02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3383 í B-deild Alþingistíðinda. (3468)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að mæla með því, að þessi till. til þál. um olíuhöfn og birgðastöð í Helguvík hljóti samþykki hér á Alþingi.

Fyrir nokkru fór utanrmn. til Keflavíkur og litaðist um á Keflavíkurflugvelli og ók m. a. niður í byggðina í Njarðvíkum og Keflavík til að skoða olíugeymana sem fyrir eru og gera sér grein fyrir staðsetningu þeirra. (ÓRG: Ætlar formaðurinn að fara að gera grein fyrir ferðalaginu öllu saman hér?) Ég segi það sem ég tel mér rétt og skylt að segja og ég bið hv. þm. að gjöra svo vel að hafa hljóð hér. — Herra forseti. Ég held að hv. þm. sé eitthvað taugaóstyrkur. Ég sé ekkert að því að það sé sagt frá ferðalagi, sem utanrmn. hefur farið, og sagt frá því sem fyrir augu bar. Það er ekkert leyndarmál í því sem fyrir augu bar í þessu ferðalagi. Það er ekkert leyndarmál að utanrmn. fór í ferðalag til Keflavíkur og á Keflavíkurflugvöll. Það er ekkert leyndarmál að utanrmn. — og þeir sem voru með í þessari för — litaðist um á svæðinu, m. a. til að gera sér grein fyrir þessu vandamáli. Og það er ekkert rangt við að upplýsa hvaða skoðun menn hafa á þessu vandamáli eftir þá vettvangskönnun sem gerð var.

Ég var kominn þar máli mínu, þegar hv. þm., sem þegar varnarmál ber á góma hér eða leynisamninga er gjarnara að tala úr sæti sínu en að voga sér upp í ræðustól greip fram í, að ég var að geta um að það hlyti að vera öllum, sem litið hefðu olíugeymana augum, alveg ljóst að það væri óbærilegt fyrir íbúa í Njarðvíkum og Keflavík að búa við staðsetningu þeirra á þeim stað þar sem þeir eru. Ég held jafnvel að það sé hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni ljóst. Ég taldi jafnvel að ég hefði ástæðu til að ætla að allir samferðamennirnir í þessari för væru sömu skoðunar, að þetta væri óbærilegt fyrir íbúa á þessu svæði. Það er óbærilegt vegna þeirrar mengunarhættu sem þessir geymar hafa í för með sér og það er óbærilegt vegna þeirra tálmana sem staðsetning geymanna setur framtíðaruppbyggingu og tengingu þessara tveggja sveitarfélaga. Þannig er málum háttað og því finnst mér skylt að mæla með samþykkt þessarar tillögu.

Ég sé líka að till. fjallar um að flýta þessum framkvæmdum. Undir það vil ég mjög eindregið taka. Vegna ummæla hæstv. félmrh. áðan vil ég láta það koma fram, að ég sé ekki betur en samkvæmt fylgiskjölum grg. þessarar þáltill. sé þegar búið að leita til þeirra umsagnaraðila sem hugsanlega er þörf á að leita til áður en framkvæmdir hefjast. Ég tel sjálfsagt að gera sér grein fyrir þessu máli öllu sem grandgæfilegast og m. a. hinni nýju staðsetningu, sem hefur meðmæli sveitarfélaga í nágrenninu, en legg á það áherslu, að þeirri athugun ljúki sem allra fyrst svo að framkvæmdir geti hafist.

Annars vakti það athygli mína hve hæstv. félmrh. var hógvær og lítillátur í ræðustól áðan og stóru orðin, sem bæði hann og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafa haft um þessi mál öll, varnarframkvæmdir á Keflavíkurflugvelli, voru nú ekki lengur fyrir hendi. Það er þess vegna athyglisvert og áhugavert raunar að rifja hér upp það sem sagt er um þessi mál í fréttabréfi framkvæmdastjórnar Alþb. 1. bréfi 1981, sem ég hef undir höndum. (ÓRG: Hvar komst þm. yfir það?) Það skiptir ekki máli. Ég sé ekki neins staðar getið um að þetta sé trúnaðarmál. (ÓRG: Bréf til annarra eru það yfirleitt. Þau eru ekki lesin upphátt.) Hér segir bara: Fréttabréf framkvæmdastjórnar. Það segir ekkert hver er móttakandi. Það segir hver er sendandi. (ÓRG: Því spyr ég hvernig þm. komst yfir það.) Það verður að spyrja framkvæmdastjórn Alþb. Hún dreifði bréfinu. — En með leyfi hæstv. forseta segir svo um utanríkis- og herstöðvamálið:

