02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3389 í B-deild Alþingistíðinda. (3470)

99. mál, eldsneytisgeymar varnarliðsins

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir greinagott yfirlit yfir það mál sem hér er til umr.

Það er staðreynd, að miðað við núverandi ástand heimsmála er yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar fylgjandi aðild að Atlantshafsbandalaginu og fylgjandi varnarsamningnum við Bandaríkin. Fyrst svo er, að við teljum varnir landsins nauðsynlegar, liggur í augum uppi að varnarliðið þarf á þeirri aðstöðu að halda sem nauðsynleg er til að það geti sinnt ætlunarverki sínu.

Flutningur olíugeymanna er mikið hagsmunamál byggðanna í nágrenni núverandi olíugeyma, þ. e. Keflavíkur og Njarðvíkur, bæði vegna mengunarhættu og vegna þess að þeir standa á mjög verðmætu landi — landi sem gæti orðið miðbær þessara kaupstaða sameinaðra, eins og hugmyndir eru uppi um og eins og hv. 5. þm. Reykn. kom inn á. Þetta land er auðvitað mikið atriði fyrir þessi bæjarfélög, sem bæði eru landlaus. Mér finnst það satt að segja furðulegt af hæstv. félmrh. að hann skuli kalla það annarleg sjónarmið þegar sveitarstjórnarmenn vilja losa sveitarfélög sín við yfirvofandi mengunarhættu og þegar þeir vilja ná mjög verðmætu landi til afnota fyrir sín byggðarlög.

Það er mikið hagsmunamál, ekki aðeins fyrir varnarliðið, heldur og Íslendinga sjálfa, að sem mestar olíubirgðir séu til í landinu á hverjum tíma. Má í þeim efnum benda á að varnarliðið hefur oftar en einu sinni lánað Íslendingum olíu þegar á hefur þurft að halda.

Hæstv. félmrh. segist undrandi á þessari þáltill. og telur að hún sé ótímabær. Ég er honum algerlega ósammála og tel þá till. fyllilega tímabæra.