02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3381 í B-deild Alþingistíðinda. (3467)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. hefur nú rakið gang þessa máls og staðreyndir með skýrum hætti og viðrað margvísleg sjónarmið sem uppi eru um þetta efni.

Það var auðvitað mjög athyglisvert að fá skýrslu hæstv. utanrrh. um það, hvaða birgðarými væri fyrir hendi og hvert væri fyrirhugað að birgðarýmið yrði. Eins og mönnum er kunnugt hefur Alþb. fundið upp þá aðferð að tala um að til hafi staðið að fjórfalda það birgðarými sem þarna væri fyrir hendi. Hæstv. ráðh. sannaði að aukningin í heild er 36%. Á þessu tvennu er verulegur munur. Ég held að landsmenn allir hafi séð hver eftirleikurinn átti að vera hjá Alþb., að hrósa sér af varnarsigri ef það yrði ekki fjórföldun sem út úr dæminu kæmi. Einhvern tíma var sagt að ágætur Íslendingur hefði verið svo flinkur að hann hefði reiknað barn í konu eða mann. Ég veit ekki nema hæstv. ráðh. hafi tekist að reikna barnið úr Alþb. í þessu máli, því nú er það ekki lengur fjórföldun, heldur 36% aukning. Ef Alþb. telur það sigur að birgðarýmisaukningin sé 36%, en ekki fjórföldun, er þeim auðvitað guðvelkomið að telja það sigur.

Ég tók eftir því, að hæstv. félmrh. talaði um þessar tölur, sem utanrrh. upplýsti, sem verulega aukningu geymslurýmis fyrir flugvélabensín. Þegar hins vegar kom að hinni skýru afstöðu Alþb. og útlistun hans á því var það ekki spurningin um hvort leyfa ætti verulega aukningu á geymslurými flugvélaeldsneytis, heldur mundi Alþb. ekki leyfa meiri háttar aukningu á geymslurými flugvélaeldsneytis. Sú afstaða liggur því ekki skýrar fyrir en það, að það verður ekki af þessum orðum ráðið hvort sú aukning, sem hér er, er í hátt við það sem Alþb. getur sætt sig við eða ekki.

Hitt þótti mér verra, þegar hæstv. félmrh. talaði um að það hlytu að vera annarleg sjónarmið sem réðu því, að till. af þessu tagi væri flutt. Ég skal upplýsa hæstv. félmrh. um það, hvaða sjónarmið það eru sem ráða því, að till. af þessu tagi er flutt. Það, sem ræður því, eru þau sjónarmið, sem hann kallar „annarleg“, að tankarnir standa t. d. ofan á vatnsbóli Njarðvíkinga. Það eru þau sjónarmið, að þeir hafa staðið skipulagsmálum í þessu byggðarlagi fyrir þrifum allt frá 1966. Það eru þau sjónarmið, að það stafar veruleg eldhætta af þessum tönkum fyrir byggðina. Og það er sjónarmið fólks á þessum stað, og ég tel þau ekki annarleg, að þetta sé mjög slæmt ástand og úr því þurfi að fást bætt. Till. er vitaskuld flutt út frá þessum sjónarmiðum, vegna þess að svo brýnt mál er um að ræða og hversu mikið er í húfi og líka vegna þess að ýmis málflutningur, sem uppi hefur verið hafður og þá einkanlega af hálfu Alþb., hefur bent til þess, að meiningin væri að reyna að tefja þetta mál og láta það fólk, sem býr á þessum stað, halda áfram að búa við þessa áhættu í mengunarmálum og að því er brunahættu varðar og þessi þrengsli í skipulagsmálum. Það var vegna þessa sem till. er flutt. Í henni er eingöngu lögð áhersla á að því verði hraðað að fara í framkvæmdir af þessu tagi.

Ég held að augljóst sé að það sé svo mikið í húfi að menn eigi ekki að láta einhvern ágreining tefja þetta mál. Það á fólkið í þessum byggðarlögum ekki skilið. Það hefur búið nógu lengi við þessa áhættu. Nú hefur niðurstaða fengist um hvernig úr megi leysa, og það voru höfuðrök flm. fyrir flutningi þessarar till. að sjá til þess, að nú yrði gengið til verka og því yrði létt af fólkinu á þessu svæði sem það hefur búið við allan þennan tíma. Ég tel að það sé fráleitt að láta ágreining tefja þetta mál.

Ég vil líka benda á að það er samdóma álit þeirra, sem hafa skoðað þessi mál, og þeirrar nefndar, sem í þessu vann, að eini staðurinn allt frá Krýsuvík til Straumsvíkur, sem kæmi vel til greina, væri sá staður í Helguvík sem hér er um fjallað.

Ég vil svo að lokum segja aðauðvitað á að hraða þessu máli eftir mætti. Þegar útlit var fyrir að málið tefðist var einsýnt að flytja um það till. á Alþingi til að reka á eftir því. Ég tel að þeir aðilar, sem tefja fyrir þessu máli, séu að axla mjög mikla ábyrgð. Þeir eru að axla ábyrgð á því, að fólkið búi við þá áhættu áfram sem hægt er að ná samkomulagi um að það þurfi ekki að gera. Og þó að við vonum, að ekkert beri út af og allt lukkist eins og hingað til eiga menn ekki að tefla í tvísýnu í þeim efnum.