„Í fjölmiðlum að undanförnu hefur allmikið verið rætt um utanríkismál og herstöðina og meðferð utanrrh. á þeim málum. Hefur hann látið frá sér fara mjög óheppilegar og neikvæðar yfirlýsingar um þau mál, sem hafa valdið erfiðleikum í stjórnarsamstarfinu, ekki bara milli Alþb. og hinna flokkanna, heldur einnig mjög verulegri óánægju innan Framsfl. Þau mál, sem um er að ræða, eru einkum þrjú.“

Áður en lengra er haldið get ég um að þessi kafli fréttabréfsins er undirritaður af hæstv. félmrh. Síðan hann skrifaði þennan kafla fréttabréfsins hefur hann sem betur fer róast eftir ræðu hans áðan hér á fundi að dæma. — En áfram skal ég halda tilvitnun í pistil hæstv. ráðh. Svavars Gestssonar í fréttabréfinu. Hann segir:

„Þau mál, sem um er að ræða, eru einkum þrjú: Í fyrsta lagi er þar um að ræða flugstöð á Keflavíkurflugvelli, en þar er talað um mjög stóra flugstöð, miklu stærri en nokkur þörf er á fyrir samgöngur þær sem verða í fyrirsjáanlegri framtíð á lofti til og um Ísland. Í áætlunum, sem gerðar hafa verið um þessa flugstöð, er gert ráð fyrir að þar verði einnig eins konar hersjúkrahús, þannig að hér er í raun ekki um að ræða aðskilnað hernaðarflugs og farþegaflugs, heldur hernaðarframkvæmdir.

Það, sem hefur verið okkur þyrnir í augum í sambandi við þessar framkvæmdir, er auðvitað það, að það hefur verið gert ráð fyrir því, að Bandaríkjamenn kosti flugstöðina, og við teljum slíkt algjörlega óeðlilegt og ólíðandi að svo miklu leyti sem um er að ræða flugstöð fyrir landsmenn sjálfa. Alþb. telur nauðsynlegt að endurskoða öll þessi áform um flugstöð og að ákvarðanir um flugstóð handa Íslendingum verði teknar á réttum vettvangi hér innanlands, en ekki af bandarískum hershöfðingjum. Í málefnasamningi núverandi ríkisstj. er ákvæði um það, að það þurfi samkomulag allra aðila að ríkisstj. til þess að ráðist verði í framkvæmdir við flugstöðina. Hér er um að ræða lykilatriði og verði gerð tilraun til þess að brjóta gegn þessu ákvæði, t. d. með því að bera Alþb. atkvæðum á Alþingi, þá er ljóst að slíkt væri hreint brot á málefnasamningi ríkisstj. og á ábyrgð þeirra sem að slíku standa. Það væri þá ekki Alþb., heldur aðrir sem væru að brjóta niður grundvöll þeirrar ríkisstj. sem starfar í landinu.

Annar þáttur þessara mála, sem hefur verið ræddur talsvert, er olíugeymar í Helguvík. Þar var gert ráð fyrir stórfelldri aukningu á geymarými og hafa menn talið að þar væri um að ræða verulega aukningu á hernaðarmannvirkjum bandaríska hernámsliðsins á Íslandi. Hernámssinnar hafa í þessum efnum notað sér mengunarvanda þann sem skapast hefur af olíugeymum hersins í Keflavík. Alþb. er þeirrar skoðunar, að það sé óhjákvæmilegt að leysa úr þessum mengunarvanda og firra íbúa Suðurnesja þeim háska sem olíugeymarnir geta valdið eins og þeir eru nú, en jafnframt er Alþb. andvígt því, að með þessu verði lagt í meiri háttar hernaðarframkvæmdir. Ég tel að það sé góð von til þess, að það sé hægt að ná samkomulagi um það á vettvangi ríkisstj. að skera niður þau áform sem uppi hafa verið um stórfellda aukningu geymslurýmis og að hér verði aðeins teknar ákvarðanir um endurnýjun geyma í stað þeirra sem nú ógna vatnsbólum Suðurnesja vegna mengunarhættu.

