02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3380 í B-deild Alþingistíðinda. (3466)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka þær upplýsingar sem hér hafa komið fram frá hæstv. utanrrh. um þessi Helguvíkurmál. Það hafa ekki komið áður frá utanrrn. opinberar upplýsingar um geymarými í Hvalfirði og Keflavík í samanburði við þessi framkvæmdaáform með þeim hætti sem hér hefur komið fram, og ég held að það sé rétt, sem fram kom hjá hæstv. utanrrh., að nauðsynlegt er að menn hafi þessar tölur við höndina og í huga þegar verið er að ræða um máli. Það er erfitt að átta sig á þessari löngu talnarunu í smáatriðum nú þegar, en alla vega er þó ljóst af henni að þar er gert ráð fyrir verulegri aukningu geymarýmis fyrir flugvélaeldsneyti frá því sem verið hefur, um það bil 2/3, 66%, og það er alla vega svo mikil aukning að ástæða er til að staldra þar við og spyrja með hvaða rökum menn eru með hugmyndir um að auka svo við þetta geymarými.

Það kom hins vegar mjög skýrt fram hjá hæstv. utanrrh., að hér væri um að ræða óskir bandaríska hernámsliðsins og engin afstaða hefði verið tekin til þeirra óska af hæstv. ráðh., hvorki um stærð geymarýmisins né heldur í rauninni staðsetningu þess, vegna þess að eftir ættu að fara fram, m. a. í sumar, að mér skildist, ýmiss konar kannanir á aðstæðum á Helguvíkursvæðinu áður en ráðh. teldi fært að taka nokkrar ákvarðanir í þeim efnum.

Það kom einnig fram hjá hæstv. ráðh., að miðað við það, sem rætt hefur verið í þessum efnum, er ljóst að hér er ekki um að ræða framkvæmdaáform sem yrðu að veruleika á næstunni, hvorki á þessu né næsta ári, í fyrsta lagi á þar næsta ári, en það liggur auðvitað ekki heldur fyrir ákvörðun um neina tímasetningu í þeim efnum þannig að þetta gæti auðvitað allt eins orðið síðar, ef við þá enn sitjum uppi með bandaríska herinn hér í landinu, sem ýmsar líkur benda nú til þó ekki sé örvænt um annað.

Ég vil þess vegna segja það, að ég tel að þessi till. hv. þm. Ólafs Björnssonar og fleiri þm. um olíuhöfn og birgðastöð í Helguvík sé algjörlega ótímabær eins og hún er hér sett fram. Ég verð satt að segja að láta í ljós undrun á því, að till. af þessu tagi skuli vera flutt hér án þess að málsforsendur séu athugaðar miklu nánar. Það eru einhver annarleg pólitísk sjónarmið á bak við slíkt að mínu mati, en ekki að menn telji að hér sé í raun og veru um raunhæft mál að ræða miðað við alla stöðu þessara hugmynda um olíugeymarými þarna suður frá.

Afstaða okkar Alþb.-manna í þessu máli hefur verið alveg skýr. Við erum reiðubúnir, svo lengi sem herinn er hér, að taka þátt í því að létta mengunarhættu frá bandaríska hernámsliðinu af íbúum Suðurnesja. Við viljum ekki láta íbúa Suðurnesja gjalda þess nábýlis við herinn sem þar er um að ræða. Okkur er ljóst, eftir skýrslum sem fyrir liggja, að þeir geymar, sem þarna eru núna, geta skapað hættu á mengun, og við erum reiðubúnir til að taka þátt í að afstýra því, að lífi og heilsu fólks á Suðurnesjum sé stefnt í voða vegna mengunar frá herliðinu. Við erum hins vegar ekki tilbúnir til þess að horfa upp á að bandaríska hernum verði leyft að efna til meiri háttar aukningar á geymarými, sem flokkast má í rauninni undir hernaðarframkvæmdir í þessum efnum; og við tökum það mjög skýrt fram og ég vil gera það hér núna, að við skiljum þarna algjörlega á milli annars vegar mengunarvarna og hins vegar hernaðarframkvæmda. Á þeim grundvelli þessa sjónarmiðs okkar hef ég talið að það væru góðar horfur á því, að unnt væri að leysa þetta Helguvíkurmál, sem svo hefur verið kallað, ef og þegar það kæmi á dagskrá sem raunverulegt viðfangsefni. En ég vil hins vegar endurtaka það, að eins og till. sú, sem hér liggur fyrir, er orðuð og fram sett tel ég að hún sé í rauninni ótímabær.

Ég vil taka undir það sérstaklega, sem fram kom hjá hæstv. utanrrh. áðan, að mér finnst að staðsetning geymanna í Helguvík sé of nærri byggð. Ég minni á í þessu sambandi að gert var ráð fyrir því í skipulagi þessa svæðis að þarna yrði um að ræða íbúðahverfi. Ég tel að þetta mál verði að hafa þarna mjög alvarlega í huga. Þó svo að talsmenn bæjarstjórna á Suðurnesjum hafi mælt með þessu svæði að sagt er hér í ræðustól, og ég er út af fyrir sig ekki að draga í efa að slík meðmæli hafi komið fram frá einhverjum aðilum, þá held ég að verði að skoða það mál miklu betur áður en staðsetningu er slegið fastri þarna.

Ég tel að í þessum efnum megi ekki halda þannig á þessu máli, vegna þess að hér er verið að verja Íslendinga fyrir mengun, að íslensk yfirvöld verði útilokuð frá því að fylgjast með einstökum þáttum þess. Þar á ég við aðila eins og skipulagsyfirvöld hér í landinu, skipulagsstjóraembætti ríkisins, ég á hér við náttúruverndaraðila og ég á hér við aðila eins og t. d. Heilbrigðiseftirlit ríkisins. Ég tel að það hljóti að vera sjálfsagt mál að allir þessir aðilar fái að skoða þetta efnislega mjög rækilega og að engar ákvarðanir sé hægt að taka um staðsetningu fyrr en afstaða þessara aðila allra liggur fyrir.

Þessi till., sem hér er á dagskrá, fer nú væntanlega til nefndar þar sem menn munu fjalla um hana, og ég ætla mér ekki að ræða miklu lengur um hana hér. Þó mætti margt um þær umræður segja sem fram hafa farið um þessi mál undanfarna mánuði og er mér þar eitt og annað í huga ekki síður en hæstv. utanrrh. Ég ætla ekki að hefja þá umræðu hér núna, en vildi láta þessi sjónarmið, sem ég hef rakið, koma skýrt fram.