02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3387 í B-deild Alþingistíðinda. (3469)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Jóhann Einvarðsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns lýsa yfir stuðningi mínum við þáltill. þá sem hér er til umr., þ. e. „að fela utanrrh. að hraða svo sem verða má byggingu olíustöðvar í Helguvík“ o. s. frv. Að vísu tel ég ástæðulaust að hvetja hæstv. núv. utanrrh. til að hraða þessu hagsmunamáli, ég treysti honum manna best til að tryggja framgang þess, en að gefnu tilefni, m. a. vegna þeirra umræðna sem farið hafa fram um málið í fjölmiðlum og jafnvel hér á hv. Alþingi, tel ég fulla ástæðu til þess að vilji Alþingis í þessu hagsmunamáli Suðurnesja komi skýrt fram.

Meginástæða þess, að málið er svo mikið til umræðu nú sem raun ber vitni um, er að í fyrsta lagi kom fram í sumar skýrsla nefndar sem hafði verið falið að athuga málið og gera tillögur um lausn þess, en nefnd þessi var skipuð fulltrúum frá utanrrn. og varnarliðinu, í öðru lagi þáltill. sú sem hér er til umr. og í þriðja lagi þær umræður sem farið hafa fram hér og annars staðar um framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli.

Þáltill. þessi er fyrst og fremst lögð fram vegna þeirra umræðna, sem fram höfðu farið um skýrslu fyrrnefndrar nefndar, og e. t. v. ekki síður vegna viðbragða flestra Alþb.-manna við því máli. — Það skal strax tekið fram til upplýsingar, að undirritaður var staddur erlendis þegar þáltill. þessi var lögð fram svo að ég átti ekki kost á því að gerast meðflm. hennar. — En lítum nú aðeins á aðalstaðreyndir málsins.

Varnarliðið mun nú hafa 19 tanka undir eldsneyti. Sumir ern niðurgrafnir, en aðrir ofanjarðar. Allir munu þessir tankar byggðir á síðustu árum síðari heimsstyrjaldarinnar og fram undir 1950–1951 og þá til bráðabirgða. Tankarnir eru allir staðsettir yfir vatnsbólum Njarðvíkur, sem trúlega eru samtengd vatnsbólum Keflavíkur. Eins og kunnugt er eru vatnsholur þessara byggðarlaga innan við 40–50 m djúpar svo að mengunarhætta vatnsbólanna er mikil ef olía í litlu eða miklu magni færi út í jarðveginn — og slysið gæti verið skeð því dæmi eru til þess að olía skili sér í gegnum jarðveginn eftir allmörg ár, jafnvel 20–30 ár. Um ástand geymanna fer ég ekki mörgum orðum. Þeir gætu þess vegna allir gefið sig eftir stuttan tíma og ekki varlegt að treysta þeim nema til allra næstu ára. Ástand geyma varnarliðsins í Hvalfirði mun einnig vera allslæmt, a. m. k. eldri geymanna, en þeir eru ekki staðsettir eins nærri þéttri byggð og geymarnir suður frá. Ég læt þetta duga um tankana, en minni jafnframt á að þeir eru svo nærri byggðinni að það eru innan við 200 m að næsta íbúðarhúsi. Frá öryggissjónarmiði þarf því að flytja þá.

Nokkur orð síðan um uppskipunaraðstöðuna við Keflavíkurhöfn og lagnirnar þaðan og að tönkunum. Olíuuppskipun í eða við fiskihöfn er fráleit. Það hafa þegar orðið tvö óhöpp við höfnina. Bæði hefðu þau getað orðið stórslys, en urðu sem betur fer ekki. Lagnirnar frá höfninni eru eins og tankarnir orðnar gamlar og skera byggðina svo að til vandræða er.

Aðalókostur núverandi ástands er því mengunarhætta vatnsbólanna, öryggisatriði vegna nálægðar byggðar, skipulagsóhagræði, uppskipun eldsneytis í fiskihöfn, ástand og aldur tanka og lagna.