Þriðji þátturinn, sem ræddur hefur verið að undanförnu, er bygging flugskýla á Keflavíkurflugvelli. Þar er um að ræða skýli yfir þær flugvélar sem bandaríski herinn hefur, og hefur utanrrh. einhliða og án nokkurs samráðs við aðra stjórnarflokka né heldur sína eigin flokksbræður í ríkisstj. tekið ákvörðun um þessi mál. Er vafasamt að það takist að snúa við af þeirri braut sem utanrrh. hefur lagt inn á. Hér er um að ræða þrjú flugskýli fyrir bandaríska herinn.

En aðalatriðið í þessu máli öllu er auðvitað það, að þegar núv. ríkisstj. var mynduð náði Alþb. ekki fram sínum stefnumiðum að því er varðar herstöðina. Þess vegna var og á að vera ríkjandi milli stjórnarflokkanna drengskaparsamkomulag um „status quo“ eða óbreytt ástand í herstöðinni. Það þýðir vitaskuld ekki það, að unnt sé að koma í veg fyrir að bandaríska hernámsliðið lagfæri þau mannvirki, sem það er með þarna suður frá, eða endurnýi tæki að einhverjum hætti, en þetta drengskaparsamkomulag er í raun og veru meginforsenda stjórnarinnar. Þegar ríkisstj. var mynduð var undirritað samkomulag milli flokkanna þar sem kemur fram „að ef ágreiningsmál komi upp í ríkisstj. hafi hver stjórnaraðili neitunarvald ef hann vill beita því“. Hér er um að ræða algjörlega afdráttarlaust ákvæði þannig að staða okkar í þessum efnum á að vera nægilega sterk til þess að koma í veg fyrir að bandaríska hernum líðist að auka hernaðarumsvif á Keflavíkurflugvelli.“

Síðan kvartar Svavar Gestsson mjög yfir harðvítugri stjórnarandstöðu sem hefur einskis svifist, bæði við að tæta í sundur þau málefni, sem ríkisstj. hefur lagt fyrir, og eins við að níða niður þá ráðh. og forvígismenn stjórnarflokkanna sem hafa einkum verið í fyrirsvari af þeirra hálfu. Hvílíkir kveinstafir! Loks ber hann sér á brjóst og telur stöðu Alþb. innan stjórnarinnar og út á við sterka.

Ég efast ekki um að staða Alþb. innan ríkisstj. sé sterk og áhrifa Alþb. gæti innan ríkisstj. og reyndar út á við mun meira en kjörfylgi Alþb. gefur því rétt til. Það er það óhugnanlega við núverandi stjórnarsamstarf, að Alþb. hefur að þessu leyti skapað sér ákveðan lykilaðstöðu. Ég tel að það muni koma í ljós á næstu vikum og mánuðum hvort þessi lykilaðstaða sem Alþb. hefur í núverandi stjórnarsamstarfi, nær til sjálfstæðismála Íslands eins og öryggis- og varnarmála.

Ég hef trú á að hæstv. utanrrh. meti stöðuna í varnar- og öryggismálum sjálfstætt og sé trúandi til þess að standa vörð um þau efni. En hins vegar er það uggvekjandi ef gerður hefur verið leynisamningur án þess að hann hafi um hann vitað, eins og hann hefur sjálfur skýrt frá, sem túlkaður sé þannig af hálfu Alþb.-manna að hann leggi höft og hömlur á sjálfstæðan ákvörðunarrétt utanrrh. í varnar- og öryggismálum. Ég hlýt að líta svo á, að slíkur leynisamningur hljóti að vera ógildur hvað sem má segja um gildi hans gagnvart þeim sem hafa undirritað hann, en upplýst hefur verið að það eru þeir Gunnar Thoroddsen forsrh., Ragnar Arnalds fjmrh. og Steingrímur Hermannsson samgrh. Hvað sem má segja um gildi hans gagnvart þeim sem hafa undirritað hann, ætti stjórnskipulegt gildi hans ekki að vera fyrir hendi.

Hér er auðvitað farið á bak við Alþingi og brotnar þingræðisreglur. Alþingi er ekki kynnt á hvaða grundvelli stjórnarmyndunin byggist. Ef þetta er forsenda stjórnarmyndunarinnar og stjórnarsamstarfsins, eins og hæstv. félmrh. segir, er ljóst að þessar forsendur eru í raun brostnar.

