrði og traustari forsendur til þess að fjalla um þá hlið málsins þegar milliþinganefnd sú, sem till. fjallar um að kosin verði, hefur lokið störfum.

Ég skal víkja að þeirri athugasemd eða fsp., hvernig á því standi að till. þessari var vísað til utanrmn. Það var gert samkv. tillögu 1. flm., hv. þm. Benedikts Gröndals, og samþykkt af Sþ. utanrmn. skyldi um þessa till. fjalla. Ég hygg að það hafi verið gert á þeim forsendum m. a., að efling landhelgisgæslunnar væri svo mikilvæg í samskiptum okkar og réttindavörslu gagnvart öðrum þjóðum, m. a. hvað snertir gæslu landhelginnar sjálfrar, fiskveiðilögsögunnar og landsgrunnsréttinda, meðan mörk þessa landgrunns og fiskveiðilögsögu væru enn ekki að fullu útkljáð í öllum atriðum, og að utanrmn. fjallaði ekki síst um þá hlið málsins.

Þá vildi ég láta það og koma hér fram, herra forseti, út af ábendingu hv. 1. landsk. þm., Péturs Sigurðssonar, þar sem hann vakti máls á því, að það ætti að vera verkefni milliþinganefndarinnar að endurskoða löggjöf um landhelgisgæslu, að ég lít svo á, að milliþinganefndin muni að sjálfsögðu, ásamt með tillögum sínum varðandi á hvern hátt nauðsynlegt sé að efla Landhelgisgæsluna svo hún geti haft sem best eftirlit með 200 mílna lögsögusvæðinu og gegnt öðrum hlutverkum sínum á fullnægjandi hátt, gera þær tillögur til lagabreytinga eða löggjafar almennt sem nauðsynlegar eru til þess að tilgangi þessarar eflingar verði náð.

Ég vænti þess, að þessi þáltill. verði samþykkt með þeim breytingum sem utanrmn. hefur gert að tillögu sinni, og læt máli mínu lokið.