Auk fyrrnefndra atriða vil ég nefna eitt til viðbótar við lýsingu á núverandi ástandi. Það er akstur eldsneytis frá Reykjavík og Hafnarfirði til Keflavíkurflugvallar vegna íslenska flugflotans og alls flugs utan herflugs. Þetta munu vera um 65 þús. tonn á ári að meðaltali. Eins og allir vita hafa orðið óhöpp og slys vegna þessa aksturs, auk þess að þetta hefur valdið verulegu sliti á veginum. Því er mál að þessum akstri linni, enda vegurinn orðinn hættulegur vegna slitsins, ekki síst í vætutíð.

Það eru orðin allmörg ár síðan bæjarstjórnirnar í Keflavík og Njarðvík hófu í samráði við stjórn Landshafnarinnar umræður um þetta vandamál og fóru að móta kröfugerð á hendur varnarliðinu um úrbætur. Eitt af því fyrsta, sem samstaða var um hjá þessum aðilum, var að nauðsynlegt væri að samkomulag næðist um nýjan stað fyrir tankana sem síðan væri hægt að krefjast framkvæmda á. Hafin var frumkönnun á staðarvali og eftir allítarlega könnun urðu allir á eitt sáttir um að heppilegasti staðurinn væri Helguvík. Ástæður þessa vals voru margar, en þessar helstar: Staðurinn er í útjaðri væntanlegrar byggðar, grunnvatnsrennsli er til sjávar og því minni hætta á mengun vatnsbóla, dýpið er það mikið að löndun væri framkvæmanleg úr allstórum skipum, lagnir færu neðanjarðar í útjaðri byggðar til væntanlegrar flugstöðvarbyggingar og síðan ofan byggðar til varnarsvæðisins. Að sjálfsögðu yrðu allar framkvæmdir gerðar með tilliti til ítrustu krafna og nútímaþekkingar til að draga úr mengunar- og slysahættu. — Bæta má við, að verði við þetta að skerða byggingarmöguleika á þessu svæði bætast þeir að fullu og vel það á því svæði sem losnar þegar núverandi tankar og lagnir hverfa. Umræður um sameiginlegan miðbæ á þessu svæði fyrir Keflavík og Njarðvík eru þegar hafnar.

Nefnd sú, sem fyrrv. utanrrh., Benedikt Gröndal, skipaði í september 1979 og lauk störfum s. l. sumar, komst að sömu niðurstöðu og heimamenn, þ. e. að af þeim stöðum, sem til greina kæmu, væri Helguvík heppilegust. Staðfesting fékkst einnig á því, að bandaríska varnarliðið og NATO mundu greiða allan kostnað vegna þessara framkvæmda.

Með tilliti til þess, sem ég hef nú rakið, þ. e. staðsetningin er talin heppileg af þeim, sem til þekkja og hagsmuna hafa að gæta, og að fjármagn er einnig tryggt til framkvæmdanna, legg ég áherslu á að hafist verði handa sem allra fyrst, en minni jafnframt á að samhliða verður að leysa þann vanda og hættu sem er vegna hins mikla aksturs með brennsluefni um Reykjanesbraut.

Að lokum legg ég áherslu á að framkvæmdir þessar gætu haft góð áhrif á atvinnuástandið á Suðurnesjum, sem er um þessar mundir mjög viðkvæmt svo sem kunnugt er, en þessar framkvæmdir ættu þó ekki að valda neinni óþarfaþenslu á vinnumarkaðinum þar sem reiknað er með að hér sé um 7 ára framkvæmdir að ræða ef ráðist verður í allar framkvæmdirnar samkv. tillögum nefndarinnar. Einnig kemur til greina að taka nú aðeins ákvörðun um hluta þeirra. Ég legg áherslu á að við þessar framkvæmdir sem aðrar á Keflavíkurflugvelli verði haft fullt samráð við sveitarstjórnirnar á Suðurnesjum svo að framkvæmdir á svæðinu í heild verði samræmdar sem mest. Ég vil einnig beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. utanrrh., að innlendir hönnuðir verði látnir taka svo mikinn þátt í hönnun verksins sem kostur er.

Herra forseti. Ég legg til, að þáltill. þessi verði samþykkt, og skora á aðra hv. alþm. að gera slíkt hið sama.