Það verður áreiðanlega ástæða til að fjalla nánar um upplýsingar þær sem koma fram í þessu fréttabréfi. Þær eru m. a. athyglisverðar fyrir þá sök, að þar er að finna upplýsingar sem þm. Alþb. töldu ekki fært að gefa Alþingi Íslendinga þegar þessi mál voru til umræðu fyrir nokkru, en þeir telja sér mögulegt að senda þessar upplýsingar í opnu fréttabréfi, sem framkvæmdastjórn Alþb. gefur út. Þögn þeirra á Alþingi sýndi feimni þeirra og uppburðarleysi á vettvangi löggjafarsamkomunnar. En þegar fylgismenn þeirra gagnrýndu þá fyrir það uppburðarleysi og kjarkleysi á Alþingi, þegar hv. þm. formaður Alþb. gerði ekkert meira en að gjamma úr stól sínum til ræðumanna og reyna að trufla fundarhald, urðu þeir smeykir við eigin fylgismenn og töldu sér nauðsynlegt að senda þeim orðsendingu og skýringar, sem þeir höfðu upp á vasann, til að öðlast starfsfrið í eigin flokki. (Félmrh.: Er þm. að tala um Watergate-mál?) Þetta er Watergate-mál af hálfu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar og hæstv. félmrh. og þeirra sem telja sér sæmandi að undirrita leyniplagg sem er forsenda stjórnarsamstarfsins í staðinn fyrir að koma hreint og opinskátt fram gagnvart umbjóðendum sínum og láta birta þessa forsendu stjórnarsamstarfsins og láta það koma fram hreint í stjórnarsamningnum á hvaða forsendum ríkisstj. er mynduð. En þessir menn höfðu ekki kjark til þess. Það átti að stinga þessu ákvæði undir stól vegna þess að það hefði ekki mælst vel fyrir.

Í þessu sambandi eru málefni ríkisstj. orðin innanflokksmál Alþb. Ég gerði töluvert úr áhrifum Alþb., en ég hef ekki enn leyft mér að segja að þetta væri innanflokksmál Alþb. En vera má að sumir samstarfsaðilarnir í ríkisstj. séu svo langt leiddir í taumi Alþb. að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hafi eitthvað til síns máls. (Gripið fram í.) Watergate var nefnt af hæstv. félmrh. og samsinnt af mér svo að ef einhver hefur sakað einhvern er það hæstv, félmrh. En ég vil leggja áherslu á að hæstv. félmrh. er nú hógværari en hann hefur áður verið, loks þegar hann fékk málið og tók hér til máls, þótt hann hefði ekki sagt alla söguna eins og hann segir hana í fréttabréfi framkvæmdastjórnar Alþb., sem út af fyrir sig gefur tilefni til að taka þetta mál raunar seinna upp á Alþingi.

Varðandi till. til þál. um olíuhöfn og birgðastöð í Helguvík er það ljóst, að Alþb. má ekki beita neitunarvaldi sínu samkv. leynisamningnum vegna þess að það brýtur í bága við hagsmuni íbúanna í Keflavík og Njarðvíkum, en enn fremur vegna þess að hér er um að ræða nauðsynlega framkvæmd vegna varnar- og öryggishagsmuna Íslendinga. Íslendingar eiga auðvitað að leggja sjálfstætt mat á hvort þessar framkvæmdir séu nauðsynlegar vegna varnar- og öryggishagsmuna Íslendinga, og það er þess vegna ekki rétt að afgreiða allar beiðnir um varnarframkvæmdir án þess að slíkt mat fari fram frá sjónarmiði Íslendinga sjálfra. En ég hef þá trú, að í þessu tilviki fari saman hagsmunir varnar- og eftirlitsstöðvarinnar í Keflavík frá sjónarmiði þeirra, sem standa fyrir þeirri stöð, Bandaríkjamanna, og varnar- og öryggishagsmunir Íslendinga, sem hafa varnarliðið og varnarstöðina sjálfs sín vegna. Því vil ég leggja á það áherslu, að þessi þáltill. verði samþykkt, og beina því til hæstv. utanrrh. að hann flýti athugun málsins svo að framkvæmdir geti hafist hið fyrsta.