02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3375 í B-deild Alþingistíðinda. (3463)

104. mál, innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðarvörum

Frsm. (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Nál. atvmn. um þessa till. er svohljóðandi:

„Nefndin hefur fjallað um till. á fundum sínum í vetur. Hefur hún nú verið lögð fram á þrem þingum. Á síðasta þingi var hún send til umsagnar og bárust umsagnir frá eftirtöldum aðilum: Félagi ísl. iðnrekenda, Sambandi ísl. sveitarfélaga og Innkaupastofnun ríkisins. Hlaut till. eindreginn stuðning og var hvatt til samþykktar hennar. Leggur n. til að till. verði samþykkt.“

Þar sem mál þetta hefur verið rætt ítarlega á þremur þingum og hlotið eindreginn stuðning allra þeirra er um hafa fjallað sé ég ekki ástæðu til að orðlengja um það, en vona að ríkisstj. taki rösklega við sér í þessu máli að fenginni samþykkt þessarar tillögu.